Mikil uppbygging er við Jarðböðin við Mývatn um þetta leyti en áætlað er að ný og stærri aðstaða verði opnuð næsta sumar, sumarið 2025. Framkvæmdastjórinn, Guðmundur Þór Birgisson, segir að stefnt hafi verið að því að allt yrði klárt í sumar þar sem Jarðböðin eru á sínu 20. starfsári, en sá draumur hafi því miður ekki náð að verða að veruleika. Bæði er verið að stækka lónið og opna nýtt og stærra þjónustuhús.
Lítið fer fyrir framkvæmdunum þegar ofan í lónið sjálft er komið þótt greinanlegt sé að utan að byggingarkrani er hinum megin.
„Við erum að fara úr rúmlega þúsund fermetra byggingu í tæplega þrjú þúsund fermetra. Svo það er nánast þreföldum. Við munum geta tekið við eitthvað aðeins fleiri gestum en aðallega erum við að styrkja og bæta aðstöðuna og uppfæra hana,“ segir Guðmundur.
Við framkvæmdirnar sem nú standa yfir uppgötvaðist hellir undir lóninu. Guðmundur útskýrir að hann hafi fundist fyrir algjöra tilviljun þegar ákveðið var að stækka þjónustuhúsið út um tvo metra og þar af leiðandi grunninn.
Hola opnaðist
„Þá opnaðist þarna hola í jörðina. Jarðvinnuverktakinn sá nú að þetta var ekki bara einhver smá hola. Hann náði að stinga skóflunni sinni þarna ofan í og náði ekki til botns,“ segir Guðmundur.
Í ljós kom að 12 metrar eru niður á botn í hellinum. „Síðan var farið áfram að skoða og farið ofan í hann og í ljós kom þessi magnaði hellir sem leiðir undir allt saman,“ segir Guðmundur. Hellirinn er um 120 metra langur og er op hans við norðurenda baðanna og liggur í norðnorðvestur. Því er hann ekki beint undir böðunum sjálfum.
„Mjög líklega eða vonandi förum við í einhverja vinnu í kringum hann. Að búa til eitthvert aðgengi þar niður,“ segir Guðmundur en slíkar framkvæmdir eru háðar leyfi frá Umhverfisstofnun. Hellirinn er þannig í friðlýsingarferli hjá stofnuninni og vonast Guðmundur til að fá einhverjar heimildir til að leyfa fólki að fara ofan í hann. Í allra versta falli verður bara hægt að horfa ofan í hann.
Beint í djúpu laugina
Guðmundur tók við stöðu framkvæmdastjóra í maí 2016 og má segja að hann hafi stungið sér beint í djúpu laugina því það sumar var eitt annasamasta sumarið frá opnun baðanna árið 2004.
„Já það var stórt ár. Árin 2016 og 2017 voru eiginlega topparnir í fjölda hjá okkur. Þá fórum við mest í 217 þúsund gesti, það er mesti fjöldi sem við höfum náð. Það var mikið að gera,“ segir Guðmundur.
Guðmundur á ekki ættir að rekja til Mývatnssveitar og hafði búið alla tíð í Reykjavík áður en hann tók við stöðunni. „Konan mín er Mývetningur, þannig að það er tengingin okkar. Fjölskyldan hennar er þar. Þegar þetta starf bauðst ákváðum við að flytja í Mývatnssveit og vera nærri fjölskyldunni,“ segir Guðmundur.
Álagið jafnast út
Spurður hvað hann telji hafa breyst á þeim árum sem hann hefur stýrt Jarðböðunum segir Guðmundur að vertíðin hafi lengst. Fyrir árin sem kennd eru við heimsfaraldur kórónuveiru hafi þróunin verið sú að fleiri komu vor, vetur og haust. Þannig hafi álagið aðeins verið jafnara.
„Þannig að þetta hefur verið aðeins jafnara yfir árið. Áður voru meiri toppar, það var mikið að gera á sumrin og síðan fór allt í dvala. Það er aftur að vinna sig til baka eftir faraldurinn,“ segir Guðmundur.
