Sigurþór Heimisson
Sigurþór Heimisson
Ég treysti Baldri til að gegna þessu embætti af alúð og heilindum.

Sigurþór Heimisson

Þegar maður er kominn á minn aldur óskar maður þess stundum að maður væri yngri. Ég man samt þá tíð þegar ég óskaði þess að ég væri eldri. Samt var sú ósk aldrei sterkari en um mitt ár 1980. Þá var ég tæplega 18 ára og tveimur og hálfu ári of ungur til að kjósa í forsetakosningum. Ég var einlægur stuðningsmaður Vigdísar Finnbogadóttur. Mamma var sjálfboðaliði fyrir framboð Vigdísar svo ég fylgdist spenntur með kosningunum. Þessar kosningar eru síðan hluti af sögunni ekki bara á Íslandi heldur um allan heim. Seinna var ég svo þakklátur Sigrúnu Þorsteinsdóttur fyrir að fá tækifæri til að kjósa Vigdísi sem forseta þótt mitt atkvæði skipti þá ekki máli varðandi niðurstöðu þeirra kosninga.

Nú hef ég sjálfur gengið til liðs við forsetaframboð sem sjálfboðaliði. Ég trúi því einlæglega að hvert atkvæði skipti máli og hvet því alla til að mæta á kjörstað og greiða sínum frambjóðanda sitt atkvæði.

Það hefur nokkuð borið á þeirri umræðu að helst ætti að hafa tvær umferðir í forsetakosningum til að forsetinn hafi örugglega þjóðina á bak við sig. Ég er viss um að ef sú hefði verið raunin 1980 hefði Vigdís ekki orðið forseti. Þá hefði „feðraveldið“ snúist á sveif með Guðlaugi og hann hefði sigrað. Áður en ár var liðið hafði þjóðin sameinast í aðdáun sinni á frú Vigdísi. Þar sem forseti hefur takmörkuð völd þarf ekki að vera meirihluti á bak við kosningu forseta og meðan ótrúlegur hluti atkvæða í alþingiskosningum fellur dauður er ekki ástæða til að valdalitlu embætti forseta séu settar þessar skorður.

Nú hef ég og allir landsmenn tækifæri til að kjósa aftur til forseta manneskju sem brýtur blað í sögunni. Þá á ég ekki við þau tímamót að kjósa stjórnmálamann sem stígur út af Alþingi og úr ráðherrastól, né trúð eða leikara sem forseta. Ég er að tala um að kjósa samkynhneigðan forseta sem yrðu tímamót ekki síður en þegar Vigdís var kosin.

Þetta er samt ekki aðalástæðan til þess að Baldur Þórhallsson fær mitt atkvæði heldur treysti ég Baldri til að gegna þessu embætti af alúð og heilindum. Ég trúi því að rétt eins og Vigdís sameinaði þjóðina muni Baldur (og Felix) frekar ná því en aðrir frambjóðendur.

Höfundur er leikari, leiðsögumaður og tölvukarl.

Höf.: Sigurþór Heimisson