„Blaðamennskan valdi mig á sínum tíma og sama má segja um störf mín fyrir félagið,“ segir Hjálmar Jónsson.
„Blaðamennskan valdi mig á sínum tíma og sama má segja um störf mín fyrir félagið,“ segir Hjálmar Jónsson. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ekkert er mikilvægara fyrir blaðamann en sjálfsgagnrýni og hann þarf alltaf að vera meðvitaður um það að uppi eru margvíslegar skoðanir.

Eftir 35 ára störf fyrir Blaðamannafélag Íslands (BÍ), lengst af sem formaður og/eða framkvæmdastjóri, sá Hjálmar Jónsson ekki fyrir sér að viðskilnaðurinn yrði með þeim hætti sem raun ber vitni. Það hefur líklega ekki farið fram hjá mörgum að honum var sagt upp störfum sem framkvæmdastjóra félagsins í byrjun ársins og í næstliðinni viku var lögð fram skýrsla um störf hans á aðalfundi félagsins sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum.

Hjálmar svaraði því sem fram kemur í skýrslunni í opnu bréfi til félagsmanna BÍ, undir yfirskriftinni Æpandi vanþekking, sem birtist á Vísi í vikunni. Þar segir hann meðal annars: „Ég hlýt að þakka stjórn Blaðamannafélags Íslands fyrir að hafa sent svokallaða skýrslu KPMG til félagsmanna BÍ þannig að þeir geti kynnt sér þá aðför að æru minni sem þarna er á ferðinni beint og milliliðalaust. Ég fékk skýrsluna senda klukkan 16.49 á föstudaginn var, þann 19. apríl í tölvupósti frá formanni. Það er í fyrsta skipti sem ég sé skýrsluna. Hvorki hinn „óháði bókari“ né heldur KPMG hafði samband við mig allan þann tíma sem þessi úttekt stóð yfir til að leita skýringa eða upplýsinga varðandi þær færslur sem þar eru til umfjöllunar. Það hefðu talist vera eðlileg vinnubrögð ef vilji hefði verið til sanngjarnrar málsmeðferðar.“

Síðan fer Hjálmar yfir efnistök skýrslunnar lið fyrir lið og er óþarfi að fjölyrða um það hér.

Stendur með sannfæringunni

„Ég átti sannarlega ekki von á að láta af störfum eftir allan þennan tíma undir þessum kringumstæðum,“ segir Hjálmar í samtali við Sunnudagsblaðið. „En þó það hafi kallað yfir mig þessa aðför að æru minni þá varð ég að standa með minni sannfæringu og samvisku. Það eina sem maður fer með yfir móðuna miklu er samviskan, þegar allt kemur til alls.“

Þar vísar Hjálmar til meintra undanskota núverandi formanns BÍ, Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, frá skatti sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum og viðbragða hans sjálfs við því máli.

Hann heldur áfram. „Ég starfaði lengi fyrir Blaðamannafélagið, bæði sem formaður og framkvæmdastjóri, og mér þykir ákaflega vænt um þetta félag. Þegar þessi mál, sem snúa að núverandi formanni, komu upp fannst mér ég ekki geta þagað, heldur varð ég að setja hnefann í borðið og láta mína skoðun í ljósi. Það er að mér fyndist ekki samboðið virðingu félagsins að formaðurinn gerði ekki hreint fyrir sínum dyrum. Það var ekki persónulegt á einn eða neinn veg. Það er alveg sama hver hefði átt í hlut, ég hefði alltaf tekið sömu afstöðu. Til þess má rekja þá misklíð sem upp kom.“

Hjálmar var þarna orðinn 67 ára og gerði sér fulla grein fyrir því að störfum hans fyrir Blaðamannafélagið færi senn að ljúka. Honum þótti það þó ekki rétti tímapunkturinn, meðan óvissa ríkti um skattamál formannsins, að hann léti af starfi framkvæmdastjóra. „Þegar átti að auglýsa starf mitt síðasta haust gerði ég stjórninni grein fyrir þessari afstöðu en á þeim tíma hafði verið rætt að ég starfaði áfram hjá félaginu um tíma enda þótt annar maður tæki við starfi framkvæmdastjóra. Það breyttist þegar þetta mál kom upp.“

