Lét úr höfn þegar betra hefði verið að bíða eftir að lægði

Skemmtiferðaskipið Norwegian Prima er risastórt. 23. mars í fyrra lagði það úr Reykjavíkurhöfn með um 5.000 farþega og skipverja um borð. Hávaðarok var þennan dag, einir 50 hnútar, og um tíma misstu stjórnendur stjórn á skipinu. Það bar af leið og mátti litlu muna að það tæki niðri á grynningum við Viðey og þá hefði ekki verið að sökum að spyrja. Með naumindum tókst að afstýra strandi, en aðeins var spursmál um metra að illa færi.

Komið hefur fram að hafnleiðsögumaður skipsins hafi haft efasemdir um að rétt væri að leggja úr höfn við þær aðstæður sem voru þennan dag, en skipstjórinn hefði virt þær að vettugi og hann hefur síðasta orðið.

Nú hefur málið verið rannsakað og skýrsla gerð um það sem gerðist þennan dag. Gísli Jóhann Hallsson, yfirhafnsögumaður Faxaflóahafna, sagði í viðtali í Morgunblaðinu í gær að þegar hefði verið hafist handa við að átta sig á hvernig ætti að fyrirbyggja að atvik sem þetta endurtæki sig og Siglingaráði falið að gera áhættumat á siglingum skemmtiferðaskipa við Íslandsstrendur.

Það þarf ekki að tíunda hversu alvarlegt slys hefði getað orðið ef ekki hefði tekist að afstýra strandinu. Fyrir rúmum áratug strandaði skemmtiferðaskipið Costa Concordia á Miðjarðarhafi. Rúmlega fjögur þúsund manns voru um borð. Sex klukkustundir tók að koma farþegum og áhöfn frá borði og 32 létu lífið. Það tók þrjá mánuði að tæma eldsneytistanka skipsins.

Auðunn F. Kristinsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, sagði í viðtali við mbl.is í gær að Gæslan væri með áætlanir til að bregðast við slysum af þessu tagi. Að því leyti kallaði það ekki á sérstakar aðgerðir af hálfu Landhelgisgæslunnar. Í mars hefði Gæslan haldið vinnustofur og haft skriflega æfingu með útgerðum skemmtiferðaskipa þar sem farið hefði verið nákvæmlega yfir þessi mál.

Hann sagði að áætlanir Landhelgisgæslunnar gengju út á að reyna að koma vélarvana skipum eða þeim sem lentu í óhöppum í örugga höfn án þess að það þyrfti að rýma þau. Hins vegar réði ekkert land við að bregðast við svona slysi eitt síns liðs og óhjákvæmilegt væri að fá erlenda aðstoð. Miðað við íbúafjölda stæði Landhelgisgæslan hins vegar nokkuð vel.

Skemmtiferðaskipum hér við land á sennilega eftir að fjölga á næstu árum ef eitthvað er og er umferð þeirra þó orðin veruleg. Atvikið í fyrra vekur óhug. Við skoðun á því hljóta fyrstu viðbrögð að vera þau að herða skilyrði þannig að skip leggi ekki úr höfn nema veður leyfi. Það getur komið í veg fyrir að skip haldi áætlun, en það er nokkuð sem gera verður ráð fyrir þegar siglt er um norðurslóðir þar sem allra veðra getur verið von.