Erna Björk Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík 3. ágúst 1952. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 15. apríl 2024.

Foreldrar hennar voru Guðmundur J. Gíslason múrarameistari, f. í Reykjavík 28. júní 1915, d. 1. maí 1988, og Sigurbjörg Sigurðardóttir húsmóðir, f. í Vestmannaeyjum 2. febrúar 1917, d. 4. apríl 1992. Systkini Ernu Bjarkar eru Kolbrún Skaftadóttir, f. 16. janúar 1937, Stefanía Guðmundsdóttir, f. 16. janúar 1941, d. 27. júní 2023, Jóhannes Guðmundsson, f. 15. september 1942, d. 25. maí 2012, og Kjartan Þór Guðmundsson, f. 23. ágúst 1948, d. 17. október 2022.

Árið 1974 giftist Erna Björk Ragnari Geir Tryggvasyni skipasmið, f. 29. janúar 1950, d. 11. júní 2019. Hann var sonur hjónanna Tryggva Gunnarssonar skipasmíðameistara, f. 14. júlí 1921, d. 6. febrúar 2009, og Stellu Sigurgeirsdóttur húsmóður, f. 1. ágúst 1923, d. 12. desember 2020. Börn Ernu Bjarkar og Ragnars Geirs eru: 1) Rakel, f. 31. október 1973, gift Pálma Guðmundssyni, f. 17. júlí 1973. Dætur þeirra eru Björk, f. 22. júlí 2002, og Salka, f. 12. janúar 2007. 2) Ragna Björk, f. 20. maí 1979, gift Braga Björnssyni, f. 17. júní 1968. Börn þeirra eru Ragnar Björn, f. 26. janúar 2004, og Helga Sif, f. 10. september 2007. 3) Sigurgeir, f. 11. janúar 1983, giftur Solveigu Thelmu Einarsdóttur, f. 4. maí 1977. Börn þeirra eru Auður Hulda, f. 17. nóvember 1999, sem Sigurgeir átti áður, Óliver Magni Brynjarsson, f. 27. ágúst 2005, sem Solveig átti áður, og saman eiga þau Elínu Ernu, f. 21. júlí 2016.

Erna Björk fæddist í Reykjavík og útskrifaðist úr Hjúkrunarskóla Íslands í september 1974. Hún starfaði á LSH slysa- og bráðadeild, Grensásdeild og í Blóðbankanum sem deildarstjóri. Erna Björk var meðlimur í Maríureglunni og sinnti margs konar félags- og góðgerðastöfum.

Útför Ernu Bjarkar fer fram í Kópavogskirkju í dag, 26. apríl 2024, kl. 15.

Svo óvænt er komið að leiðarlokum, gengin er tengdamóðir okkar Erna Björk Guðmundsdóttir, eftir erfið veikindi. Öll trúðum við í hjarta okkar að Erna myndi sigra í þessu harða stríði sem hún háði við óþekktan sjúkdóm. Hún hefði sannarlega átt það skilið að vinna þessa orrustu enda lífsglöð með eindæmum og alls ekki södd lífdaga. Það er þó huggun harmi gegn að bundinn er endi á líkamlegar þjáningar hennar og hugir hennar og Ragnars tengdaföður okkar fá að sameinast á ný en Ragnar lést 2019, einnig eftir harða baráttu við taugasjúkdóm. Var andlát hans Ernu mikill harmur enda þau hjónin einstaklega samrýmd eftir langt og farsælt hjónaband.

Við tengdabörn hennar þrjú erum jafn ólík og börn hennar sem við eigum að mökum. Því voru tengsl okkar og samskipti við „tengdó“ eðlilega mismunandi. Þrátt fyrir það deilum við þeirri skoðun að það hafi verið sérstök gæfa að eignast Ernu sem tengdamóður. Öll deilum við þeirri upplifun að hún hafi tekið okkur opnum örmum á þeim degi sem við gengum í fyrsta sinn inn á fallega heimili þeirra hjóna í Fljótaseli og frá þeirri stundu höfum við aldrei fundið fyrir öðru en fölskvalausri umhyggju í okkar garð. Ernu var sérstaklega annt um sína nánustu og velferð fjölskyldunnar var henni allt. Átti það jafnt við um foreldra hennar og systkini, börn hennar og okkur tengdabörnin sem og barnabörnin. Tók hún virkan þátt í uppeldi allra barnabarna sinna og fyrir það verðum við ævinlega þakklát.

