Hjörtur J. Guðmundsson
Hjörtur J. Guðmundsson
Viðreisn mældist einungis með 7% fylgi í síðustu könnun Gallups. Minna en í síðustu kosningum. Í stjórnarandstöðu.

Hjörtur J. Guðmundsson

„Frá upphafi hefur verið ljóst að andstaða VG við aðild að ESB myndi veikja samningsstöðu Íslands. Eftir því sem nær dregur efnislegum viðræðum verður þetta vandamál skýrara,“ ritaði Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi sendiherra, í Fréttablaðið 23. október 2010 um misheppnaða umsókn þáverandi ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um inngöngu í Evrópusambandið.

Þorsteinn, sem óhætt er að kalla guðföður Viðreisnar, benti ítrekað á það í pistlum sínum í Fréttablaðinu að ríkisstjórn, sem ekki væri samstiga um inngöngu í Evrópusambandið, gæti þannig ekki staðið að slíkri umsókn. Enn fremur ritaði hann: „Viðræður af þessu tagi lúta sömu lögmálum og aðrir samningar. Ákvarðanir þarf að taka jafnt og þétt eftir því sem þeim vindur fram.“ Þann 20. nóvember sama ár ritaði hann:

„Sú pólitíska tvöfeldni VG að greiða atkvæði með aðildarumsókn en vera jafnframt á móti aðild veikir stöðu Íslands í samningaviðræðum. Hún útilokar jafnframt að unnt verði að ljúka samningnum nema fleiri flokkar verði þá tilbúnir til að axla ábyrgð á niðurstöðunni. Ástæðan er sú að það er andstætt þingræðisreglunni að utanríkisráðherra undirriti samning ef meirihluti þingmanna styður ekki efni hans.“

Þá ritaði Þorsteinn enn fremur í blaðið 15. janúar 2011 að án þingmeirihluta sem ábyrgðist undirritun slíks samnings yrði hann ekki að veruleika: „Veruleikinn er sá að báðir stjórnarflokkarnir þurfa að gangast undir sameiginlega ábyrgð á samningaferlinu öllu. Aðrir kostir eru að hætta við eða slíta samstarfinu.“ Sem sagt að flokkar andvígir inngöngu í Evrópusambandið gætu ekki staðið að slíkri umsókn.

Kvartað yfir klofinni ríkisstjórn

Fulltrúar Evrópusambandsins, sem höfðu það verkefni með höndum að hafa eftirlit með framgangi umsóknar ríkisstjórnar vinstriflokkanna, lýstu því ítrekað yfir á meðan umsóknarferlið var í gangi að það ylli verulegum áhyggjum að ríkisstjórnin væri ekki samstiga í afstöðu sinni til þess hvort ganga ætti í sambandið. Einnig að innan stjórnarflokkanna væri ekki einhugur um málið. Sem sagt sammála Þorsteini.

Til að mynda segir þannig í þingsályktunartillögu 13. nóvember 2012 sem þingmaðurinn Cristian Dan Preda ritaði sem fulltrúi utanríkismálanefndar þings Evrópusambandsins um framvindu umsóknarinnar og samþykkt var með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða: „Þing Evrópusambandsins ítrekar áhyggjur sínar af pólitískum ágreiningi innan ríkisstjórnarinnar og stjórnmálaflokkanna varðandi inngönguna í það.“

Kveðið hefur hins vegar við talsvert nýjan tón í skrifum Þorsteins í seinni tíð í þessum efnum. Þannig kallaði hann um síðustu páska eftir þjóðaratkvæði fyrir lok ársins um það hvort stefna ætti á nýjan leik að inngöngu í Evrópusambandið í grein á Dv.is líkt og Viðreisn hefur einnig gert. Með öðrum orðum er nú í góðu lagi að þeirra mati að ríkisstjórn sem er alfarið andvíg inngöngu standi að því að taka skref í þá átt.

Vitanlega er í lagi að skipta um skoðun. Hins vegar er ljóst að áðurnefnd skrif Þorsteins í Fréttablaðinu eru í fullu samræmi við reynsluna af umsókn vinstristjórnarinnar, fyrirkomulag umsóknarferlisins, íslenzka stjórnskipun og afstöðu Evrópusambandsins. Ný afstaða hans er á hinn bóginn í fullu ósamræmi við reynslu vinstristjórnarinnar, fyrirkomulag umsóknarferlisins, stjórnskipun landsins sem og afstöðu sambandsins.

Forsendan samstiga ríkisstjórn

Forsenda þess að tekin verði skref í átt að inngöngu í Evrópusambandið er þingmeirihluti fyrir málinu, kjörinn af íslenzkum kjósendum, og ríkisstjórn séu samstiga um það eins og Þorsteinn benti áður réttilega á. Annars verða engar slíkar ákvarðanir teknar. Flokkar andvígir inngöngu í sambandið geta ekki staðið að slíku nema með því að hafa að engu það sem þeir sögðu við kjósendur. Og gerast sekir um pólitíska tvöfeldni.

Hins vegar er skiljanlegt að forystumenn Viðreisnar, Þorsteinn þar á meðal, leiti logandi ljósi að leiðum til þess að komast framhjá þeim veruleika með ákalli um þjóðaratkvæði um skref í áttina að inngöngu í Evrópusambandið í ljósi fylgisleysis flokksins bæði í kosningum og skoðanakönnunum. Viðreisn mældist einungis með 7% fylgi í síðustu könnun Gallups. Minna en í síðustu kosningum. Í stjórnarandstöðu.

Vitanlega er það eingöngu á ábyrgð Viðreisnar að vinna að eigin stefnumálum og að afla flokknum fylgis út á þau en ekki annarra. Ábyrgðin í þeim efnum liggur eðli málsins samkvæmt einkum og sér í lagi hjá forystu hans. Ekki er hægt að ætlazt til þess að aðrir flokkar vinni að stefnumálum Viðreisnar og taki þannig skref í átt að inngöngu í Evrópusambandið þvert á eigin stefnu. Nokkuð sem ætti ekki að þurfa að taka fram.

Væri innganga í Evrópusambandið á forgangslista kjósenda ætti það að skila sér í stórauknu fylgi við Viðreisn, eina flokkinn sem leggur áherzlu á málið. Ekki sízt í ljósi þeirrar staðreyndar að þingmeirihluti fyrir því að taka skref í þá átt er sem fyrr segir forsenda þess að slíkar ákvarðanir verði teknar. Flest bendir einfaldlega til þess að í bezta falli sé í raun fyrir að fara afar takmörkuðum áhuga á inngöngu í sambandið.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum).

Höf.: Hjörtur J. Guðmundsson