Öllum að óvörum hlýnaði talsvert á landinu og fagna mátti sumardeginum fyrsta í björtu blíðviðri við kvak söngfugla að morgni dags. Sumarkoman blasir við á þessari mynd, þá helst af því að börnin eru vettlingalaus.
Öllum að óvörum hlýnaði talsvert á landinu og fagna mátti sumardeginum fyrsta í björtu blíðviðri við kvak söngfugla að morgni dags. Sumarkoman blasir við á þessari mynd, þá helst af því að börnin eru vettlingalaus. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Katrín Jakobsdóttir forsetaframbjóðandi kom í viðtal í Spursmálum á mbl.is og sagðist vonast til þess að verða sameiningarafl í embætti, kvaðst vera íhaldssöm á eðli þess og að hún yrði spör á málskotsréttinn

20.4-26.4

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Katrín Jakobsdóttir forsetaframbjóðandi kom í viðtal í Spursmálum á mbl.is og sagðist vonast til þess að verða sameiningarafl í embætti, kvaðst vera íhaldssöm á eðli þess og að hún yrði spör á málskotsréttinn.

Eitrunarmiðstöð Landspítalans fékk vel á annað hundrað símtöl vegna ofneyslu á nikótíni á liðnu ári, sem rakin er til breyttra neysluhátta á því með púðum í munnhol.

Matvælaráðherrann Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir ætlar ekki að fara sér að neinu óðslega við umfjöllun um leyfi til hvalveiða, þótt langt sé liðið frá því umsókn barst, vertíðin að bresta á í júní og sífellt styttist í kosningar.

Hluthöfum í Landsbankanum var greint frá því á aðalfundi að besta rekstrarár bankans væri að baki, en á sama fundi var gervöllu bankaráði hans rutt út eftir að hafa í trássi við vilja eigandans ákveðið að hefja þjóðnýtingu tryggingageirans.

Ekki nóg með það, því að fjárhagur þjóðkirkjunnar hefur líka farið batnandi svo senn verður kjörinn nýr biskup.

Samtök iðnaðarins gagnrýndu upplýsingaóreiðu hjá Reykjavíkurborg, sem birt hefði villandi upplýsingar um tiltækar byggingarlóðir í borgarlandinu.

Langri leit utanríkisráðuneytisins að leiguhúsnæði í Freetown, höfuðborg Síerra Leóne, er loks lokið, en af því tilefni stendur til að opna þar sendiráð hinn 2. maí. Þar eru fyrir fimm vestræn sendiráð.

Reykjavíkurborg lét undan miklum þrýstingi um að hækka tímakaup í Vinnuskólanum í sumar, en borgaryfirvöld þykjast óttast að það stefni stöðugleikasamningunum í voða.

Mannanafnanefnd kvað upp úrskurð um ýmis nöfn, sem gaf eyjarskeggjum tækifæri til að brosa í kampinn í næstum mínútu.

Skoðanakönnun Prósents sýndi að Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri sigldi upp að og naumlega fram úr Jóni Gnarr þegar spurt var um hvern mönnum litist best á í komandi forsetakjöri.

Í sömu könnun var Baldur Þórhallsson hlutskarpari en Katrín Jakobsdóttir, en þó var ekki tölfræðilega marktækur munur á þeim frekar en Höllu og Jóni, fylgið dreift og á hreyfingu, en vikmörk mikil.

Fjórir karlar voru handteknir í sumarbústað í Kiðjabergi í uppsveitum Árnessýslu, grunaðir um aðild að mögulegu manndrápi þar. Allir eru mennirnir af erlendum uppruna.

Forysta Framsóknarflokksins var endurkjörin á landsþingi, Sigurður Ingi Jóhannsson formaður, Lilja Alfreðsdóttir varaformaður og Ásmundur Einar Daðason ritari.

Samfylkingin hélt landsfund sinn, þar sem mikil áhersla var lögð á þjóðlegar táknmyndir og boðuð útlendingastefna formannsins Kristrúnar Frostadóttur tekin upp með þeirri afleiðingu að varaþingmaður gekk úr flokknum.

Til þess var tekið að Samfylkingin hikaði ekki við að nota fánann í þeirri skrautsýningu, sem stjórnmálaflokkar hafa til þessa forðast. Og gott betur, því þar var forsetafánanum flaggað eins og hann væri að fara úr tísku.

Smábátasjómenn leggja til að þeir megi veiða eins mikið og þá lystir og rökstyðja það með því að full samstaða sé um það í Landssambandi smábátasjómanna.

Jarðskjálfti varð í Bárðarbungu og mældist hann 5,4 stig á Richter.