Í okkar huga var Erna heilsteypt manneskja, vinnusöm og röggsöm, en umfram allt einlæg, hjartahlý og glaðvær. Hreinskilni hennar var við brugðið og kannski eftirtektarverðust í lyndiseinkunn hennar auk hláturmildi. Hún kom til dyranna eins og hún var klædd. Aldrei þurfti maður að velkjast í vafa um hvar maður hafði hana sem var traustvekjandi fyrir okkur tengdabörnin þegar við vorum að takast á við þá áskorun sem fylgir því að kynnast og aðlagast tengdafjölskyldunni.

Erna var mikil félagsvera og einstakur gestgjafi sem naut þess að gera vel við gesti sína í mat og drykk. Hún var afbragðsgóður kokkur og því ávallt tilhlökkunarefni að koma í mat til hennar. Það var ekki síður kærkomið þegar hún birtist oft með litlum fyrirvara með fangið fullt af veisluföngum og sló upp veislu á heimilum okkar. Við þau veisluborð urðu til minningar sem eru okkur nú líkn og munu lífga upp á ókomna daga.

Vegferð Ernu var falleg saga og samferðamenn hennar munu minnast hennar með hlýhug og virðingu því það að þekkja hana og njóta elsku hennar gerði mann að betri manni. Að leiðarlokum finnum við ekki sannari tileinkun til að fylgja tengdamóður okkar í svefninn langa en þá sem finna má í Fyrra Korintubréfi og lýsir best óeigingjarnri, elskulegri vegferð hennar hér í heimi: „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. … Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“

Af djúpri virðingu og með miklu þakklæti kveðjum við glæsilegan kvenskörung, yndislega tengdamóður og traustan vin.

Pálmi Guðmundsson, Bragi Björnsson og
Solveig Einarsdóttir.

Í einni svipan er allt breytt og lífið verður aldrei eins aftur þegar svo óvænt kveður okkur elsku amma Erna. Þegar við lítum til baka og hugsum til þín, kemur ávallt orðið ofurkona upp í huga okkar. Það var fátt sem þú gast ekki reddað á þinn hátt. Þú varst allt í senn einkahárgreiðslukona okkar sem hljóp á eftir okkur um Fljótaselið og klippti stutta lokka, íþróttakennari sem langt fram á nótt kenndi okkur að sippa á pallinum í Mósamóa, draumakokkur og bakari sem bauð alltaf upp á það sem okkur langaði í og síðast en ekki síst besta hjúkrunarkona sem nokkur maður gæti hugsað sér, sem stökk til þegar passa þurfti okkur þegar við lágum í flensu eða taka þurfti úr okkur sauma sem enginn annar gat náð út.

Umfram allt varstu besta amma, glaðleg, jákvæð og alltaf til í að dekra við okkur. Verðum við systkinin að eilífu þakklát fyrir að hafa notið umhyggju þinnar í uppvexti okkar.

Við fáum ekki með orðum lýst hve sárt er til þess að hugsa að hún amma Erna sé dáin en það sem huggar okkur er að við vitum að við eigum eftir að koma aftur í veislu til hennar og afa Ragga þótt síðar verði í öðrum heimi.

Ragnar Björn Bragason og Helga Sif Bragadóttir.

Gatan er vörðuð gleði og sorgum

gjöf er vort æviskeið.

Einn í dag svo annar á morgun

allir á sömu leið.

(Pálmi Eyjólfsson)

Ernu Björk og fjölskyldu hennar hitti ég fyrst á kirkjutröppum fyrir rúmlega 30 árum. Það var aðfangadagskvöld allir glaðir, forvitnir og spenntir. Börnin okkar Pálmi og Rakel voru farin að draga sig saman, skólafélagar úr MS. Samband okkar Ernu styrktist með hverju ári og varð að góðum og gefandi vinskap. Ernu var margt til lista lagt. Hún var hjúkrunarfræðingur að mennt og stóð sig afar vel þar sem og annars staðar. Hún var einstaklega myndarleg húsmóðir, fagurkeri sem gerði allt fallegt í kringum sig. Þessa eiginleika fékk hún Rakel tengdadóttir mín svo sannarlega í arf. Erna var hannyrðakona og voru peysur aldrei lengi á prjónum. Hún eldaði afar góðan mat og fór t.d. til Taílands ein síns liðs og lærði að elda austurlensan mat.

