Baksvið
Sonja Sif Þórólfsdóttir
sonja@mbl.is
Brotum gegn öllum opinberum starfsmönnum lögreglunnar og héraðssaksóknara hefur fjölgað umtalsvert á liðnum áratug. Árið 2013 voru skráð brot 146 í heildina en árið 256. Mest fjölgaði brotum milli ára frá 2022 til 2023, þegar brotum fjölgaði alls um 45. Í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra ríflega sexfaldaðist fjöldi brota.
Þetta kemur fram í svari Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra sem svaraði fyrirspurn Njáls Trausta Friðbertssonar um hótanir og ofbeldi gagnvart starfsmönnum lögreglu, ákæruvalds og dómsvalds.
Fyrirspurn Njáls Trausta er þríþætt:
„1. Hversu mörg atvik hótana og ofbeldis gagnvart starfsmönnum lögreglunnar hafa átt sér stað á ári hverju frá 2013? Óskað er sundurliðunar eftir lögregluumdæmum.
2. Hversu mörg atvik hótana og ofbeldis gagnvart starfsmönnum ákæruvaldsins hafa átt sér stað á ári hverju frá 2013? Óskað er sundurliðunar eftir embættum.
3. Hversu mörg atvik hótana og ofbeldis gagnvart handhöfum dómsvaldsins og starfsmönnum dómstóla hafa átt sér stað á ári hverju frá 2013? Óskað er sundurliðunar eftir dómstólum.“
Í svari dómsmálaráðherra kemur fram að ekki sé unnt að taka upplýsingar úr kerfinu með einföldum hætti eftir einstökum starfsheitum opinberra starfsmanna. Slíka skráningu þyrfti að handvinna með því að skoða hvert einstakt mál í kerfinu. Af þeim sökum sé ekki unnt að svara fyrirspurninni með þeim hætti sem óskað var eftir en þó sé unnt að aðgreina upplýsingar eftir því hvort um sé að ræða brot gegn lögreglumanni eða öðrum opinberum starfsmanni.
Tölurnar séu því framsettar með þeim hætti að einungis er aðgreint eftir því hvort um er að ræða lögreglumenn eða aðra opinbera starfsmenn.
Fækkað síðan 2018 og 2019
Stór hluti brotanna er skráður gegn opinberum starfsmönnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og voru flest brot skráð árin 2018 og 2019, eða 148 brot. Síðan þá hefur brotum lítillega fækkað og voru árið 2023 alls 120.
Hlutfallslega fjölgaði brotum mest í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra. Árið 2013 voru skráð brot alls 8 en í fyrra voru þau 50. Hefur fjöldi brota því ríflega sexfaldast. Á Suðurlandi var fjöldi brota rúmlega tvöfaldur árið 2023 miðað við árið 2013. Skráð brot voru 10 árið 2013 en 21 í fyrra. Á Suðurnesjum rúmlega þrefaldaðist fjöldi brota og fór úr fjórum í 15 árið 2023.
Fækkar í þremur umdæmum
Á Austurlandi, Vestfjörðum og í Vestmannaeyjum fækkar skráðum brotum gegn opinberum starfsmönnum lögregluembættanna. Þannig voru skráð brot alls tíu árið 2013 á Austurlandi en aðeins fjögur brot voru skráð þar í fyrra.
Á Vestfjörðum voru sex brot skráð árið 2013 og voru þau fjögur árið 2023. Í Vestmannaeyjum voru skráð tvö brot 2013 og var eitt brot skráð á síðasta ári. Í umdæmi lögreglustjórans í Vestmannaeyjum voru flest brot skráð árið 2018 þegar alls sex brot voru skráð. Á Vesturlandi stendur fjöldi brota í stað þó fjöldi þeirra hafi verið breytilegur á þeim áratug er gögnin ná til.
32 brot gegn héraðssaksóknara
Gögnin ná einnig til brota gegn héraðssaksóknara. Ekki voru skráð brot árin 2013 til 2015. Árið 2016 voru þrjú brot skráð. Hefur þeim fjölgað mikið frá því ári og voru skráð brot árið 2023 alls 32 og hafa þau aldrei verið fleiri.