Honum þykir miður hvernig fór. En þessi staða kom upp og við því kveðst hann hafa orðið að bregðast, samvisku sinnar vegna. „„Spyr þú því aldrei hverjum klukkan glymur. Hún glymur þér.“ Síðan leiddi eitt af öðru og ég hef ekkert við það að athuga að mér hafi verið sagt upp störfum. Mér var boðinn starfslokasamningur sem ég þáði ekki enda var hann verri en að láta segja sér upp og ég stend ekki í prútti við fólk. Ég er bara ekki þannig gerður. Auðvitað grömdust mér þessi málalok en þegar mér var runnin reiðin gerði ég stjórn félagsins grein fyrir því að ég myndi ekki gera neitt til þess að auka misklíð í félaginu eða kljúfa það enda ætti þetta ekki á neinn hátt að snúast um mína persónu. Mín afstaða var komin fram.“

Sömu kröfur til allra

– Varðandi mál formannsins?

„Varðandi það hvað er samboðið virðingu Blaðamannafélagsins. Blaðamenn verða að gera að lágmarki sömu kröfur til sín og þeir gera til annarra. Okkar hlutverk er að veita aðhald og fyrir vikið getum við ekki gert minni kröfur til okkar sjálfra en þeirra sem við erum að fjalla um hverju sinni. Það er lykilatriði. Heiðarleiki er undirstaða trúverðugleika og hafi blaðamenn ekki trúverðugleika þá hafa þeir ekki neitt. Blaðamannafélagið á auðvitað að vera þar fremst í flokki. Það er ófrávíkjanlegt.“

Hann bætir við að hitt hefði ugglaust verið þægilegra, að þegja. „En það var bara ekki í boði.“

– Var málið rætt í stjórninni?

„Já, það var gert á stjórnarfundum og mín sjónarmið voru þar í minnihluta. Það er áhyggjuefni, að mínum dómi. Ég fullyrði að fyrir 20 árum og örugglega fyrir 30 eða 40 árum hefði svona lagað ekki getað komið upp öðruvísi en að formaður félagsins hefði stigið til hliðar, að minnsta kosti tímabundið, þar til öll kurl væru komin til grafar.“

– Áttuð þið formaðurinn gott samstarf fram að þessu?

„Já, það var ekkert upp á það að klaga, á hvorugan veginn, þessi tæplega þrjú ár.“

– Breyttist andrúmsloftið strax eftir að þú tókst þína afstöðu?

„Já, eftir að ég tók mína afstöðu og lýsti því yfir að ekki væri rétt að ég stigi frá borði meðan þessi mál væru óuppgerð.“

Hjálmar kom fyrst að Blaðamannafélaginu 1989. „Blaðamennskan valdi mig á sínum tíma og sama má segja um störf mín fyrir félagið. Ég sá aldrei fyrir mér að ég myndi starfa á þessum vettvangi til langs tíma, ég ætlaði mér að verða heimspekingur og leysa lífsgátuna og blaðamennskan var bara biðleikur. Félagsmálavafstrið byrjaði með því að ég kom inn í samninganefnd félagsins 1989 og 1990 varð ég varaformaður. Síðan leiddi eitt af öðru, ég varð formaður 1998, tók við af Lúðvík Geirssyni sem þá varð framkvæmdastjóri. Þegar hann varð svo bæjarstjóri í Hafnarfirði féll félagið í fangið á mér. Þá var þetta hlutastarf. Síðan hef ég ýmist verið formaður eða framkvæmdastjóri og frá 2010 gegndi ég báðum hlutverkum, þangað til ég hætti sem formaður 2021.“