Ragnar og Erna voru samrýnd hjón sem hugsuðu vel um börnin sín og barnabörn. Ragnar féll frá allt of snemma eftir afar erfið veikindi. Þar var Erna kletturinn hans og lagði sig fram við að gera allt sem best. Hún var stolt og sterk. Hún ferðaðist töluvert eftir að hún varð ein og var byrjuð í golfi. Hún fór meðal annars til Balí ein síns liðs. En Adam var ekki lengi í Paradís. Erna veiktist af sjúkdómi sem aldrei greindist þrátt fyrir innlagnir og rannsóknir af ýmsu tagi. En hún kvartaði ekki. Tók hverjum degi af æðruleysi sárkvalin.

Nú er hún Rakel mín og systkini hennar búin að missa báða foreldra sína úr erfiðum veikindum sem læknavísindin áttu erfitt með að greina. Hamingjusamur gæfumaður gerir öðrum gott, þar var Erna. Ég sakna hennar sárt og harma andlát hennar. Ég sendi börnunum hennar, fjölskyldu og vinum mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Nú kveð ég hana á kirkjutröppum eins og ég heilsaði henni í upphafi.

Ég veit að Ragnar tekur vel á móti þér.

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Guðríður Björk
Pálmadóttir.

Hún Erna frænka mín er látin og mér þykir það sárt. Frá því ég man eftir mér hefur mér þótt óendanlega vænt um hana, litlu systur pabba. Það var alltaf góð lykt í húsinu hjá þeim hjónum – lykt af þvottaefni og tréspæni. Það sem ég minnist helst er húmorinn og smitandi hlátur hennar. Ég gleymi aldrei samverustundum í A-bústað ömmu og afa í Grímsnesi. Þegar tók að kvölda vorum við krakkarnir sendir upp á svefnloft en við sofnuðum ekkert strax. Bústaðurinn var lítill og smitandi hlátur Ernu, Stellu og ömmu Stebbu – og hinna. Hlátur þeirra hélt vöku fyrir og vakti forvitni okkar krakkanna, við lágum við rimlana á svefnloftinu. Ég man bókstaflega eftir að hafa hugsað „ef til er himnaríki, þá er það svona“.

Þau systkinin hafa fallið frá sl. tvö ár, fyrir utan Jóhannes sem lést 2012. Nú stendur Kolla, sú elsta af þeim, ein eftir og harmur hennar er mikill. Pabbi lést 2022, Stella 2023 og nú Erna 2024. Kæru frændsystkini, Rakel, Ragna, Sigurgeir, og makar ykkar og börn, ég sendi ykkur mínar hjartans samúðarkveðjur.

Berglind Kjartansdóttir.

Hjartans bestu vinkonur mínar, Stella og Erna Björk, nú skilur leiðir og þið farið saman í sumarlandið. Ég kynntist Stellu og Ernu Björk snemma og það var svo ótrúlega margt sem við gerðum saman gegnum lífið. Vinskapur okkar var náinn, bæði sérstakur og dýrmætur og við göntuðumst stundum með að við værum næstum eins og systur. Það var dásamlegt að eiga hver aðra að enda báðar traustar, einlægar og góðar vinkonur.

Ég get svo fátt sem býr í brjósti sagt,

það bindur tungu sterkur hugartregi.

En aðeins kærleiksblómin blessuð lagt

á bleikan hvarm þinn, vinur elskulegi.

(GG)

Ég sendi öllum aðstandendum þeirra systra innilegustu samúðarkveðjur.

Sigríður Pétursdóttir.

