Sigurður Pálmi Kristjánsson fæddist í Hafnarfirði 20. nóvember 1937. Hann lést 20. apríl 2024.

Foreldrar hans voru Sigrún Sigurðardóttir húsfreyja, f. 25. júlí 1894, d. 26. ágúst 1988, og Kristján Albert Guðmundsson sjómaður, f. 20. maí 1910, d. 13. desember 1992. Systir hans er Ólafía Kristrún Kristjánsdóttir, f. 24. ágúst 1939.

Sigurður kvæntist á jóladag 1959 Ingibjörgu Gissunni Jónsdóttur hárgreiðslumeistara, f. 26. júlí 1935, d. 7. ágúst 2016. Foreldrar hennar voru Jón Gissurarson sjómaður, f. 18. apríl 1901, d. 14. ágúst 1981, og Kara Áslaug Helgadóttir húsfreyja, f. 6. febrúar 1907, d. 25. júlí 1989.

Börn Sigurðar og Ingibjargar eru: 1) Áslaug, f. 6. janúar 1961, gift Pétri Hafsteini Stefánssyni, f. 26. mars 1962. Sonur þeirra er Jón Stefán, f. 14. júlí 1999. Dóttir Áslaugar frá fyrra hjónabandi er Heiðrún Gissunn Káradóttir, f. 19. janúar 1988, í sambúð með Daniel Dale, f. 8. nóvember 1996. 2) Sigrún, f. 22. nóvember 1962, gift Magnúsi Ingvari Torfasyni, f. 23. febrúar 1960. Börn þeirra eru Kara Ásta, f. 13. nóvember 1993, og Sigurður Bjartmar, f. 9. maí 1997. 3) Jón, f. 17. apríl 1965, kvæntur Jónínu Þórunni Thorarensen, f. 17. desember 1965. Börn þeirra eru Ingibjörg Gissunn, f. 18. ágúst 1993, Kristján, f. 27. janúar 1997, og Soffía, f. 28. janúar 1999.

Barnabarnabörn Sigurðar eru Ísabella Margrét (látin), Aníta Íris, Arabella Íselín, Aurelia Isold, Jón Hrannar og Sigfús Jóhann.

Sigurður ólst upp í Hafnarfirði og gekk þar í skóla en allt frá barnæsku og fram til sextán ára aldurs dvaldi hann á sumrin í sveit að Fossi í Hrunamannahreppi hjá þeim hjónum Jóhönnu Bjarnadóttur og Matthíasi Jónssyni. Hann lauk meistaraprófi í húsasmíði árið 1957 frá Iðnskólanum í Hafnarfirði og sigldi eftir það utan til framhaldsnáms, fyrst í arkitektúr og síðan í tæknifræði og lauk prófi í byggingartæknifræði frá Tækniskólanum í Kaupmannahöfn árið 1963.

Þegar heim var komið starfaði Sigurður hjá Húsnæðismálastofnuninni um tíu ára skeið. Samhliða því vann hann einnig sem matsmaður fasteigna fyrir Landsbankann og kenndi við Tækniskólann í Reykjavík um árabil. Árið 1976 stofnaði hann með nafna sínum Sigurði Guðmundssyni teiknistofuna Staðalhús sf. og reyndist samstarf þeirra nafna afar farsælt Teikningar og önnur gögn frá Staðalhúsum eru nú geymd hjá Þjóðskjalasafninu.

Sigurður og Ingibjörg héldu heimili fyrstu árin á Frakkastíg 7 og að Sjafnargötu 5 til ársins 1981 en þá fluttu þau í nýbyggt hús sitt á Baugatanga 1 í Skerjafirði.

Sigurður var mikill málamaður og lærði mörg tungumál mjög vel, meðal annars rússnesku, sem hann talaði reiprennandi. Hann var fróður um landafræði og sögu og fylgdist vel með stjórnmálunum og atburðum líðandi stundar. Einnig naut hann þess að hlýða á klassíska tónlist, sækja tónleika og spila á píanó.

Útför Sigurðar fór fram frá Hafnarfjarðarkirkju 26. apríl 2024.

Okkur langar að minnast vinar okkar og velgjörðarmanns Sigurðar Pálma Kristjánssonar.

Kynni okkar hófust sumarið 1989 þegar við höfðum tekið ákvörðun um að byggja okkur íbúðarhús hér í Seglbúðum. Von var á frumburði okkar og því tímabært að stækka hreiðrið. Sigurður kom austur ásamt nafna sínum og samstarfsmanni Sigurði Guðmundssyni, til að sjá umhverfið þar sem húsið átti að rísa með eigin augum en hingað höfðu þeir aldrei komið.

Sigurður var stór maður bæði að vexti og visku. Hann hafði skoðanir á málefnum líðandi stundar og var unun að hlusta á hann ræða dægurmálin í samhengi við söguna.

Við eigum eftir að sakna góðs vinar. Símtölin verða ekki fleiri, jólakortin og heimsóknir ekki heldur en minningar um góðan mann lifa í hjörtum okkar.

Af einlægni þökkum við fyrir allt og allt.

Aðstandendum Sigurðar sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Þórunn, Erlendur og
fjölskylda, Seglbúðum.