Sendinefnd frá Egyptalandi fór til Ísraels í gær til þess að reyna að koma aftur á viðræðum um vopnahlé í átökum Ísraels og hryðjuverkasamtakanna Hamas. Egyptaland hefur séð um milligöngu á milli Ísraels og Hamas-samtakanna ásamt stjórnvöldum í Katar, auk þess sem Bandaríkjamenn hafa einnig komið að viðræðunum.
Viðræðurnar hafa hins skilað litlum árangri síðan í nóvember, en þá náðist samkomulag um vopnahlé, þar sem 80 af þeim gíslum sem Hamas-liðar tóku í árás sinni á Ísrael 7. október sl. var sleppt úr haldi í skiptum fyrir 240 palestínska fanga sem sátu í fangelsum í Ísrael. Vitað er um 129 gísla sem enn eru á Gasasvæðinu, en Ísraelsher segir að 34 þeirra hafi þegar látist.
Egypskir fjölmiðlar sögðu í gær að viðræður Egypta og Ísraela hefðu skilað góðum árangri, en ísraelskir fjölmiðlar sögðu að þjóðstjórn Ísraels hefði rætt nýja áætlun um vopnahlé og frekari fangaskipti áður en sendinefndin kom til Ísraels.
Vilja afstýra árás á Rafah
Ísraelsstjórn er hins vegar enn að undirbúa árás Ísraelshers á Rafah-borg, sem Ísraelar segja að sé síðasta vígi Hamas-liða á Gasasvæðinu. Vesturveldin hafa hins vegar hvatt Ísraela til þess að leggja áform um landhernað í borginni á hilluna, þar sem hann gæti haft hörmulegar afleiðingar í för með sér fyrir óbreytta borgara í borginni. Þá héldu Ísraelar áfram loftárásum á Hisbollah-samtökin í suðurhluta Líbanons í gær.
Utanríkisráðherrar Frakklands og Þýskalands, þær Stephane Sejourne og Annalena Baerbock, munu ferðast til Ríad, höfuðborgar Sádi-Arabíu, á mánudaginn til þess að ræða mögulegt vopnahlé við kollega sína frá arabaríkjunum. Mohammed Mustafa, hinn nýi forsætisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar, mun einnig sækja fundinn.