Fyrirliði Ólafur Ólafsson sækir að Keflvíkingum í leik Grindavíkur og Keflavíkur í úrvalsdeildinni í Smáranum í Kópavogi fyrr í vetur.
Fyrirliði Ólafur Ólafsson sækir að Keflvíkingum í leik Grindavíkur og Keflavíkur í úrvalsdeildinni í Smáranum í Kópavogi fyrr í vetur. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfuknattleiksmaðurinn Ólafur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkur, er fullur tilhlökkunar fyrir komandi einvígi liðsins gegn Keflavík í undanúrslitum Íslandsmótsins en það hefur gengið á ýmsu hjá Grindvíkingum á tímabilinu vegna jarðhræringanna á Reykjanesi

Körfubolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Körfuknattleiksmaðurinn Ólafur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkur, er fullur tilhlökkunar fyrir komandi einvígi liðsins gegn Keflavík í undanúrslitum Íslandsmótsins en það hefur gengið á ýmsu hjá Grindvíkingum á tímabilinu vegna jarðhræringanna á Reykjanesi.

Ólafur, sem er 33 ára gamall, er uppalinn hjá Grindavík og hefur verið fyrirliði liðsins undanfarin ár en hann hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari með Grindavík, 2012 og 2013.

Grindavík hafnaði í öðru sæti úrvalsdeildarinnar á meðan Keflavík hafnaði í þriðja sætinu. Grindavík hafði betur gegn Tindastóli í 8-liða úrslitum, 3:0, á meðan Keflavík hafði betur gegn Álftanesi, 3:1.

„Þetta einvígi leggst mjög vel í mig og við erum fullir tilhlökkunar að takast á við Keflvíkingana,“ sagði Ólafur í samtali við Morgunblaðið en fyrsti leikur liðanna fer fram á þriðjudagskvöldið í Smáranum í Kópavogi sem hefur jafnframt verið heimavöllur Grindavíkur í vetur þar sem heimavöllur liðsins í Grindavík er ekki nothæfur vegna jarðhræringanna.

Þurfa að vera sveigjanlegir

„Það er orðið ansi langt síðan þessi tvö lið mættust í undanúrslitunum og þetta verður hörkueinvígi. Keflvíkingar eru með frábært lið og þeir eru mjög óútreiknanlegir að mörgu leyti. Þeir geta dottið inn á kafla þar sem þeir hitta ekki neitt og svo allt í einu hitta þeir kannski úr einhverjum tíu skotum í röð, jafnvel nokkrum metrum fyrir utan þriggja stiga línuna.

Það er þeirra leikur og við þurfum aðeins að aðlaga okkur að því. Þeir spila líka mjög sterkan varnarleik og það er klárt mál að þeir munu ekki gefa okkur neitt í þessu einvígi. Við verðum að mæta tilbúnir til leiks, strax frá fyrstu mínútu, annars fáum við á baukinn. Við þurfum líka að vera sveigjanlegir í okkar leik og tilbúnir að gera breytingar ef hlutirnir ganga ekki upp,“ sagði Ólafur.

Small allt gegn Tindastóli

Eins og áður sagði vann Grindavík afar sannfærandi 3:0-sigur gegn Íslandsmeisturum Tindastóls í 8-liða úrslitunum.

„Þessi sigur og frammistaða gegn Tindastóli kom mér alls ekki á óvart ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Strax í fyrsta leiknum gegn þeim þá fann ég að það var eitthvað í loftinu og það small bara eitthvað hjá mínu liði. Tilfinningin var eins í öðrum leiknum líka. Þriðji leikurinn gegn þeim var aðeins öðruvísi, því hugarástandið verður aðeins annað þegar þú ert 2:0 yfir.

Mér leið samt aldrei illa með leikinn og þegar við komumst yfir þennan stall, að staðan væri 2:0 okkur í vil, þá kláruðum við þetta. Ég var mjög sáttur með spilamennsku liðsins í einvíginu og hversu tilbúnir við vorum þegar við mættum til leiks. Við ætlum okkur að sjálfsögðu að byggja ofan á þessa frammistöðu gegn Keflavík.“

Er ekki hjátrúarfullur

Grindvíkingar fengu lengri hvíld en Keflavík fyrir einvígið en mun það skipta máli þegar á hólminn er komið?