Blaðamannafélagið var snar þáttur í lífi Hjálmars í hálfan fjórða áratug. „Ég byggði félagið upp á þeim grunni sem fyrrverandi framkvæmdastjóri, Fríða Björnsdóttir, hafði lagt með miklum ágætum og það hefur verið mikil farsæld yfir þessum rekstri alla tíð og félagið styrkst og eflst jafnt og þétt allan þennan tíma. Ætli hrein eign félagsins hafi ekki tífaldast að raungildi á síðustu 20 árum, úr tæpum 100 milljónum í tæpan einn milljarð, þannig að þetta er til þess að gera auðugt félag í dag. Væri því slitið sýnist mér að eign hvers og eins félagsmanns væri tvær og hálf til þrjár milljónir króna. Það myndi jafngilda því að félag eins og VR ætti 100 til 120 milljarða, ef mér skjátlast ekki. Ég fylgdi alla tíð forskrift Fríðu og hagfræði hagsýnu húsmóðurinnar, það er að eyða aldrei meira en þú aflar. Það hefur verið mjög farsælt og félagið ávallt skilað jákvæðri niðurstöðu allan þennan tíma. Við töpuðum ekki krónu í hruninu, sem dæmi. Ég var alla tíð meðvitaður um það að félagar í Blaðamannafélaginu ættu peningana og ættu að njóta þeirra. Þess vegna hélt ég kostnaði við reksturinn í lágmarki og lagði áherslu á litla yfirbyggingu og gekk sjálfur í hin ýmsu störf.“

Hjálmar gerði ekki athugasemd við áform núverandi stjórnar um að gera úttekt á bókhaldi félagsins enda kveðst hann ekki hafa neitt að fela. Hann er á hinn bóginn ósáttur við þau vinnubrögð að kynna skýrsluna á aðalfundi félagsins án þess að hann hefði sjálfur fengið að sjá hana og bregðast við henni. Eins og fram hefur komið fékk hann símtal 36 mínútum áður en fundurinn hófst.

Fyrir neðan allar hellur

– Hvað finnst þér um þau vinnubrögð?

„Þau vinnubrögð eru fyrir neðan allar hellur og þetta dæmir sig auðvitað sjálft. Ég er eiginlega rothissa á þessu í ljósi starfa minna fyrir félagið gegnum tíðina. Hvers vegna fékk ég ekki tækifæri á þremur mánuðum til að koma mínum sjónarmiðum á framfæri? Blaðamönnum ber að vera sanngjarnir og ég hef áhyggjur af því hvaða augum almenningur lítur þessi vinnubrögð. Þarna átti greinilega að reyna að gera mig tortryggilegan. Ég er sannarlega ekki gallalaus maður en ég held að ekki sé hægt að véfengja að ég hafi unnið félaginu eins og ég gat best allan þennan tíma og lagt mikið í þá vinnu. Ég vandaði mig alla tíð og er með góða samvisku vegna minna starfa fyrir Blaðamannafélag Íslands, þetta breytir engu þar um. Ég hef satt best að segja engar sérstakar áhyggjur af þessu máli enda eru þau efnisatriði sem koma fram í þessari skýrslu kjánaleg og lýsa mikilli vanþekkingu á rekstri félagsins, eins og ég fór yfir, lið fyrir lið, í grein minni á Vísi í vikunni. Ég er og verð mjög stoltur af störfum mínum fyrir Blaðamannafélagið og óttast ekki dóm sögunnar.“

– Hefur félagið sett niður vegna þessara vinnubragða?

„Ég hefði kosið að haldið hefði verið á þessum málum með öðrum hætti.“

Hjálmar segir það því miður hafa loðað við verkalýðshreyfinguna, ekki bara Blaðamannafélagið, að átök milli manna geti orðið heiftúðug. Það sé auðvitað óheppilegt og ekki til neins annars fallið en að veikja samstöðumátt félaganna. „Sjálfur ætla ég ekki að kasta sprekum á þann eld enda er ömurlegt að deila við samherja sína. Ég mun hins vegar alltaf verja hendur mínar ef á mig er ráðist.“

– Er þetta hefndaraðgerð af hálfu formanns Blaðamannafélagsins?

„Mér finnst þessi framganga óskiljanleg.“

Stjórn Blaðamannafélagsins hefur sagt að hún muni skoða á næstunni hvort ástæða sé til að bregðast frekar við skýrslu KPMG. Hjálmar kveðst ekki hafa skoðun á því enda sé hann búinn að gera grein fyrir sinni hlið málsins og hafi óskað eftir að félagsmönnum í BÍ verði send greinargerð hans með sama hætti og skýrsla KPMG var send félagsmönnum. Stjórnin hafi ekki enn orðið við þeim tilmælum, en hann trúi ekki öðru en að það verði gert, hjá félagi þar sem helsta skyldan sé að standa vörð um tjáningarfrelsið og sanngjörn skoðanaskipti.