Hann segir að í áranna rás hafi ferðamennirnir ekki breyst, staðsetningin ráði miklu í því. „Þeir sem heimsækja okkur eru að ferðast um landið. Fólk sem er útivistarfólk og er að fara upp á hálendi og er í hringferðinni, kannski ekki allir uppi á hálendi. Við fáum því fjölbreytt úrval af gestum til okkar,“ segir Guðmundur. Hann nefnir þó dæmi um ferðamenn sem hafa komið til Íslands eingöngu til þess að fara í Jarðböðin. „Fæstir eru að koma beint bara til okkar. En það hefur samt gerst. Við vitum af fólki sem hefur keyrt beint frá Keflavík til að prófa Jarðböðin og keyrt beint til baka. En það er nú kannski undantekningin,“ segir Guðmundur.
Fleiri Bretar í vetur
Flestir ferðamenn sem til Íslands koma koma í gegnum Keflavíkurflugvöll. Guðmundur segir mikilvægt starf hafa verið unnið á Norður- og Norðausturlandi í markaðssetningu og það hafi sérstaklega sýnt sig yfir veturinn í komum ferðamanna í lónið. „Núna í vetur hefur EasyJet verið að fljúga beint til Akureyrar og við tókum eftir fjölgun Breta hjá okkur í gestatölum. Það er mjög vel gert að opna fyrir flug beint hingað,“ segir Guðmundur.
Hann segir lykilinn að góðum árangri í því vera samvinnu á svæðinu, jafnvel þótt samkeppni ríki. „Það er hagur allra, ekki bara okkar í Jarðböðunum, að það séu ferðamenn. Það eru fleiri gistinætur, nýttir veitingastaðir, önnur afþreying sem er notuð. Það er hagur allra og við tölum vel um alla aðra þótt það sé samkeppni,“ segir Guðmundur.
Hefur ekki áhyggjur
Spár um komur ferðamanna til landsins í ár eru ekki mjög bjartar og ekki víst hversu margir muni leggja leið sína til landsins í ár. Spurður hvort hann hafi einhverjar áhyggjur af því segist Guðmundur ekki hafa teljandi áhyggjur.
„Við sjáum ekki eins langt fram, og ekki eins mikið af bókunum og við höfum gert áður. Við sjáum að ferðamenn eru að bóka seinna í böðin. Þetta er ekki eitthvað sem þú bókar langt fram í tímann. Þetta er oft meira hvernig er veðrið hvort þeir koma við,“ segir Guðmundur. „Framan af ári hefur verið mjög gott, fínn fjöldi,“ segir Guðmundur.
Íslendingar sækja líka böðin heim, en þeir eru mest áberandi yfir sumarmánuðina. Hefur hlutfall Íslendinga af heildarfjölda gesta haldist nokkuð stöðugt í gegnum árin að sögn Guðmundar, að undanskildum árunum sem ekki var hægt að ferðast með góðu móti út fyrir landsteinana, 2020-2022.
Íslendingar í meirihluta
Jarðböðunum hefur haldist vel á starfsfólki öll sín 20 starfsár og starfsmannaveltan ekki verið mjög mikil. „Það er ótrúlega mikilvægt að við höldum heilsársstarfsfólki og kjarnanum, höldum góðu fólki og að við fáum alltaf sama fólk aftur og aftur. Það er bara léttara að vera ekki alltaf að kenna öllum nýtt,“ segir Guðmundur.
Mjög hátt hlutfall starfsmanna í Jarðböðunum er Íslendingar, spurður hvað kunni að skýra það segir Guðmundur enga sérstaka skýringu eða ástæðu fyrir því. Þróunin hafi einhvern veginn verið þannig að alltaf séu einhverjar tengingar milli starfsfólks þannig að bræður, systur, frændur og frænkur vinni saman á staðnum.