Fjölskyldan Hannes, Bergur Ari, Halla, Katrín Una og Hildur Anna stödd í Vík í Mýrdal í nóvember 2021.
Fjölskyldan Hannes, Bergur Ari, Halla, Katrín Una og Hildur Anna stödd í Vík í Mýrdal í nóvember 2021.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hannes Þór Halldórsson er fæddur 27. apríl 1984 í Reykjavík og ólst upp í Breiðholti. „Við dvöldum öll sumur í fjölskyldubústaðnum Frændagarði á Eiðum.“ Hannes gekk í Fellaskóla og Verzlunarskóla Íslands og varð stúdent þaðan 2004

Hannes Þór Halldórsson er fæddur 27. apríl 1984 í Reykjavík og ólst upp í Breiðholti. „Við dvöldum öll sumur í fjölskyldubústaðnum Frændagarði á Eiðum.“

Hannes gekk í Fellaskóla og Verzlunarskóla Íslands og varð stúdent þaðan 2004.

Meginstarfsferill Hannesar hefur verið sem knattspyrnumaður og kvikmyndagerðarmaður. Hann lék með yngri flokkum Leiknis og KR og spilaði síðan með meistaraflokki Aftureldingar, Stjörnunni og Fram og gekk síðan til liðs við KR 2010. Hann var aðalmarkvörður félagsins í þrjú ár og á þeim tíma varð hann Íslandsmeistari 2011 og 2013, og bikarmeistari 2012 og 2013 þegar KR vann tvöfalt síðara tímabilið.

Hannes fór utan árið 2013 og spilaði með Sandnes ULF Í Noregi, síðan NEC Nijmegen í Hollandi og FK Bodø/Glimt í Noregi. Hann lék síðan þrjú ár með danska félaginu FC Randers 2016-2018 og eftir HM í Rússlandi hélt Hannes til aserska liðsins Qarabag FK. Eftir sex ár erlendis ákvað Hannes að snúa aftur heim og hóf að leika með Val vorið 2019. Hann lagði síðan hanskana á hilluna í mars 2022. Hannes spilaði með A-landsliði Íslands 2011-2021 og var með liðinu sem komst á EM 2016 og HM 2018. Hann spilaði 77 landsleiki fyrir íslenska landsliðið sem er leikjamet fyrir markvörð.

Hannes upplifði margar stórar stundir með íslenska karlalandsliðinu á ferlinum, enda var hann í sigursælasta landsliði sem Ísland hefur átt. Hann varði til að mynda vítaspyrnu frá Lionel Messi í leik Íslands og Argentínu á HM 2018 í Moskvu. „Stærsta mómentið með landsliðinu fyrir mér er líka sigurmarkið gegn Austurríki á Evrópumótinu þegar við komumst í 16 liða úrslitin og fögnuðurinn eftir að við unnum Englendinga í 16 liða úrslitunum.

Einnig eru eftirminnilegar allar stundirnar þegar við unnum margar stórþjóðirnar á pökkuðum Laugardalsvelli þegar við töpuðum ekki mótsleik hérna heima í sex ár. Maður hlakkaði mikið til þessara leikja og það gaf manni alveg fáránlega mikið þegar þeir voru búnir.“

Hannes var valinn leikmaður ársins 2011 í íslensku úrvalsdeildinni og maður leiksins af FIFA í fyrsta leik Íslands á heimsmeistaramóti.

Meðfram fótboltanum sinnti Hannes kvikmyndagerð og hefur síðan snúið sér alfarið að henni. Hann leikstýrði, skrifaði og klippti kvikmyndina Leynilöggu sem var tilnefnd til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna 2022 í flokknum besta gamanmyndin auk þess að vera tilnefnd til Gyllta hlébarðans á hinni virtu Locarno-kvikmyndahátíð. Hún var valin besta frumraun leikstjóra á kvikmyndahátíðinni í Lubeck. Hannes hefur þrisvar hlotið auglýsingaverðlaunin Lúðurinn fyrir auglýsingu ársins: 2013, 2018 og 2023. Hann var leikstjóri og höfundur sjónvarpsþáttanna um Iceguys sem settu nýtt áhorfsmet hjá Sjónvarpi Símans.

„Ég gerði mína fyrstu stuttmynd 12 ára og var því snemma kominn með þessa bakteríu. Ég hellti svo mér í þetta í Versló sem var minn kvikmyndaskóli má eiginlega segja. Ég var á kafi í kvikmyndagerð þar, formaður vídeónefndar og gerði alla þessa þætti sem eru gerðir í skólanum. Ég fór svo að vinna hjá Sagafilm eftir Versló.“

Hannes stofnaði í fyrra framleiðslufyrirtækið Atlavík ásamt félögum sínum, Allan Sigurðssyni og Hannesi Þór Arasyni. „Atlavík er á fljúgandi siglingu, Iceguys var fyrsta verkefnið okkar, við erum að gera aðra þáttaröð af þeim núna í sumar og marga fleiri þætti fyrir allar sjónvarpsstöðvarnar.“

Hannes er virkur meðlimur í padelklúbbnum Racket Elite og fyrrverandi (en eini) þjálfari knattspyrnufélagsins Brostinna drauma.

„Það er erfitt að koma öðru að í krefjandi vinnu og með þrjú börn,“ segir Hannes um áhugamálin. „Ég reyni samt alltaf að finna tíma fyrir hreyfingu, er í bumbubolta tvisvar í viku, en þar er ég að spila sem útileikmaður. Ég spila padel-tennis og fer í líkamsrækt, reyni að koma því fyrir nokkrum sinnum í viku. Svo hef ég rosa gaman af skíðum og krakkarnir mínir eru góðir á skíðum þannig að við eldri börnin reynum að fara reglulega saman og svo förum við fjölskyldan í skíðaferðir.“

Fjölskylda

Eiginkona Hannesar er Halla Jónsdóttir, f. 5.3. 1986, háskólanemi. Þau eru búsett í Fossvogi í Reykjavík. Foreldrar Höllu eru hjónin Gerður Bjarnadóttir, f. 3.5. 1958, menntaskólakennari, og Jón Steindór Valdimarsson, f. 27.6. 1958, lögfræðingur. Þau eru búsett í Grafarvogi.

Börn Hannesar og Höllu eru Katrín Una, f. 13.3. 2013, Bergur Ari, f. 31.1. 2016, og Hildur Anna, f. 2.5. 2020.

Systur Hannesar eru Harpa Halldórsdóttir, f. 7.4. 1987, landslagsarkitekt í Kaupmannahöfn, og Bryndís Elín Halldórsdóttir Wöhler, f. 3.2. 1994, dýralæknir í Kaupmannahöfn.

Foreldrar Hannesar eru hjónin Halldór Þórarinsson, f. 25.11. 1962, matvælaverkfræðingur, og Sigríður Wöhler, f. 19.1. 1963, ritstjóri. Þau eru búsett í Mosfellsbæ.