„Ég vona bara að stjórn Blaðamannafélagsins hafi hagsmuni félagsins og orðstír að leiðarljósi, hér eftir sem hingað til. Mér þykir, eins og ég sagði áðan, vænt um þetta félag og óska því alls hins besta. Það gegnir mjög mikilvægu hlutverki í samfélaginu og blaðamennska er lykilatriði í lýðræðissamfélagi nútímans. Blaðamannafélagið verður vonandi áfram öflugur bakhjarl fyrir sína félagsmenn sem byggja má ofan á öfluga starfsemi.“

– Er eitthvað í þessum ábendingum í skýrslunni sem þú tekur til þín? Hefði t.d. mátt hafa verklag að einhverju leyti með öðrum hætti?

„Hefði félagið verið stærra hefði það mögulega verið hægt en miðað við umfangið þá var það ekki í boði. Lengi var ekki einu sinni fullt starfsgildi hjá félaginu. Allir sjóðir í félaginu eru með sérstakar stjórnir og allir verkferlar voru bornir undir þær á hverjum tíma. Þar bar engan skugga á nokkurn tíma. Ekki þangað til mér var sagt upp vegna þess að ég var ósammála stjórninni.“

Hjálmar hverfur sáttur frá borði. „Þó ég sé frískur þá er ég líka orðinn lúinn. Ég hef gefið mig allan í blaðamennskuna og félagsstarfið undanfarna áratugi og hef skilað mínu hlutverki. Félagarnir dæma um hvernig til tókst. Þetta var gríðarlega krefjandi og tímafrekt starf. Sem eini starfsmaður félagsins reyndi ég alltaf að vera tiltækur fyrir félagsmenn, hvar sem er, hvenær sem er, allt árið um kring. Það vænti ég að þeir sem hafa haft samskipti við skrifstofu BÍ gegnum tíðina geti staðfest. Nú er komið að öðrum að taka við keflinu og vonandi gera þeir það eins vel og jafnvel enn betur en ég. Mínum kafla er lokið og ég er stoltur og þakklátur fyrir traustið sem mér hefur verið sýnt gegnum tíðina og samskiptin við allan þennan fjölda blaðamanna.“

Blikur á lofti

Eftir öll þessi ár í eldlínunni hefur Hjálmar vitaskuld skoðun á stöðu blaðamennskunnar í dag og samanburð við fyrri tíð. „Það eru blikur á lofti,“ segir hann, „klárlega. Veruleikinn er miklu flóknari en löngum áður vegna tilkomu samfélagsmiðla, tækniþróunar, falsfrétta og markaðsbrests í tekjuöflun fjölmiðla. Auðvitað hafa alltaf verið til falsfréttir en tæknin gerir þeim nú kleift að fljúga hærra en áður. Að sama skapi hafa samfélagsmiðlar kollvarpað þessum hefðbundnu fjölmiðlum að mörgu leyti og íslensk fjölmiðlafyrirtæki voru alltof sein til að láta greiða fyrir efni. Það kostar sitt að skrifa fréttir og fyrirtækin standa veikum fótum miðað við það sem áður var. Blaðamennska og tjáningarfrelsið eru eftir sem áður jafn mikilvæg.“

– Og fagleg vinnubrögð hafa kannski aldrei skipt meira máli?

„Algjörlega. Ekkert er mikilvægara fyrir blaðamann en sjálfsgagnrýni og hann þarf alltaf að vera meðvitaður um það að uppi eru margvíslegar skoðanir. Hann þarf að vera hlutlægur og sanngjarn, halda fjarlægð og nota dómgreind sína í öllu því skoðanaflóði sem á okkur skellur. Raunar má færa fyrir því rök að þetta hafi aldrei verið mikilvægara.“