Dillandi hlátur, skemmtileg, áreiðanleg, glæsileg og vinkona sem hreif alla með sér er það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég hugsa til hennar Ernu Bjarkar sem við kveðjum í dag allt of fljótt. Við vorum vinnufélagar og nánar samstarfskonur í Blóðbankanum í mörg ár. Að vinna með góðu fólki er eitt af því sem eykur vellíðan í starfi, það er ómetanlegt hverjum vinnustað. Erna var nákvæm og ósérhlífin og hafði góða nærveru. Eftir að hún hætti störfum hittumst við nokkrum sinnum, alls ekki nógu oft. Góðar stundir áttum við saman á vormánuðum 2020 á Tenerife og þær stundir og aðrar samverustundir okkar geymi ég í minningabankanum. Góða ferð í sumarlandið elsku Erna, hafðu þökk fyrir allt. Innilegar samúðarkveðjur til Rakelar, Rögnu Bjarkar, Sigurgeirs og fjölskyldna þeirra.

Sigríður Ósk.

Fráfall okkar kæru vinkonu, Ernu Bjarkar, hefur höggvið skarð í vinahópinn „Gömlurnar“ en nafnið er vísun í okkar áratuga vinskap. Þetta skarð reynum við nú að fylla með minningum um góðar og skemmtilegar samverustundir.

Vinskapurinn hefur haldist allt frá því að við stofnuðum saumaklúbb eftir lok skólagöngu í Réttarholtsskóla 1968. Það ár vorum við átta en nú hafa þrjár úr hópnum kvatt þennan heim. Sum árin hittumst við oft, önnur sjaldnar en alltaf hélt vináttan og það var alltaf eins og við hefðum hist í gær. Eftir því sem árin liðu gerðum við okkur betur og betur grein fyrir því hvað vináttan er dýrmæt.

Þegar við hittumst var Erna Björk oft hrókur alls fagnaðar enda glettin og kímin. Hún sagði sögur og brandara en alltaf án þess að halla á náungann. Einnig var gott að leita til hennar þegar eitthvað bjátaði á því hún kunni að hlusta og gefa ráð. Það var alltaf gott að koma til hennar, móttökurnar konunglegar og það var eins og hún töfraði fram kræsingar án nokkurs fyrirvara.

Við höfum fylgst með hvernig veikindi Ernu Bjarkar ágerðust en þau unnu ekki á kjarkinum og æðruleysinu sem hún sýndi í baráttu sinni. Hún ætlaði að komast aftur út í lífið, njóta og gefa af sér eins og henni var einni lagið. En hún sigraði ekki og við munum ekki njóta lengur fallega brossins, jákvæðni hennar til lífsins og umhyggju hennar gagnvart fjölskyldu og vinum.

Erna Björk stóð eins og klettur við hlið Ragnars eiginmanns síns í veikindum hans og hjúkraði honum af sinni hlýju og alúð síðustu árin en hann lést árið 2019. Erna Björk og Ragnar áttu þrjú börn og sex barnabörn og nutu þau góðra samverustunda með þeim og tengdabörnunum. Oft kom fram hversu stolt Erna Björk var af hópnum sínum og að hún naut samverunnar með þeim til fullnustu.

Hryggðar hrærist strengur

hröð er liðin vaka

ekki lifir lengur

ljós á þínum stjaka.

Skarð er fyrir skildi

skyggir veröldina

eftir harða hildi

horfin ertu vina.

Klukkur tímans tifa

telja ævistundir

ætíð lengi lifa

ljúfir vinafundir.

Drottinn veg þér vísi

vel þig ætíð geymi

ljósið bjart þér lýsi

leið í nýjum heimi.

(Hákon Aðalsteinsson)

Blessuð sé minning þín, okkar elsku Erna Björk.

Helga, Marta, Svava,
Vilborg og Ingibjörg.

Á kveðjustundu streyma minningarnar fram. Þær vekja hjá okkur hlýju, hlátur og söknuð. Leiðir okkar Ernu Bjarkar lágu saman á lúterskri hjónahelgi fyrir meira en 30 árum. Á þessari helgi bundumst við vináttuböndum sem hafa síðan verið náin og kærleiksrík. Þau hjón, Erna og Ragnar, vöktu strax athygli okkar Ingólfs og við fundum strax frá fyrstu kynnum hvað við áttum margt sameiginlegt.

