Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Karlakór Kópavogs flytur meðal annars lagið „Síðasta sigling Haka konungs“ eftir danska tónskáldið Peter Arnold Heise á vortónleikunum í Digraneskirkju 30. apríl og 2. maí. „Þetta verður krúnudjásnið á tónleikunum og að því er ég best veit hefur það ekki heyrst á Íslandi,“ segir Sigurður Helgi stjórnandi kórsins. „Mér vitanlega flutti Karlakór Íslendinga undir stjórn Ragnars H. Ragnar tónskálds það síðast í Winnipeg í Kanada 1940.“
Umræddur flutningur var 24. apríl. „Lang-yfirgripsmesta og erfiðasta hlutverk söngflokksins,“ skrifaði Gísli Jónsson í vikublaðinu Heimskringlu í Winnipeg 1. maí 1940, en Sigurður Helgi segir að Hjálmar Gíslason hafi þýtt verkið, sem tekur um 11 mínútur í flutningi, fyrir Karlakór Íslendinga.
Um 20 manns stofnuðu Karlakór Kópavogs 2002 og hann hefur eflst jafnt og þétt. „Við erum orðnir ansi öflugir með um 80 manns á skrá,“ segir Vilmar Pétursson formaður kórsins.
Natalia Chow, tónlistarkona frá Hong Kong, var helsti hvatamaður að stofnun tveggja kóra í Kópavogi, kvennakórs og karlakórs, og stjórnaði þeim báðum til að byrja með, karlakórnum fyrstu þrjú árin. Garðar Cortes tók við honum fyrir um 12 árum. „Hann gerði kröfu um fjölgun og farið var í smölun,“ segir Vilmar, sem gekk þá í kórinn. Samfara ráðningu Garðars hafi komist á samstarf við Söngskólann í Reykjavík, sem hann stofnaði 1973. „Ólöf Kolbrún Harðardóttir, óperusöngkona og skólastjóri Söngskólans, raddþjálfar kórinn og hefur gert það frá tíð Garðars,“ segir Sigurður Helgi og bætir við að skipting radda sé frekar jöfn. „Hún á stóran þátt í uppbyggingu kórsins og þegar ég kom að borðinu var massífur og flottur hljómur í honum.“
Frumflutningur
Garðar lést 14. maí í fyrra. Tæplega ári áður tók Sigurður Helgi við kórstjórninni, en hann hefur kennt við Söngskólann í Reykjavík síðan 2018. „Garðar hætti vegna heilsubrests og bað mig um að taka við kórnum,“ segir Sigurður Helgi, sem er margreyndur píanóleikari og stjórnandi. „Hann var útnefndur heiðursstjórnandi og var mér innan handar veturinn 2022 til 2023. „Síðasta sigling Haka konungs“ er tileinkuð honum.“
Á efnisskrá tónleikanna verða sígildar karlakórsperlur og dægurlög. Lagið „Það vex eitt blóm fyrir vestan“, sem Þorvaldur Gylfason samdi fyrir rúmlega hálfri öld, verður frumflutt. Píanóleikarinn Hrönn Þráinsdóttir er meðleikari og Viðar Gunnarsson bassasöngvari og Gissur Páll Gissurarson tenór koma fram.
Frá upphafi hafa vortónleikar verið fastur liður hjá kórnum. Undanfarin fjögur ár hafa verið haldnir jólatónleikar í samstarfi við Skólakór Kársnesskóla. Auk þess hefur kórinn skipst á heimsóknum við aðra kóra og haldið tónleika með þeim. Síðast var um að ræða fjögurra kóra mót á Akureyri fyrr í vetur. Enn fremur hefur kórinn komið fram við ýmis tækifæri, bæði heima og erlendis, næst í Þýskalandi í maí.