Hjálmar fer ekki í grafgötur með að hið opinbera verði að styðja vel við bakið á blaðamennskunni. Hún kosti peninga og leggja verði fé í fjölmiðlakerfið, alveg eins og heilbrigðis- eða menntakerfið, svo dæmi sé tekið. Á þessu sé í reynd enginn eðlismunur. „Við stöndum að mörgu leyti finnst mér í svipuðum sporum og fyrir hundrað árum, eftir heimsstyrjöldina fyrri. Það er upplausn í heiminum, öfgastefnur vaða uppi og fyrir vikið þurfum við enn frekar en ella á opinni og lýðræðislegri umræðu að halda. Það er það eina sem getur tryggt og fest lýðræðið í sessi. Ritstýrðir, faglegir fjölmiðlar eru best til þess fallnir að tryggja þessi gildi þegar vettvangurinn er orðinn svona breiður og fólk með endalausar skoðanir á öllum mögulegum hlutum og tækifæri til að koma þeim á framfæri. Hafi slíkir miðlar ekki tekjugrundvöll liggur í hlutarins eðli að alltof lítið verður um faglega blaðamennsku og faglegar fréttir.“

Magn ekki sama og gæði

– Er orðið of lítið um það nú þegar?

„Já, það er orðið of lítið um það nú þegar. Alltof mikið er hraðsoðið, grunnhyggið og engin tilraun gerð til að fara undir yfirborðið. Magn er ekki sama og gæði, eins og við þekkjum, og yfirborðsmennskan er mikil. Þess vegna verður almenningur að hafa aðgang að trúverðugum og traustum fjölmiðlum, þar sem fagmenn sýsla með upplýsingarnar. Það eina sem tryggir það í raun og veru er samkeppni margra ólíkra fjölmiðla og mismunandi skoðana. Þegar ég var að byrja í blaðamennsku, 1982, voru hér fimm eða sex dagblöð og fljótlega margar útvarpsstöðvar og tvær til þrjár sjónvarpsstöðvar. Það var bylting í fjölmiðlun þegar ljósvakinn var gefinn frjáls 1985 og tíminn fram til 2000 er blómaskeið íslenskrar blaðamennsku, að mínu viti. Þarna fékk maður upplýsingar á breiðum grunni og gat út frá því myndað sér skoðun. Þannig fjölmiðlaumhverfi þurfum við að vera með. Síðan hefur syrt í álinn. Dellan er endalaus alls staðar.“

– Hefurðu trú á því að ráðamenn þjóðarinnar hafi skilning á þessari stöðu?

„Við gjöldum þess stundum, Íslendingar, að heimskt er heimaalið barn og því miður sjáum við ekki alltaf skóginn fyrir trjánum. Ég hef áhyggjur af því að ekki sé nægilegur skilningur á þessu og að menn komi til með að bregðast við of seint. Þetta hefur verið hálfgerð hörmungarganga á síðustu árum. Þarna kemur líka til íslenskan og varðveisla hennar sem ég er því miður ekki bjartsýnn á að muni ganga vel. En það er önnur saga.“

Hann segir að einfaldasta leiðin sé að afnema skatta og gjöld af fjölmiðlum og það ættu menn löngu að vera búnir að gera. En fleira þurfi að koma til, eins og að styrkja rannsóknarblaðamennsku sérstaklega og staðbundna fjölmiðla. Síðan ætti að setja á laggirnar launasjóð blaðamanna í takt við það sem tíðkist á menningarsviðinu til að virkja marga þá hæfileikaríku blaðamenn sem séu á lausu. „Við þurfum ekkert að finna upp hjólið. Allar þessar aðferðir eru þekktar, en það vantar samstöðu um aðgerðir.“

Aftur á skólabekk

Talið berst loks að framtíðinni sem Hjálmar lítur björtum augum. Hvað ætli taki við hjá honum?

„Ég hef verið að velta því fyrir mér undanfarið og það verður gaman að geta um frjálst höfuð strokið og sinnt áhugamálunum. Það stóð alltaf til að mennta sig meira og fyrir covid skráði ég mig í mastersnám í hugmyndasögu í Háskóla Íslands. Ég hef alltaf haft gríðarlegan áhuga á sögu og lærði heimspeki á sínum tíma. Ég byrjaði í þessu námi sem var mjög áhugavert og í raun var auðveldara en ég bjóst við að taka fram glósubókina á ný. En covid skaut námið eiginlega í kaf, hvað sem síðar verður. Það er heldur ekki langt síðan ég eignaðist barnabarn og nú gefst vonandi góður tími til að sinna því og auðvitað fjölskyldunni í heild. Svo er alltaf freistandi að reima á sig skóna á nýjan leik og skrifa. Það er aldrei að vita, nú þegar maður á tímann sinn sjálfur.“

Höf.: Orri Páll Ormarsson