asdfasdfasdf

Það er ánægjulegt að sjá tölur um aukna notkun reiðhjóla sem samgöngutækja, líkt og sjá má hér á síðunni. Sérstaklega ánægjulegt er að sjá að aukin notkun reiðhjóla sem samgöngutækja er hægt og bítandi að færa sig meira út í úthverfi og nágrannasveitarfélög Reykjavíkur.

Ofurvöxturinn sem var í nýkeyptum hjólum undanfarin ár virðist að baki sem og fjöldi nýrra keppenda sem komu inn í tengslum við cyclothonið á sínum tíma. Þessi samgöngumáti er þó að festa sig í sessi og vetrarhjólreiðar hafa verið að færast í vöxt. Þetta var m.a. fyrsti veturinn þar sem undirritaður fór mikinn meirihluti ferða í og úr vinnu á reiðhjóli.

Rafmagnshjól varð fyrir valinu hluta vetrarins og er með sanni hægt að segja að slík tæki séu algjör bylting fyrir samgönguhjólreiðar. Í raun er munurinn svo mikill að almennar afsakanir fyrir því að hjólreiðar gangi illa upp á Íslandi eiga ekki við lengur. Hvort sem um er að ræða afsakanir vegna vegalengda, vandamála við að svitna eða erfiðleika við að fara upp hæðótt landslag, þá hefur rafmagnshjólið jarðað þessi rök. Eftir því sem fleiri uppgötva þennan fararmáta er ég þess viss að það muni breyta ferðavenjum til frambúðar.

Það skemmir ekki að undanfarin ár hefur verið unnið mikið og gott starf í að leggja hjólastíga víða um borgina og spilar samgöngusáttmálinn þar stóra rullu. Í blaðinu er ítarlega farið yfir þær framkvæmdir sem eru í gangi og eru fram undan og ljóst að við munum sjá fram á stóra áfanga á þeim vettvangi á næstu tveimur árum.

Kröfur til hjólastíga þurfa einnig að vera sambærilegar og til gatna fyrir bíla. Stígarnir mega ekki aflagast eða springa upp við fyrsta frost né mega framkvæmdaraðilar komast upp með frágang sem er ábótavant. Hjólastígar mega ekki heldur mæta afgangi í vetrarþjónustu og gæta þarf að öryggismálum í hönnun t.d. við 90 gráðu beygjur og blindhorn eða þar sem stígar blandast annarri umferð á furðulegan hátt. Lengi hafa hjólreiðar verið á botninum í skipulagsmálum og þótt nú horfi til mun betri vegar á þeim vettvangi er um að gera að láta sveitarfélög vita þegar betur má fara.

Lögreglan þarf einnig að sýna í verki að hún sé í liði með hjólreiðafólki, en of lengi hefur hjólaþjófnaður verið látinn viðgangast og verið neðst í forgangsröðinni. Þá er sárt að sjá hversu langan tíma hefur tekið að rannsaka mál þar sem keyrt var á hjólreiðamann á Laugavegi, að því er virðist viljandi, líkt og mbl.is hefur fjallað um nýlega. Þetta er ekki til að auka áhuga fólks á að nota þennan vistvæna samgöngumáta.

Rétt er að enda þetta á jákvæðu nótunum, en það er gaman að sjá metnaðinn sem er í gangi innan HRÍ varðandi afreksstarfið og stórhuga áform afreksstjóra og annarra um uppbyggingu þar. Í blaðinu er einnig rætt við tvær vonarstjörnur sem munu örugglega geta sér áfram gott orð í framtíðinni. Það er aldrei að vita nema maður sjái íslenska fánann í almennum hjólakeppnum erlendis í framtíðinni. Maður má allavega láta sig dreyma.

Þetta er sjötta útgáfa Hjólablaðsins í umsjón undirritaðs og vonandi finnur allt hjólreiðaáhugafólk eitthvað við sitt hæfi í blaðinu. Gleðilegt hjólasumar.