„Þetta er já og nei-spurning og þetta fer í rauninni alveg eftir því hvernig þú lítur á þetta. Fyrir úrslitaeinvígið árið 2017 þá vinnum við Stjörnuna í undanúrslitunum, 3:0. KR vinnur á sama tíma Keflavík í undanúrslitunum 3:1 og við fengum því lengri hvíld en þeir fyrir úrslitaeinvígið. Þeir mæta svo inn í úrslitin og vinna fyrstu tvo leikina gegn okkur.

Við jöfnum svo metin í 2:2 og þeir enda á að vinna okkur mjög sannfærandi í oddaleik. Ég er ekki hjátrúarfullur eða eitthvað því um líkt, fyrir mér snýst þetta bara um það að mæta tilbúinn til leiks og að hafa trú á því sem maður er að fara að gera. Ef við fylgjum plani og gerum það sem lagt er upp með á æfingunni erum við til alls líklegir.“

Samstaðan mikil í Grindavík

Ólafur, sem hefur verið búsettur í Grindavík nánast allt sitt líf, er einn þeirra sem þurftu að flýja heimili sitt vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga í nóvember á síðasta ári en hann er í dag búsettur í Hafnarfirði.

„Þetta tímabil hefur verið skrítið en á sama tíma hefur samstaðan verið mikil. Við verðum ævinlega þakklátir Breiðabliki, stjórninni þar og öllu félaginu í heild sinni. Þeir tóku okkur opnum örmum og hvernig þeir hafa staðið við bakið á okkur í þessu öllu saman er í raun ólýsanlegt.

Það tók okkur líka smátíma að venjast húsinu. Það er ansi langt á milli veggja þarna, ef við berum þetta saman við húsið okkar heima í Grindavík, og þetta er eitt af stærri íþróttahúsum á landinu. Þegar við byrjuðum að æfa þarna ræddum við Jói bróðir [Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur] það mjög reglulega hvað stærðin á húsinu kæmi okkur alltaf á óvart. Við erum hins vegar búnir að venjast þessu vel núna og okkur líður mjög vel í Smáranum.“

Spenna innan samfélagsins

Það hefur verið frábær stemning á leikjum Grindavíkur í allan vetur en líður leikmönnum liðsins ekkert eins og þeir séu með bæjarfélagið á bakinu vegna ástandsins í Grindavík þar sem meirihluti bæjarbúa hefur þurft að flýja heimili sín?

„Það er fyrst og fremst gaman að sjá hversu margir hafa mætt á leikina hjá okkur í vetur. Allt bæjarfélagið hefur þjappað sér vel saman vegna ástandsins heima fyrir og ég myndi ekki segja að við séum með samfélagið eitthvað sérstaklega á bakinu, ég myndi frekar segja að samfélagið standi mjög þétt við bakið á okkur.

Það ríkir mikil spenna fyrir þessu einvígi gegn Keflavík, maður finnur það mjög sterkt. Fólk var að senda mér skilaboð hægri vinstri til þess að forvitnast um hvenær einvígið myndi byrja, áður en það kom inn á heimasíðu KKÍ. Það er því mikil spenna fyrir einvíginu, ekki bara hjá bæjarfélaginu heldur líka hjá okkur leikmönnum og þjálfarateyminu auðvitað líka.“

Bróðirinn frábær þjálfari

Jóhann Þór tók við þjálfun Grindavíkur á nýjan leik í júní árið 2022 en hann stýrði liðinu árið 2017 þegar Grindavík lék síðast til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn.

„Jói bróðir er mjög reynslumikill þegar kemur að þessum stóru einvígjum. Hann var aðstoðarþjálfari þegar liðið varð síðast Íslandsmeistari og hann fór með okkur í úrslitin árið 2017. Hann hefur gert þetta margoft og þó hann sé rólegur heima fyrir er hann alltaf mjög æstur á hliðarlínunni enda mikill keppnismaður. Hann er frábær þjálfari og það er aðdáunarvert hvernig hann leggur leikina upp. Hann og Jóhann Árni aðstoðarþjálfari vinna þetta mjög vel saman og þeir eru líka duglegir að spyrja okkur leikmennina um álit. Það er því mikil samvinna í gangi innan liðsins.

Við fórum inn í þetta tímabil með það að markmiði að verða Íslandsmeistarar og ég er ekki feiminn við að segja það. Við erum með vel mannað lið í dag og við ætlum okkur alla leið. Auðvitað þarf allt að smella og við þurfum líka að halda rétt á spilunum en ég tel að okkur og liðinu séu allir vegir færir,“ bætti Ólafur við í samtali við Morgunblaðið.