Clovisnerys Bejarano vitjar móður sinnar, Saturninu Torres, sem lést 1993, var grafin upp 2001 og hvílir nú í múmíusafninu við Jose Arquimedes Castro-grafhýsið.
Clovisnerys Bejarano vitjar móður sinnar, Saturninu Torres, sem lést 1993, var grafin upp 2001 og hvílir nú í múmíusafninu við Jose Arquimedes Castro-grafhýsið. — AFP/Raul Arboleda
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
San Bernardo, Kólumbíu. AFP. | Clovisnerys Bejarano krýpur á kné fyrir framan glerkassa með jarðneskum leifum móður sinnar í San Bernardo, litlum bæ í þeim hluta Andesfjalla sem tilheyrir Kólumbíu

San Bernardo, Kólumbíu. AFP. |
Clovisnerys Bejarano krýpur á kné fyrir framan glerkassa með jarðneskum leifum móður sinnar í San Bernardo, litlum bæ í þeim hluta Andesfjalla sem tilheyrir Kólumbíu. Móðir hennar lést fyrir 30 árum, en hún lítur út eins og hún gæti verið sofandi.

Saturnina Torres de Bejarano er klædd í kjól með rósamynstri og græna ullarpeysu, sömu fötin og þegar hún var grafin. Í höndum sér er hún með rauða gervinelliku, höndum sem hafa varðveist svo vel að vekur undrun, ef ekki hroll.

„Það má enn þekkja litla, brúnleita andlitið á henni, flétturnar, hárið,“ segir Bejarano, sem er 63 ára, í viðtali við AFP við hinsta hvílustað móður sinnar. Jarðneskar leifar hennar eru komnar á safn þar sem þær verða til sýnis ásamt líkum 13 annarra frá San Bernardo sem af dularfullum ástæðum urðu að múmíum eftir andlátið.

„Ef Guð vildi varðveita hana … þá hlýtur að vera ástæða fyrir því,“ sagði Bejarano, sem býr í San Bernardo, um 100 kílómetra suður af höfuðborginni, Bógóta.

Torres var lögð til hvílu í grafhýsi í kirkjugarðinum í San Bernardo árið 1993.

Árið 2001 var grafhýsið opnað eins og venja er til að rýma fyrir nýjum jarðneskum leifum. Sáu ættingjar hennar þá að hún var enn með hár og neglur og húðin hafði að mestu varðveist.

Þetta kom reyndar ekki á óvart. Tugir líka sem breyst hafa í múmíur hafa verið fjarlægðir úr grafhýsunum í kirkjugarðinum frá því að það fyrsta var reist árið 1963.

„Þegar þetta hófst allt saman átti fólk dálítið erfitt með að trúa því að þetta væri að gerast, hélt að þetta hlytu að vera einangruð tilvik,“ sagði Rocio Vergara, leiðsögumaður í safninu.

„Eftir því sem tíminn leið varð stöðugt algengara að við fyndum lík í þessu ásigkomulagi,“ sagði hún við AFP.

Í sumum voru augun jafnvel heil, en þau rotna venjulega fljótt.

Umbun eftir andlátið?

Þegar komið var fram á níunda áratug liðinnar aldar fundust um 50 múmíur í grafhýsinu á ári, að sögn Vergara, en núorðið eru þær færri, aðeins nokkrar ár ári.

Gerðar hafa verið nokkrar tilraunir til að útskýra þetta fyrirbæri, sem einnig hefur orðið vart við í Mexíkó og á Ítalíu, svo dæmi séu nefnd. Ekki hefur þó tekist að skilgreina ástæðuna fyrir því að lík verða af sjálfu sér að múmíum í San Bernardo, að sögn Vergara.

Hún sagði að sumir heimamenn tryðu að þetta gerðist „vegna þess að viðkomandi manneskja hefði verið of góð og þetta væri umbun hennar eftir andlátið“.

Svo bætti hún við: „Svo eru aðrir sem líta svo á að … þetta sé refsing.“

Flestir eru þó sannfærðir um að heilbrigt mataræði búi að baki auk þess sem fólk lifi athafnasömu lífi við búskap í tempruðu loftslagi svæðisins.

En vísbendingarnar styðja ekki alltaf við slíkar kenningar. Ein af múmíunum er af Jorge Armando Cruz, sem lifði mest allt sitt líf í stórborginni Bógóta. Þar lést hann einnig, en var jarðsettur í San Bernardo þar sem hann fæddist.

Það er ekkert mynstur á bak við múmíurnar og hvernig þær verða til. Hinir látnu voru á ýmsum aldri þegar dauðann bar að, kyn virðist ekki skipta máli fremur en líkamsgerð.

Vergara sagði einnig að það færi ekki heldur eftir staðsetningu í kirkjugarðinum hvort jarðneskar leifar yrðu að múmíum eða ekki.

„Eins og ofn“

Margir telja að svarið hljóti að liggja í grafhvelfingunum.

Fyrstu múmíurnar í San Bernardo fundust eftir að kirkjugarðurinn var vígður. Í þessum kirkjugarði eru engir grafnir í jörðu.

Fyrir sjöunda áratuginn voru tveir kirkjugarðar í bænum. Ekki er vitað um eitt einasta tilfelli þar sem jarðneskar leifar breyttust í múmíur í þeim kirkjugörðum, að sögn Vergara.

Hún bætti við að loftslagið á þessum slóðum væri rakt og undir venjulegum kringumstæðum ætti það að ýta undir rotnun, ekki að koma í veg fyrir hana.

Daniela Betancourt, mannfræðingur við Þjóðarháskólann í Kólumbíu, sagði að ef til vill mætti rekja þetta fyrirbæri til þess að kirkjugarðurinn liggur í brattri fjallshlíð.

„Vindurinn blæs í sífellu og hitinn er mikill. Það er hægt að leiða líkur að því að hvelfingarnar virki eins og ofn … þær verði til þess að allur raki þurrkast upp.“

Betancourt sagði við AFP að það þyrfti hins vegar að láta reyna á þá kenningu.

„Það er skortur á rannsóknum á því hvað er að gerast og hvaða sérstöku aðstæður valda því að fólk verður að múmíum,“ sagði hún.

Múmíum úr kirkjugarðinum í San Bernardo hefur verið komið fyrir á safni. Það er þó ekki gert nema með samþykki fjölskyldna hinna látnu.

Flestir velja þann kost að láta brenna jarðneskar leifar formæðra og forfeðra sinna, en Bejarano-fjölskyldan vildi ekki að Torres hlyti þau örlög.

„Guð vildi að hún yrði hjá okkur og hér höfum við hana … Hvernig er hægt að láta brenna hana þegar maður sér hana svona?“ spurði Bejarano, sem kemur reglulega með barnabörn Torres að vitja hennar.