Ernu Björk var margt til lista lagt. Hún var til dæmis snilldarkokkur og var alltaf að prófa einhverjar spennandi nýjungar í matargerð. Allt í kringum hana var einstaklega fallegt og móttökurnar sem mættu okkur á heimili þeirra hjóna voru einstakar. Þegar við mættum í boð til þeirra leið okkur eins og við værum eðalborin. Við eigum einstaklega góðar minningar frá heimsóknum okkar til þeirra í Fljótaselið. Þar var heitur pottur, koníaksstofa og allt eins og best verður á kosið. Hlýjan og gleðin umvafði okkur. Við áttum dásamlegar stundir þar sem Erna sat við píanóið, spilaði og söng. Hún tók líka sporið og dansaði eins og enginn væri morgundagurinn. Tíminn leið ógnarhratt við gleði og glaum og fyrr en varði var komið fram á nótt. Minningar frá þessum gleðistundum munu lifa með okkur um alla framtíð. Erna Björk og Ragnar komu sér upp öðru heimili austur í sveit og þar tóku þau á móti gestum af sömu alúð og elskulegheitum og þau gerðu á heimili sínu í Fljótaseli.

Börn Ernu Bjarkar og barnabörn stóðu hjarta hennar næst og hún naut þess að sjá þau vaxa úr grasi og verða heilbrigðir og farsælir einstaklingar. Hún naut þess líka að fylgjast með samferðafólki sínu hvort sem var í vinnu eða á vettvangi félagsmála.

Erna Björk var einstaklega kjarkmikil. Eitt árið lagði hún til dæmis land undir fót og fór ein til Taílands þar sem hún sótti námskeið í matargerðarlist og lærði jafnframt að verða nuddari. Áður en hún hélt utan eldaði hún fínan mat og setti í frysti fyrir Ragga sinn. Hún vildi gera allt þannig að honum liði sem best meðan hún var í burtu. Samband þeirra var einstaklega kærleiksríkt og fallegt. Það varð því mikið áfall fyrir Ernu Björk þegar Ragnar féll frá 2019.

Erna Björk tók þátt í starfi Maríureglunnar þar sem hún naut sín í góðum félagsskap. Við áttum samleið þar og nutum þess líka að ferðast saman. Það var gott og gaman að umgangast Ernu Björk, heima, á fundum, á ferðalögum og líka um tíma þegar hún varð félagi okkar í Strandamannakórnum. Þar eins og annars staðar var hún góður og ómetanlegur félagi. Gleði og jákvæðni geislaði af Ernu Björk hvar sem hún kom og það var aldrei nein lognmolla í kringum hana. Við minnumst hláturs hennar, hlýju og óþrjótandi umhyggju fyrir öðrum og biðjum algóðan guð að blessa og styrkja börn hennar, barnabörn, tengdabörn, systur og aðra vini og vandamenn.

Ernu Bjarkar verður sárt saknað og við minnumst hennar með mikilli hlýju og þakklæti.

Þínir vinir,

Helga og Ingólfur (Ingó).

Með nokkrum orðum langar okkur að minnast vinkonu okkar Ernu Bjarkar Guðmundsdóttur, en leiðir okkar lágu saman fyrir 32 árum þegar við hjónin fórum á hjónahelgi, en þar myndaðist sterk vinátta á milli okkar Ernu og Ragnars ásamt Helgu og Ingólfi.

Erna hafði til að bera einstaklega létta og glaða lund og var alltaf hrókur alls fagnaðar. Það var aldrei neitt mál hjá Ernu, hún sagði bara „ég græja þetta“ og gekk í málið. Það var ósjaldan sem við hittumst í Fljótaselinu hjá Ernu og Ragnari, þegar þau buðu okkur heim. Erna var mikill listakokkur, allur matur hjá henni var einstaklega góður og fallega fram borinn, og á eftir var oftast farið í pottinn, en það gerðu alla vega strákarnir.

Erna fór til Taílands að heimsækja bróður sinn og var þar í nokkrar vikur en þar fór hún á námskeið til að læra að elda taílenskan mat og við nutum svo sannarlega góðs af því.

Við ferðuðumst töluvert með þeim hjónum, sem var alltaf mjög ánægjulegt, en við fórum saman m.a. til Flórída, London og Tyrklands.

Við Erna gerðum margt saman, en árið 2011 gengum við í stúku Maríusystra og þar hittumst við reglulega ásamt öðrum systrum.

Við Erna vorum einnig á tímabili saman í Strandakórnum.

Það er óljúft að kveðja góða vinkonu og hennar verður sárt saknað.

Valgerður og Reynir.

