Hátt hlutfall leiguíbúða sem ekki eru með skráða reykskynjara í leigusamningum bendir til að skráningu á brunavörnum heimila sé ábótavant. Í einum af hverjum sex nýjum leigusamningum sem gerðir eru um útleigu íbúða eru reykskynjarar ekki skráðir, samkvæmt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS).
„Skráningu um eldvarnir leiguíbúða er ábótavant samkvæmt upplýsingum sem HMS hefur unnið úr Leiguskrá. Tæp 17 prósent allra leigusamninga í Leiguskrá sem tóku gildi á fyrstu þremur mánuðum ársins eru ekki með reykskynjara skráðan í íbúðinni,“ segir í frétt á vefsíðu HMS.
Bent er á að stafræn leiguskrá HMS hafi að geyma upplýsingar um brunavarnir og þar geti leigusalar skráð fjölda reykskynjara í leiguíbúðum sínum. Brunavarnir eru á ábyrgð leigusala, sem eiga að sjá til þess að reykskynjarar og slökkvitæki séu í lagi í upphafi leigutímabils. Nú þegar eru í 80% nýrra leigusamninga reykskynjara skráðir í íbúðinni.
Tekið er fram að á síðustu mánuðum hafi hlutfall skráðra reykskynjara í samningum ekki hækkað en hlutfall samninga sem eru ekki með skráðan reykskynjara er þó mun hærra en kemur fram í árlegri skoðanakönnun HMS um brunavarnir á heimilum en samkvæmt henni eru engir reykskynjarar til staðar í 4,9% íbúða á leigumarkaði.
„Hátt hlutfall leiguíbúða án skráðs reykskynjara gefur því vísbendingu um handvömm í skráningu á brunavörnum heimila,“ segir í umfjöllun HMS. omfr@mbl.is