Listasafn Íslands tekur þátt í Barnamenningarhátíð sem stendur yfir dagana 23.-28. apríl. Framlag safnsins er í formi tveggja nemendasýninga auk vísindalistasmiðju þar sem jöklar koma við sögu, segir í tilkynningu.
Í Listasafninu við Fríkirkjuveg verður samsýning á afrakstri nemenda á leik- og grunnskólaaldri úr listasmiðjum tengdum birki meðfram skoðun á listaverkum Ásgríms Jónssonar en þar voru griðastaðir í náttúrunni og litanotkun til umfjöllunar. Í Safnahúsinu munu svo nemendur um allt land sýna afrakstur úr listasmiðjum sem þau hafa unnið með Listasafni Íslands og starfandi listamönnum í tengslum við verkefnið Ísabrot – jöklar í íslenskri myndlist. Þá verður listasmiðjan, sem er á vegum Krakkaklúbbins Krumma, einnig haldin í Safnahúsinu við Hverfisgötu.
Börn eru sérstaklega boðin velkomin og frítt fyrir fullorðna í fylgd barna á allar sýningar og viðburði safnsins á Barnamenningarhátíð.