Skot Miðjumaðurinn ungi Gísli Gottskálk Þórðarson skýtur að marki Víðismanna í Fossvoginum í gær, þar sem Víkingur lenti óvænt undir snemma.
Skot Miðjumaðurinn ungi Gísli Gottskálk Þórðarson skýtur að marki Víðismanna í Fossvoginum í gær, þar sem Víkingur lenti óvænt undir snemma. — Morgunblaðið/Óttar
Breiðablik var eina liðið úr Bestu deildinni sem mistókst að vinna andstæðing sinn úr deildunum fyrir neðan er 32-liða úrslitum bikarkeppni karla í fótbolta lauk í gærkvöldi. Keflavík, sem féll úr Bestu deildinni í fyrra, vann þá góðan sigur á Kópavogsliðinu, 2:1, á gervigrasinu við Reykjaneshöllina

Breiðablik var eina liðið úr Bestu deildinni sem mistókst að vinna andstæðing sinn úr deildunum fyrir neðan er 32-liða úrslitum bikarkeppni karla í fótbolta lauk í gærkvöldi. Keflavík, sem féll úr Bestu deildinni í fyrra, vann þá góðan sigur á Kópavogsliðinu, 2:1, á gervigrasinu við Reykjaneshöllina.

Danski sóknarmaðurinn Sami Kamel skoraði bæði mörk Keflavíkur. Kristófer Ingi Kristinsson lagaði stöðuna fyrir Breiðablik á 75. mínútu en nær komust Blikar ekki.

ÍR, sem verður nýliði í 1. deildinni í ár, gaf KA góðan leik á Akureyri. Daníel Hafsteinsson skoraði sigurmark KA í 2:1-sigri á lokamínútu framlengingarinnar eftir spennandi leik.

Ótrúlegt mark í Víkinni

Þá lentu ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar Víkings úr Reykjavík undir á heimavelli gegn Víði úr Garði sem leikur í 3. deildinni þegar Spánverjinn David Toro skoraði stórkostlegt mark frá miðjum eigin vallarhelmingi á 13. mínútu. Víkingur svaraði með mörkum frá Aroni Elís Þrándarsyni, Helga Guðjónssyni, Ara Sigurpálssyni og Nikolaj Hansen.

Úrvalsdeildarliðin Fram, Vestri og Fylkir eru öll komin áfram eftir útisigra á liðum í deildunum fyrir neðan.

Fram vann Árbæ úr 3. deild á Þróttaravellinum í Laugardal, 3:0. Lokatölurnar segja ekki alla söguna, því staðan var 1:0 fram að 86. mínútu þegar Magnús Þórðarson skoraði loks annað mark Fram, eftir að Aron Snær Ingason hafði skorað snemma leiks. Egill Otti Vilhjálmsson bætti svo við öðru marki á lokamínútunni.

Vestri lenti undir

Vestri lenti í vandræðum gegn Haukum úr 2. deildinni á Ásvöllum. Pétur Bjarnason skoraði snemma leiks fyrir Vestra en þeir Magnús Ingi Halldórsson og Djordje Biberdzic sneru taflinu við fyrir Hauka. Vestramenn svöruðu hins vegar með mörkum frá Toby King, Friðriki Þóri Hjaltasyni og Ívari Breka Helgasyni.

Þá þurfti Fylkir að hafa fyrir 1:0-útisigri á 2. deildarliði Hattar/Hugins á Fellavelli. Ómar Björn Stefánsson skoraði sigurmarkið á 60. mínútu.

Tíu lið af tólf

Tíu lið af tólf í Bestu deildinni verða í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslitin í dag. Valur vann FH, 3:0, í eina innbyrðisslag deildarinnar á miðvikudag og eru FH og Breiðablik einu liðin úr efstu deild sem eru fallin úr leik. Nánar er fjallað um bikarinn á mbl.is/sport.