— Ljósmynd/Baldur Kristjánsson
Af hverju hundrað kirkjur á einu ári? Hugmyndin er gömul. Ég er búinn að rúnta um landið í tuttugu ár og yfirleitt fer ég hring árlega. Kirkjurnar sem hafa orðið á vegi mínum finnst mér svo fallegar og dularfullar

Af hverju hundrað kirkjur á einu ári?

Hugmyndin er gömul. Ég er búinn að rúnta um landið í tuttugu ár og yfirleitt fer ég hring árlega. Kirkjurnar sem hafa orðið á vegi mínum finnst mér svo fallegar og dularfullar. Ég hef verið heillaður lengi af kirkjum. Í fyrra ákvað ég að fara í tónleikaferðalag hringinn í kringum landið eftir að ég gaf út nýju plötuna, É Dúdda Mía, og fór þá að hugsa hvar væru bestu tónleikahallirnar. Þá kom þessi gamla hugmynd í kollinn. Ég þurfti svo að ramma hugmyndina inn og þá kom upp í hugann talan hundrað. Það er gott að vera búinn að ákveða töluna og nú get ég farið að vinna í því. Þetta er eiginlega of mikið, en samt gerlegt!

Ertu lagður af stað í
maraþonið?

Já, ég er búinn með þrjár helgar núna. Mig langar að klára fyrir áramót, en veit ekki hvort ég næ því. Ég hef verið að spila í kirkjum hér í kringum Ísafjörð og um næstu helgi fer ég á Reykhóla og Búðardal. Svo mun ég gera út frá Reykjavík því ég er með tónleika þar í Háskólabíói í maí og fer þaðan á Snæfellsnes og Vestmannaeyjar. Í sumar verð ég á ferðinni á Suðurlandi, Austurlandi og fyrir norðan og í haust verð ég aftur í bænum.

Fer einhver með þér í ferðina?

Kona mín Rúna og börnin fara eitthvað með hér fyrir vestan, að hjálpa mér að bera, en svo verð ég að mestu einn á ferð. Ég er búinn að útbúa lítinn sendibíl sem ég get gist í. Ég get sofið í lítilli koju ofan á magnaranum.

Hvað er svona gott við að spila í kirkjum?

Það myndast svo yndisleg stemning í kirkjum. Það fallega verður fallegra og það grófa grófara. Það er einhver værð yfir öllu.

Ertu einn á sviðinu, eða undir altaristöflunni?

Já, ég er eins og eins manns band. Ég er með gítar, harmónikku og spila á trommur með löppunum. Svo er ég með fjölvíddarhljóðfæri sem ég kalla orgel framtíðar.

Hvernig gengur að fylla kirkjurnar?

Vonum framar!

Tónlistarmaðurinn Mugison, Örn Elías Guðmundsson, er lagður af stað í tónleikamaraþon. Hyggst hann spila í 100 kirkjum í 100 póstnúmerum á innan við ári. Miðar fást á tix.is.