Vettvangur
Björn Bjarnason
bjorn@bjorn.is
Árið 2024, 80 árum frá því að íslenska lýðveldið var stofnað og 75 árum frá því að Ísland gerðist stofnaðili NATO, ríkir hér enn brengluð hugmynd hjá mörgum um stöðu þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. Yfirlýsingin um „ævarandi hlutleysi“ í sambandslagasáttmálanum frá 1918 svífur enn í hugarheimi fólks. Þá er ekki gerður greinarmunur á orðunum „hlutleysi“ og „herleysi“.
Sé sagt að ríki sé hlutlaust og þess vegna án hers ber það vott um þekkingarleysi. Svisslendingar ráða yfir öflugum herafla og búa við skipulag þar sem kalla má alla vopnfæra menn til þjónustu í þágu öryggis ríkisins sé hernaðarlega hætta á ferðum. Til Sviss er jafnan litið sem þess Evrópuríkis sem lagt hefur mesta alúð við hlutleysi sitt.
Á þetta er minnst hér vegna þess sem fram kom á ráðstefnu sem Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytið og Norræna húsið efndu til síðasta vetrardag í samstarfi við Félag stjórnmálafræðinga og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála undir heitinu: Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland?
Spurningin kann að vekja þá hugsun að einhver óvissa sé um hvert Ísland stefni þótt allar ákvarðanir um alþjóðamál í átta áratugi hafi miðað að því að eyða öllum vafa um hvar Ísland stæði og hvert það stefndi á alþjóðavettvangi. Ísland er norrænt lýðræðisríki í NATO með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin og aðild að sameiginlegum innri markaði Evrópu með samningum um Evrópska efnahagssvæðið.
Allir sem þekkja til alþjóðamála og vita hvernig ríki skipa sér í bandalög og hópa sjá af þessari lýsingu að Íslendingar velja sér stað meðal auðugustu lýðræðisþjóða heims. Varla dettur nokkrum í hug að þjóðin vilji yfirgefa þann hóp. Síst af öllu á miklum óvissutímum.
Spurningin í heiti ráðstefnunnar er ekki til að svara einhverju sem brennur á stjórnvöldum annarra ríkja. Spurningunni er beint að okkur Íslendingum sjálfum. Tilefnið er þó ekki vegna þess að hér séu ákafar deilur um hvert skuli stefna. Ekkert á stjórnmálavettvangi gefur til kynna ágreining um það. Samstaðan um utanríkismál er þvert á móti meiri en við eigum að venjast miðað við 80 ára reynslu.
Krafa um aðild að ESB fer svo lágt að hún heyrist varla. Þeir eru meira að segja háværari sem vilja minni tengsl við ESB án þess þó að boða úrsögn úr EES. Þeir sjá einfaldlega ekki skynsamlegri kost.
Ráðstefnan í Norræna húsinu skiptist í málstofur og hér verður aðeins staldrað við þá fyrstu um efnið: Nýjar ógnir og versnandi horfur: Staða Íslands í varnar- og öryggismálum.
Það var rétt mat hjá skipuleggjendum ráðstefnunnar að láta málstofur á henni hefjast á þessum þætti. Sé öryggi þjóða ógnað ýtir hættan vegna þess öllu öðru til hliðar.
Erindi fluttu Erlingur Erlingsson hernaðarsagnfræðingur og Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands, og þau tóku síðan þátt í pallborðsumræðum með Diljá Mist Einarsdóttur, formanni utanríkismálanefndar alþingis og þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Jónasi Allanssyni, skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, og Ragnari Hjálmarssyni, doktor í stjórnarháttum. Pia Hansson forstöðumaður alþjóðamálastofnunar stjórnaði umræðunum.
Það blasti við augljós breyting á umræðum um íslensk öryggismál þegar þau skiptust á skoðunum við pallborðið. Þau gengu öll að því sem vísu að aðildin að NATO og varnarsamningurinn væru fasta undirstaðan og nú væri norræn samvinna ný vídd íslenskra öryggismála. Spurningin hvert Íslendingar stefndu snerist um hvað en ekki hvort við gætum lagt meira af mörkum til eigin öryggis og bandamanna okkar.
Ein rödd um sérstöðu kom utan úr sal, frá forsetaframbjóðandanum Ástþóri Magnússyni. Hann bað um orðið og taldi að senda ætti nefnd manna til Moskvu og semja um Úkraínufrið við Pútín.
Inngrip Ástþórs um að með þessu sýndi hann vilja til friðar en pallborðsfólkið vildi ófrið minnti á brengluðu hugmyndina um að þeir sem vilja öflugar varnir og fælingarmátt til að halda hugsanlegum andstæðingi í skefjum tali fyrir stríði en friðþægingarsinnar tryggi frið. Ástþór snýr einfaldlega öllu á haus eins og best sannast með tilefnislausri innrás Rússa í trássi við alþjóðalög og samninga í varnarlitla Úkraínu.
Innan ramma NATO-aðildarinnar, í norrænu varnarsamstarfi og í tvíhliða varnarsamvinnunni við Bandaríkin höfum við tækifæri til að láta miklu meira að okkur kveða. Við verðum að auka útgjöld til borgaralegra þátta sem styrkja öryggi okkar inn á við og út á við, löggæslu og landhelgisgæslu. Kaupa þyrlur og dróna og efla gæslu vegna strengja neðansjávar.
Nýta ber tækifæri til að senda Íslendinga til starfa fyrir NATO og aðrar öryggismálastofnanir. Þjóðina skortir mannauð á þessu sviði. Hann skapast með starfsreynslu, menntun og rannsóknum.
Það ber að uppfæra þjóðaröryggisstefnuna með vísan til greiningar á hernaðarlegri áhættu, birgjum og búnaði. Miðla verður meiri upplýsingum um hernaðarmálefni. Þau mál ber ekki hátt í huga almennings og kjósenda vegna þess að hvorki stjórnmálamenn né fjölmiðlamenn gera þeim hátt undir höfði.
Sama dag og ráðstefnan var haldin birtist forsíðufrétt hér í blaðinu um að kínverski sendiherrann á Íslandi segði að innan fáeinna ára myndu Kínverjar hefja beint flug hingað til lands. Tilkynningin sýnir að um ákvörðun kommúnistaflokks Kína er að ræða. Hvert stefnir Ísland ef af þessu verður? Stjórnvöld hljóta að ræða málið með öryggishagsmuni í huga.