Vetrarmálverk Kristján H. Magnússon vakti í upphafi einkum athygli fyrir málverk sem sýndu náttúru Íslands í vetrarbúningi. Listasafn Íslands á þetta verk sem nefnist „Vetur á Þingvöllum“, sem Kristján málaði árið 1932.
Vetrarmálverk Kristján H. Magnússon vakti í upphafi einkum athygli fyrir málverk sem sýndu náttúru Íslands í vetrarbúningi. Listasafn Íslands á þetta verk sem nefnist „Vetur á Þingvöllum“, sem Kristján málaði árið 1932. — Ljósmynd/Listasafn Íslands
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leit stendur yfir að verkum eftir myndlistarmanninn Kristján H. Magnússon. Tilefnið er að sett verður upp sýning á verkum hans í Listasafni Íslands á næsta ári auk þess sem unnið er að veglegri bók um líf hans og list

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Leit stendur yfir að verkum eftir myndlistarmanninn Kristján H. Magnússon. Tilefnið er að sett verður upp sýning á verkum hans í Listasafni Íslands á næsta ári auk þess sem unnið er að veglegri bók um líf hans og list.

Í undirbúningi verkefnisins hefur verið auglýst eftir verkum eftir listamanninn sem kunna að vera í einkaeigu. Auglýsingarnar hafa þegar skilað góðum árangri og hafa yfir tvö hundruð olíumálverk, vatnslitamyndir og teikningar eftir Kristján frá árabilinu 1925 til 1937 verið ljósmynduð og skráð. Aðstandendurnir vilja þó finna enn fleiri verk og biðja þá sem vita hvar þau kunna að vera að hafa samband.

Þrátt fyrir að verk Kristjáns hafi notið mikillar hylli á hans tíð hefur fennt hratt í spor listamannsins og í dag má segja að hann sé nánast gleymdur. „Það eru margir með verk eftir Kristján uppi á vegg hjá sér án þess að vita hver hann var. Þá er gaman að setja þessi verk í samhengi og að fólk átti sig á því hvað það er með í höndunum,“ segir Dagný Heiðdal listfræðingur sem skrifar í bókina um valin verk listamannsins.

Ritstjóri bókarinnar og aðalhöfundur er Einar Falur Ingólfsson en Goddur – Guðmundur Oddur Magnússon skrifar um veggspjöld og auglýsingar Kristjáns. Bókin er unnin fyrir tilstilli fjölskyldu Kristjáns.

Stuttur ferill en afköstin mikil

Kristján H. Magnússon átti stuttan en athyglisverðan feril. Hann lést einungis 34 ára gamall árið 1937 en var afkastamikill í listinni. Hann ólst upp á Ísafirði en árið 1920, þegar hann var 17 ára, hafði hann misst báða foreldra sína og flutti til eldri bróður síns í Boston. Vestanhafs nam hann í fimm ár við virtasta listaskóla Bostonborgar og að auki í eitt ár við annan virtan skóla í New York. Þar hlaut Kristján virt verðlaun og vöktu verk hans strax athygli á námsárunum.

Kristján flutti aftur til Íslands árið 1929 og málaði einkum íslenska náttúru, þótt eftir hann liggi einnig talsvert af mannamyndum. „Hann var með þeim fyrstu til að mála íslenskt vetrarlandslag,“ segir Dagný og bætir við að listamaðurinn hafi ferðast vítt og breitt um landið. „Á meðan margir listamenn áttu sér uppáhaldsstað þá fór hann mjög víða.“ Hún bendir til dæmis á að fáir hafi málað á Vestfjörðum en það hafi Kristján gert enda frá Ísafirði.

Listasagan er enginn fasti

„Það er óvenjulegt hvað hann sýndi víða,“ segir Dagný. Hann var fyrstur íslenskra myndlistarmanna til að setja upp sýningar í erlendum stórborgum, eins og London, Amsterdam, Stokkhólmi, Boston og New York, og fengu verk hans undantekningarlaust góða dóma. Eins var þeim vel tekið hér heima með einni afgerandi undantekningu. Jón Þorleifsson listmálari, sem var gagnrýnandi Morgunblaðsins, tók þeim afar illa og spunnust hatrammar deilur í blöðum um skrif hans.

Árið 1952 var haldin vegleg minningarsýning um Kristján í Listamannaskálanum við Austurvöll og önnur var sett upp á Ísafirði árið 1994 en engin hefur verið sett upp síðan. Á sýningunni í Listasafni Íslands næsta vor er stefnt að því að sýna mörg helstu verk listamannsins.

„Meðal verkefna safnsins er að kynna íslenska myndlist, þar með talið að vekja athygli á eldri listamönnum,“ segir Dagný. „Safnið á þrjú verk eftir Kristján og þau hafa verið sýnd oft hjá okkur en það er áhugavert að kynnast honum betur. Það er líka gagnlegt að líta á listasöguna frá nýju sjónarhorni, hún er enginn fasti. Einnig er gaman að draga fram lítt þekkta listamenn og vekja athygli á þeim.“

Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum um verk eftir Kristján eru beðnir að hafa samband við Dagnýju, info@listasafn.is, eða ritstjórann Einar Fal, einarfalur@gmail.com.

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir