1999 Hlauparar rjúka af stað við Reykjavíkurtjörn í upphafi Reykjavíkurmaraþonsins árið 1999 eða fimmtán árum eftir að hlaupið var fyrst haldið.
1999 Hlauparar rjúka af stað við Reykjavíkurtjörn í upphafi Reykjavíkurmaraþonsins árið 1999 eða fimmtán árum eftir að hlaupið var fyrst haldið. — Morgunblaðið/Sverrir Vilhelmsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján Jónsson kris@mbl.is

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Reykjavíkurmaraþonið verður á sínum stað í ágúst enda landsmenn fyrir löngu farnir að reikna með því í kringum afmæli borgarinnar en fyrst var hlaupið haldið árið 1984. Líklega eru ekki margir sem vita að hugmyndin að hlaupinu kviknaði ekki í íþróttahreyfingunni á Íslandi heldur innanhúss hjá ferðaskrifstofunni Úrvali. Hugmyndina fékk Knútur Óskarsson og ræddi hana fyrst við Stein Lárusson.

„Ég sá um móttöku erlendra ferðamanna hjá Úrvali á þessum tíma. Sú hugmynd kviknaði að setja á laggirnar skíðagöngumót sem við kölluðum Lava loppet en mótshaldið fauk nánast út í veður og vind í tvö ár. Líklega var það 1981 og 1982 en mótshaldið raskaðist mjög vegna veðurs,“ segir Knútur og þótt veðurguðirnir hafi látið ófriðlega þá voru hann og samstarfsaðilarnir komnir á bragðið með að hægt væri að fá fólk til landsins í kringum íþróttaviðburði.

„Við höfðum fengið góða samstarfsaðila og það komu margir Norðmenn til að keppa í skíðagöngunni. En þetta gekk erfiðlega vegna veðurs og í framhaldinu fékk ég aðra hugmynd þegar ég var staddur í Gautaborg. Ég og bróðir minn vorum á rölti um borgina en komum að lokuðum götum hér og þar. Við sáum áhorfendur og hlaupara en þá var keppni í hálfu maraþoni í gangi með sterkum keppendum. Þá laust þessari hugmynd niður í kollinn að auðvitað væri heppilegra að standa fyrir hlaupi að sumri til heldur en skíðagöngumóti að vetri til.“

Heimsóknin til Svíþjóðar kveikti neistann sem þurfti til að kveikja bál. „Þegar ég kom heim settumst við Steinn Lárusson niður og ég nefndi þessa hugmynd við hann að halda maraþonhlaup í Reykjavík í þeirri von að fá erlenda ferðamenn sem myndu taka þátt í hlaupinu. Ég sendi bréf á nokkra aðila og þar á meðal Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur. Viku eftir að ég sendi bréfið kom Markús Örn Antonsson á skrifstofuna til mín en hann var þá formaður ÍTR en einnig formaður útvarpsráðs,“ rifjar Knútur upp.

Formaður ÍTR fundaði með Knúti og formaður útvarpsráðs var ekki lengi að sjá fréttina í málinu.

„Við ræddum saman í liðlega klukkutíma. Við handsöluðum og Markús Örn sagði að við ættum að kýla á hugmyndina. Klukkutíma síðar hringdi Ólafur Sigurðsson fréttamaður í mig og sagðist hafa frétt að til stæði að halda alþjóðlegt maraþonhlaup í Reykjavík. Þótt ég væri ekki undirbúinn undir þetta þá fór ég í viðtal til hans í gamla Sjónvarpshúsinu. Það var sýnt á besta tíma í sjónvarpsfréttunum og í framhaldinu vildu allir vera með. Þannig fór þetta af stað en við vorum strax með góða samstarfsaðila eins og Flugleiðir, Morgunblaðið, Rás 2 og Henson,“ segir Knútur og telur þetta hafa verið fyrri hluta árs 1984.

Ráðleggingar í Berlín

Þegar alvara var komin í málið kynnti Knútur sér málin vel og hitti til dæmis guðföður Berlínarmaraþonsins í því skyni að fræðast um slíkt mótshald. Reyndist það mjög gagnlegt og reynt var að fylgja ráðleggingum Þjóðverjans. Á þessum árum voru fáir sem hlupu götuhlaup sér til heilsubótar á Íslandi. Íslendingar áttu keppnismenn og ólympíufara í hlaupum en þorri fólks á Íslandi stundaði aðrar íþróttir sér til ánægju. Hefur það auðvitað gerbreyst eins og við þekkjum. Í dag er Reykjavíkurmaraþonið stór viðburður á íslenskan mælikvarða og fjöldi fólks kemur að utan til að taka þátt í því. Finnst Knúti skrítið til þess að hugsa að 40 ár séu liðin frá þessum fyrstu (maraþon)skrefum?

„Já, ég verð að segja það. Mig minnir að ég hafi dregið mig í hlé í þessu fyrir áratug þótt ég sé til taks á hliðarlínunni ef svo ber undir. Við fengum strax gott fólk til að vinna með okkur sem skipti verulegu máli. Á þeim tíma var skipulagningin í samstarfi við Frjálsíþróttasambandið en síðar tók Íþróttabandalag Reykjavíkur við af því. Við gengum í alþjóðleg samtök sem heita AIMS og þar fengum við strax löggildingu. Eitthvað gerðum við rétt í þessu en það tók tíu til fimmtán ár að ná stærðargráðu að ráði enda var hlaupamenningin ekki til staðar hérlendis. Maður verður gapandi og nánast klökkur þegar maður fer niður í bæ á þessum degi sem hlaupið fer fram,“ segir Knútur Óskarsson.

Maraþonið 2024

Reykjavíkurmaraþonið fer fram 24. ágúst.

Nú þegar hafa tæplega 3 þúsund manns skráð sig í hlaupið samkvæmt upplýsingum frá ÍBR. Er það 20% aukning ef miðað er við sama tíma í fyrra.

Þar af eru 1.300 erlendir hlauparar, sem er svipað hlutfall og fyrir ári.

Uppselt var í hlaupið í fyrra. Auglýst verður þegar miðum fer að fækka í öllum þeim vegalengdum sem eru í boði.

Höf.: Kristján Jónsson