Sveinbjörn Hallsson fæddist í Hallkelsstaðahlíð í Hnappadal 11. apríl 1940. Hann lést 14. apríl 2024 á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi.

Foreldrar hans voru hjónin Hallur Magnússon og Hrafnhildur Einarsdóttir í Hallkelsstaðahlíð. Sveinbjörn var eitt tólf barna þeirra hjóna. Hin eru Einar, f. 1927, Sigríður Herdís, f. 1928, Anna Júlía, f. 1930, Sigfríður Erna, f. 1931, Ragnar, f. 1933, Margrét Erla, f. 1935, Guðrún, f. 1936, Magnús, f. 1938, Elísabet Hildur, f. 1941, Svandís, f. 1943, og Halldís, f. 1945. Látin eru Magnús, Einar, Guðrún, Svandís, Ragnar, Sigríður Herdís, Sigfríður Erna og Anna Júlía.

Sveinbjörn byrjaði ungur að vinna við bú foreldra sinna í Hallkelsstaðahlíð. Hann var bóndi alla sína tíð en stundaði þó vinnu utan bús af og til. Hann vann í sláturhúsum, fyrst í Syðstu-Görðum og síðan um árabil í Búðardal auk þess sem hann vann við brúarsmíði. Sveinbjörn sat í hreppsnefnd Kolbeinsstaðahrepps nokkur kjörtímabil og var forðagæslumaður hreppsins auk þess sem hann var refaskytta í rúmlega 30 ár.

Útförin fer fram frá Kolbeinsstaðakirkju í dag, 27. apríl 2024, og hefst klukkan 14.

Nú er litli bróðir minn hann Svenni dáinn. Ég passaði hann mikið þegar hann var lítill strákur en hann var fimm árum yngri en ég. Hann var oft mikið veikur þegar hann var lítill en núna er hann búinn að lifa alla sína bræður. Hann var alltaf ljúfur og góður drengur. Svenni bjó alla tíð í sveitinni okkar Hallkelsstaðahlíð og fylgdist mikið með kindum. Glöggur fjármaður og þekkti hverja kind með nafni. Honum var umhugað um að þær kæmust allar í hús fyrir veturinn. Margir muna eftir honum á honum Létti. Glæsilegur reiðmaður á rauðskjótta hestinum. Stúlkurnar horfðu á eftir honum dreymnum augum en hann tók ekki eftir þeim. Var ókvæntur alla tíð.

Hann var einungis fimm ára þegar faðir okkar dó, 9. í röðinni af okkur 12 systkinum. Núna erum við bara þrjár systurnar eftir. Hann var alla tíð í Hallkelsstaðahlíð og vann við búskapinn, en var á hjúkrunarheimilinu Brákarhlíð núna síðustu ár. Börnin mín voru öll hrifin af Svenna og hann hafði gaman af því að stríða þeim öllum.

Gott er að eiga ljúfar og góðar minningar um góðan bróður.

Það er svo margt að minnast á

frá morgni æsku ljósum,

er vorið hló við barnsins brá

og bjó sig skarti’af rósum.

Við ættum geta eina nátt

vorn anda látið dreyma,

um dalinn ljúfa’ í austurátt,

þar átti mamma heima.

Þótt löngu séu liðnir hjá

þeir ljúfu, fögru morgnar,

þá lifnar yfir öldungsbrá

er óma raddir fornar.

Hver endurminning er svo hlý

að yljar köldu hjarta.

Hver saga forn er saga ný,

um sólskinsdaga bjarta.

(Einar E. Sæmundsson)

Margrét (Maddý) systir og afkomendur hennar.

Í systkinahópnum í Hallkelsstaðahlíð í Hnappadal var mikill áhugi á íþróttum, einkum frjálsíþróttum, um miðja síðustu öld. Níu af tólf úr systkinahópnum kepptu t.d. á héraðsmótunum. Það var ævintýri fyrir strák á næsta bæ að fylgjast með og byrja að æfa sig í einhverjum greinum. Þá var ekki verra að hafa keppinaut. Við Sveinbjörn Hallsson, frændi í Hallkelsstaðahlíð sem nú er allur, vorum næstum jafnaldrar. Á hverju sumri í nokkur ár háðum við keppni í hlaupum, stökkum og köstum og gekk á ýmsu. Á veturna lágum við í sveitasímanum og tefldum. Ekki var það vinsælt hjá öðrum á línunni. Þetta voru góðar stundir og geymast enn í minninu.

Svo kvaddi ég dalinn og samverustundir urðu fáar. Ég komst þó að því að þessi þægilegi frændi gat verið stríðinn. Allt í góðu þó. Eitt sinn vorum við í ungmennafélagsferð og lentum á balli á Laugum í Dalasýslu. Eitthvað var Svenni að stríðast við stráka á ballinu sem var varhugavert, því það var gat á gólfinu og sundlaug undir. Þeir vildu vita hver þessi stríðnispúki væri og hann sagðist heita Guðmundur Jónasson. Seinna var Svenni að keppa í 1500 m hlaupi á héraðsmóti HSH. Aðalkeppinauturinn hét Guðmundur Jónasson. Þeir Guðmundarnir klára þetta væntanlega hinum megin.

Svona er lífið oft skemmtilegt sem betur fer. Ljúfur drengur er allur og blessuð sé minning hans. En hlíðin og vatnið eru áfram á sínum stað.

Reynir Ingibjartsson.