Tíminn stoppar augnablik og ég horfi enn og aftur inn í svartholið sem gleypir allt. Við þetta augnablik hugans gerist alltaf það sama, mig langar að bjarga og leyfa þessu ekki að gerast, en hvað, ég hef ekki guðlegt vald og hinn fullkomni sannleikur blasir við, og ég veit að sá tími kemur.

Erna, besta vinkona okkar Sissýjar, kveður okkur í dag, það er sorg í hjarta en minningar hrannast upp að venju. Ég var að byrja með Sissý þegar ég var kynntur fyrir Ernu, ekki löngu seinna bættist Raggi í hópinn. Tvær fjölskyldur fylgdust að í gegnum lífið og mótuðust hvor á sinn hátt og með sínar venjur.

Fæðingar, skírnir, fermingar, afmælin, brúðkaup og andlát, fullkominn gangur lífsins endurspeglast í þessum athöfnum. Svo voru líka nokkur ferðalög sem ekki má gleyma, hlátur og gleði, sorg og depurð með öllu þar á milli.

Erna, þakka þér allan þann kærleika sem þú færðir inn í líf okkar, óendanlega þrautseigju, bjartsýni og gleði. Ég er þér óendanlega þakklátur fyrir þann styrk og stuðning sem þú gafst mér við fráfall Sissýjar og ég sá ljósið að nýju. Algóður Guð geymi þig og minningu þína.

Rakel, Ragna Björk, Sigurgeir og fjölskyldur, ég bið góðan Guð að blessa ykkur og að þið finnið ykkar veg í djúpri sorg.

Hjartans þakkir.

Baldvin Már
(Balli).

Erna Björk var hjartkær vinkona okkar. Við kynntumst í Hjúkrunarskóla Íslands í september 1971. Eftir útskrift 1974 ræktuðum við vinskapinn með því að hittast reglulega í saumaklúbb. Okkar „Saumó“ er því orðinn rúmlega hálfrar aldar gamall.

Nú hefur enn skarð verið höggvið í okkar góða hóp við fráfall elsku Ernu okkar, en áður voru fallnar frá þær Þórunn og Sissý.

Erna kynntist Ragnari, tilvonandi eiginmanni sínum, þegar hún var í verklega náminu á Akureyri. Það var mikið gæfuspor. Þau eignuðust þrjú yndisleg börn og fjölskyldan er orðin stór.

Erna var frábær hjúkrunarfræðingur og vann við hjúkrun á LSH í mörg ár, m.a. á slysadeildinni og síðast í Blóðbankanum.

Erna var lífsglöð og mörgum hæfileikum gædd. Allt lék í höndunum á henni. Hún var hjálpsöm og úrræðagóð. Hún elskaði útiveru, golf og ferðalög. Erna var einstaklega skemmtileg og vinmörg.

Erfiðum veikindum sínum og Ragga tók hún með aðdáunarverðu jafnaðargeði og ótrúlegu æðruleysi og dugnaði.

Á kveðjustund minnumst við Ernu með virðingu og þakklæti og vottum fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð.

Ásgerður og Jórunn.

Elsku yndislega Erna Björk, okkar dýrmæta vinkona, kvaddi þennan heim

15. apríl síðastliðinn.

Vinskapur okkar vinkvenna hófst þegar við gengum í Maríuregluna. Við eigum margar mjög fallegar og yndislegar minningar um elsku Ernu okkar. Hún var alltaf hrókur alls fagnaðar og stutt í húmorinn og sprellið. Hún var hlý og hjartahrein, gegnheil og greiðvikin.

Erna var mjög smekkleg kona, hafði frábæra frásagnargáfu og það geislaði af henni hvar sem hún var. Hún var yndisleg heim að sækja og skemmtileg að ferðast með.

Það er ótrúlega margt að þakka, okkar djúpa, einstaka vinátta hefur verið okkur öllum mikils virði. Söknuður er okkur efst í huga, en við vitum að Ragnar tekur vel á móti Ernu sinni.

Við vottum Rakel, Rögnu Björk, Sigurgeiri og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð.

Farðu í friði vinur minn kær,

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær,

aldrei ég skal þér gleyma.

(Bubbi Morthens)

Blessuð sé minning Ernu.

Þórdís, Freyja, Helga
og Valgerður.