Mótmæli Nemendur sýna stuðning sinn við Palestínumenn á Gasasvæðinu.
Mótmæli Nemendur sýna stuðning sinn við Palestínumenn á Gasasvæðinu. — AFP/Brandon Bell
Mótmæli á háskólasvæðum sumra virtustu háskóla Bandaríkjanna hafa stigmagnast á síðustu dögum, en fjöldi nemenda mótmælir nú framgöngu Ísraelsmanna á Gasasvæðinu. Háskólarnir hafa margir reynt að grípa til sinna ráða til að draga úr spennu á…

Iðunn Andrésdóttir

idunn@mbl.is

Mótmæli á háskólasvæðum sumra virtustu háskóla Bandaríkjanna hafa stigmagnast á síðustu dögum, en fjöldi nemenda mótmælir nú framgöngu Ísraelsmanna á Gasasvæðinu. Háskólarnir hafa margir reynt að grípa til sinna ráða til að draga úr spennu á háskólasvæðunum en mótmælendur hafa haldið ótrauðir áfram þrátt fyrir mótbárur.

Hefur Columbia-háskólinn til að mynda aflýst staðkennslustundum og háskólasvæðum Yale og Harvard hefur verið lokað fyrir almenningi. Fleiri hundruð mótmælendur hafa verið handteknir og hafa mótmælin nú breiðst út til Texas og Kaliforníu og m.a. verið boðað til mótmæla í MIT, UC Berkeley, Michigan-háskóla og Brown.

Gætu tapað fjárframlögum

Upptök mótmælanna má rekja til Columbia-háskólans í síðustu viku þar sem fleiri en 100 nemendur voru handteknir fyrir að tjalda á háskólasvæðinu í mótmælaskyni. Svipaðar tjaldbúðir hafa í kjölfarið sprottið upp víða í öðrum háskólum. Mótmælendur segja mótmælin fyrst og fremst yfirlýsingu um samstöðu með Palestínumönnum á Gasasvæðinu, þar sem fleiri en 34.200 hafa verið drepnir í kjölfar árása Ísraelsmanna.

Skora mótmælendur einnig á Columbia-háskólann, sem og aðra háskóla, að slíta tengslum og samstarfi við fyrirtæki sem tengjast Ísrael. Hafa mótmælendur verið ásakaðir um gyðingaandúð af stuðningsmönnum Ísraelsmanna en mótmælendurnir, sem sumir hverjir eru sjálfir gyðingar, hafa þvertekið fyrir slíkan ásetning. Er talið að fjöldi auðmanna sem veiti háskólunum fjárframlög endurskoði nú fjárveitingar sínar til skólanna vegna mótmælanna.

Umdeild ummæli

Forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Mike Johnsson, heimsótti skólann meðan á mótmælunum stóð og lét þau ummæli falla að ef ekki væri hægt að ná tökum á mótmælunum innan skamms væri kominn tími til að siga þjóðvarðliði Bandaríkjanna á mótmælendur. Eru margir uggandi yfir ummælum Johnsons í ljósi þess að fjórir óvopnaðir mótmælendur við Kent-háskóla í Ohio voru drepnir og níu særðust er þjóðvarðliðið hleypti af skotvopnum inn í þvögu mótmælenda sem mótmæltu Víetnamstríðinu árið 1970.

Höf.: Iðunn Andrésdóttir