Áskorunarréttur Kínverska stúlkan Tan Zhongyi (t.v.) vann áskorendamót kvenna í Toronto í Kanada um síðustu helgi og Indverjinn Dommaraju Gukesh sem er aðeins 17 ára vann opna flokkinn eftir æsispennandi lokaumferð.
Áskorunarréttur Kínverska stúlkan Tan Zhongyi (t.v.) vann áskorendamót kvenna í Toronto í Kanada um síðustu helgi og Indverjinn Dommaraju Gukesh sem er aðeins 17 ára vann opna flokkinn eftir æsispennandi lokaumferð. — Ljósmynd/Heimasíða áskorendamótsins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Spennandi og sögulegu Íslandsmóti lýkur í dag. Helgi Áss Grétarsson gat tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í gær með því að leggja Guðmund Kjartansson að velli. Hann átti svo að tefla við Vigni Vatnar Stefánsson í lokaumferðinni

Skák

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

Spennandi og sögulegu Íslandsmóti lýkur í dag. Helgi Áss Grétarsson gat tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í gær með því að leggja Guðmund Kjartansson að velli. Hann átti svo að tefla við Vigni Vatnar Stefánsson í lokaumferðinni. Helgi Áss hefur átt sitt besta mót á ferlinum. Hann lenti í erfiðleikum í skákum sínum við Hannes Hlífar og Hjörvar Stein en tókst með mikilli baráttu að snúa á hina þrautreyndu andstæðinga sína og vinna sigur. Staðan fyrir lokaumferðirnar tvær var þessi: 1. Helgi Áss Grétarsson 8 v. (af 9) 2. Vignir Vatnar Stefánsson 6½ v. 3. Hilmir Freyr Heimisson 5½ v. 4.-5. Guðmundur Kjartansson og Alexander Domalchuk 5 v. 6.-8. Dagur Ragnarsson, Hjörvar Steinn Grétarsson og Hannes Hlífar Stefánsson 4½ v. 9. Bárður Örn Birkisson 3½ v. 10. Héðinn Steingrímsson 3 v. 11.-12. Lenka Ptacnikova og Olga Prudnykova 2 v.

Héðinn Steingrímsson mætti ekki til leiks þegar hann átti að tefla við Lenku Ptacnikovu í sjöundu umferð og hætti þar með keppni. Hann gaf upp þær ástæður að hávaði frá æfingaaðstöðu Golfklúbbs Mosfellsbæjar þar sem Íslandsmótið fer fram væri slíkur að það truflaði einbeitni sína. Reglur um mót þar sem allir tefla við alla eru á þann veg að hafi keppandi teflt meira en helming skáka sinna reiknast hann áfram sem þátttakandi en tapar vitaskuld öllum þeim skákum sem hann á eftir. Héðinn átti að tefla við Helga Áss í 8. umferð. Þessi þróun mála breytir engu um þá staðreynd að Helgi Áss hefur teflt af miklum þrótti. Lítum á einn sannfærandi sigur hans:

Skákþing Íslands 2024, landsliðsflokkur, 5. umferð:

Olga Prudnykova – Helgi Áss Grétarsson

Pirc vörn

1. e4 g6

PIrc-vörnin hefur verið í „vopnabúri“ Helga Áss undanfarið og vék þar fyrir ýmsum afbrigðum spænska leiksins.

2. d4 Bg7 3. Rc3 d6 4. Be3 a6 5. Dd2 b5 6. h4 h6 7. f3 Bb7 8. a4 c6 9. Rh3 Rd7 10. g4 e6 11. g5 h5 12. Rf4 Re7 13. O-O 14. Rd3 Dc7 15. Dh2 Rb6 16. Bf4 Rc4 17. Re2 Had8 18. b3 e5

Svartur hefur komið ár sinni vel fyrir borð og eftir 19. dxe5 Rxe5 er staðan eilítið betri. En Olga hefur aðrar áætlanir.

19. Bc1

Sjá stöðumynd

19. … exd4! 20. bxc4 bxc4

Fyrir manninn hefur svartur tvö peð og rífandi spil.

21. Rb2 Da5+ 22. Kf1 d5 23. e5 c5 24. f4 Rc6 25. Df2 Rb4 26. Rg3 d3! 27. cxd3 c3 28. Rd1 Rxd3 29. Dc2

29. … Rxe5!

Glæsilega leikið. Svartur fórnar öðum manni en eftir það opnast fyrir báða biskupana og peðin ryðjast fram.

30. fxe5 Bxe5 31. Hg1 d4 32. Rf2 c4!

Það er engin leið að stöðva þennan peðflaum.

33. De2 d3 34. Dd1 c2 35. Dd2 Dxd2 36. Bxd2 Bxa1 37. Rge4

37. … c3 38. Bc1 d2 39. Ke2 Bxe4

– og hvítur gafst upp.

Um aðra keppendur er það helst að segja að eftir hina ágætu frammistöðu Hjörvars Steins á EM landsliða í Svartfjallalandi í árslok 2023 er vart hægt að draga aðrar ályktanir af afhroði hans í fyrstu umferðum þessa móts, ½ v. af 4, en þá að hann verður að tefla meira til að viðhalda styrk sínum. Hann var með góðar stöður í öllum þessum skákum en afraksturinn afleitur og gat hann því kvatt titilvonir snemma.

Vignir Vatnar og Hilmir Freyr og fleiri ungir menn eru framtíð Íslands í skákinni og það er bókstaflega skylda skákhreyfingarinnar að styðja vel við bakið á þeim á næstu misserum.