Heilbrigðisráðherra hitti og hughreysti heimilislækna vegna óhóflegrar skriffinnsku sem hrjáir þá marga, jafnvel svo kulnunar gæti þeirra á meðal.

Fyrirhugaðar breytingar á örorkulífeyriskerfinu voru kynntar; 100 þúsund kr. almennt frítekjumark og allt að 350 þúsund í atvinnutekjur án skerðinga.

Vakin var athygli á því að átta morðmál hafa komið upp í landinu á síðustu 12 mánuðum, sem er veruleg aukning frá fyrri árum. Margrét Valdimarsdóttir afbrotafræðingur telur sennilegustu ástæðuna mikla fjölgun íbúa landsins.

Þess var krafist á fundi um MÍR (Menningartengsl Íslands og Rússlands, áður Ráðstjórnarríkjanna) að stjórn víki og afhendi húsnæði félagsins og skjöl. Héraðsdómur ógilti nýlega ákvarðanir hennar, sem hnigu að upplausn MÍR.

Fyrrverandi skipulagsstjóri kynnti rannsókn sem leiddi í ljós að meirihluti starfsfólks við skipulagsmál í landinu þekkir dæmi um spillingu.

Pétur Guðfinnsson fv. útvarpsstjóri dó 94 ára.

Björn Theodór Líndal lögmaður dó 67 ára.

Sjálfstæðismenn í borgarstjórn breiddu út 1.600 vettlinga í Ráðhúsinu til marks um fjölda barna á biðlistum eftir leikskólaplássi. Á daginn kom að þeir voru helmingi færri en þyrfti, biðlistinn hafði tvöfaldast.

Orkubú Vestfjarða tapar fimm milljónum króna á dag vegna skerðingar á afhendingu raforku og stefnir tapið í að verða 600 milljónir áður en þær taka enda.

Sendiherra Kína boðaði beint flug hingað til lands frá heimalandi sínu og impraði á áhuga Kínverja á uppbyggingu samgönguinnviða hér á landi.

Gyrðir Elíasson er ekki aðeins einn fremsti rithöfundur landsins, því löng biðröð myndaðist í Garði í Suðurnesjabæ, þar sem hann sýnir um 1.200 myndverk sín.

Shakespeare-þýðingar Indriða Einarssonar fundust óvænt í skókassa í fórum afkomenda hans. Skórnir eru hins vegar enn ófundnir.

Íbúar við Skúlagötu hafa kært bráðabirgðaflutning endastöðvar Strætós frá Hlemmi. Þeir telja að því fylgi bæði rask, ónæði og mengun.

Börn eru síður bólusett nú en áður, sem vekur áhyggjur um útbreiðslu ýmissa smitsjúkdóma.

Degi áður en framboðsfrestur til forsetakjörs rann út kváðust níu hafa safnað tilskildum fjölda meðmælenda til þess að vera í framboði.

Greint var frá því að litlu hefði munað að stórslys yrði fyrir ári, þegar stjórnendur misstu stjórn á stóreflis skemmtiferðaskipi í miklum vindi á Viðeyjarsundi. Að sögn sérfræðinga hefði þá þurft að leita aðstoðar erlendis frá og óvíst um afdrif.

Kostnaður borgarinnar vegna endurbóta og endurbygginga leikskóla vegna myglu hefur reynst vera meiri en milljón krónur á fermetrann.

Verðbólga mældist 6% og frekari hjöðnun er spáð.

Landsmenn fögnuðu sumri í mikilli blíðu, sem ekki hefur verið reglan síðustu aldir.

Einhver ódámur ákvað hins vegar að halda upp á síðasta vetrardag með því að gylla styttuna Útlagar eftir Einar Jónsson út við horn Hólavallakirkjugarðs.

Jarðfræðingar telja líkur á öðru gosi fara vaxandi, sem er nokkurt einsdæmi, en land rís þó enn gjósi við Sundhnúkagíga.

Tíu hafa látist í umferðinni það sem af er ári.

Karlmaður var sakfelldur fyrir skilasvik með því að draga sér tíu milljónir kr., en vegna tafa hjá ákæruvaldinu var sex mánaða fangelsisdómur skilorðsbundinn.

Þrettán manns kváðust hafa skilað tilskildum fjölda meðmælenda með forsetaframboði sínu, en landskjörstjórn á eftir að fara yfir það. Gild framboð verða tilkynnt eftir helgi.

Haraldur Júlíusson, netagerðarmeistari í Eyjum og fótboltakappi forðum tíð, dó 76 ára.

Pétur Einarsson leikari dó 83 ára.