Tilvistarkreppa Einskonar ást er fimmta kvikmynd Sigurðar Antons.
Tilvistarkreppa Einskonar ást er fimmta kvikmynd Sigurðar Antons.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sambíóin og Smárabíó Einskonar ást ★★½·· Leikstjórn: Sigurður Anton Friðþjófsson. Handrit: Sigurður Anton Friðþjófsson. Aðalleikarar: Kristrún Kolbrúnardóttir, Magdalena Tworek, Edda Lovísa og Laurasif Nora. 2024. Ísland. 92 mín.

Kvikmyndir

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Einskonar ást fjallar um unga konu, Emily (Kristrún Kolbrúnardóttir), sem er í ákveðinni tilvistarkreppu. Hún er að reyna að átta sig á því hvað hún vill fá út úr ástarsamböndum og er farin að efast um að það hafi verið rétt ákvörðun að hætta í skóla til að búa til klámefni fyrir OnlyFans-
síðu. Hún glímir við fjárhagslega örðugleika og vinnur því á 12 tónum samhliða því að birta efni á OnlyFans en það er varla nóg fyrir leigunni sem gerir það að verkum að hún neyðist til að endurskoða sína lifnaðarhætti.

Einskonar ást er fimmta kvikmynd Sigurðar Antons en hann hefur leikstýrt, skrifað handritið og klippt allar kvikmyndir sínar. Söguþráðurinn er ekki ósvipaður fyrri myndum en fyrsta myndin hans Webcam (2015) fjallar um unga konu sem býður upp á kynlífsþjónustu í gegnum vefmyndavél og Snjór og Salóme (2017) segir síðan uppvaxtarsögur ungrar konu. Það er ekki það eina sem þessar myndir eiga sameiginlegt heldur virðist Sigurður Anton endurtaka sömu mistök og hann gerði í fyrri myndum sínum. Í gagnrýni Snævars Freys um Snjór og Salóme sem birt var á vef kvikmyndafræði HÍ, Engar stjörnur, skrifar hann að „leitast [er] við að gefa of mörgum sögupersónum vægi og að framvindan litist nokkuð af atburðum sem skorti tilgang í samhengi heildarmyndarinnar.“

Í gagnrýni Brynju Hjálmsdóttur um Webcam, sem var birt í Morgunblaðinu, bendir hún síðan á að flæðið milli sena sé skrykkjótt á köflum. Gagnrýnin hjá bæði Snævari Frey og Brynju eiga einnig við um nýjustu mynd hans, Einskonar ást. Alltof margar persónur koma fyrir í sögunni sem gerir það að verkum að Sigurður Anton missir tökin á söguframvindunni og persónuþróuninni. Áhorfendur kynnast til dæmis snemma kærustu Emily, Katinku (Magdalena Tworek), en þegar líður á myndina eru áhorfendur einfaldlega búnir að gleyma henni af því að þá hafa svo margar nýjar aukapersónur verið kynntar til sögunnar. Erfitt er að átta sig á því hvaða tilgangi allar þessar aukapersónur þjóna en í myndinni leikur til dæmis Þórhallur Þórhallsson nágranna Emily sem er alltaf að bora á óheppilegum tímum, sem gerir vinnuna hennar erfiðari. Í byrjun sjáum við aldrei nágrannann heldur heyrum aðeins í honum sem er sterkt enda er eini tilgangur persónunnar að vera hindrun fyrir aðalpersónuna. Emily getur ekki myndað efni fyrir OnlyFans út af látunum og það veldur henni áhyggjum af því að það er hennar helsta tekjulind. Áhorfendur fá hins vegar seinna að kynnast nágrannanum og komast að því að hann er einn að vinna í húsinu en að hann eigi konu og börn. Þær upplýsingar eru algjörlega óþarfar fyrir söguna og eru í raun bara ruglandi.

Eins og áður hefur komið fram er undirstaða handrits myndarinnar fremur veik sem gerir það verkum að það er erfitt að átta sig á því um hvað myndin fjallar. Það eru þó vissulega til margar myndir sem fjalla í raun ekki um neitt en allar bjóða upp á eitthvað í staðinn, oft er þá lögð áhersla á hið sjónræna en rammarnir í Einskonar ást eru fremur ófagrir. Það sem myndin býður hins vegar upp á er að hún gefur góða innsýn í heim þeirra sem eru að selja efni á OnlyFans. Það er líka ánægjulegt að sjá að Sigurður Anton ákveður að starfsgrein hennar sé ekkert feimnismál hjá Emily og móðir hennar er því fullkomlega meðvituð um hvað felst í starfi hennar og hjálpar henni með fjármálin. Það er ánægjulegt að sjá að móðirin er laus við alla fordóma. Leikurinn er þó ekki nógu sannfærandi sem gerir það að verkum að áhorfendur eiga erfitt með að trúa því að þær séu mæðgur. Í sumum atriðum í myndinni er nánast eins og leikararnir séu bara að lesa upp úr handriti og verða atriðin þar af leiðandi uppstillt og ósannfærandi. Leikurinn hjá aðalleikonunni, Kristrúnu, var misgóður í myndinni og það hefur eflaust ekki hjálpað hversu óskýrt það er í handritinu hvert markmið Emily er og hvað er í húfi fyrir hana.

Það fór að miklu leyti eftir því hver var mótleikarinn í atriðinu hvort leikur Kristrúnar var sannfærandi eða ekki. Kristrún blómstraði t.d. í atriðunum sem áttu sér stað á 12 tónum þar sem hún lék á móti Laurasif Noru og þrátt fyrir að það sé ekki alveg skýrt hver tilgangur atriðanna sé þá voru þau skemmtileg. En heilt yfir stóðu flestir aukaleikararnir sig mjög vel en þar má nefna Magdalenu Tworek sem leikur Katinku og Eddu Lovísu sem leikur Kríu. Fyrsta atriðið með Kríu og Emily fyrir utan Prikið er frekar uppstillt en þegar líður á myndina verður Edda Lovísa öruggari í sínu hlutverki og nær að bræða hjörtu áhorfenda. Leikkonan Andrea Snædal stendur hins vegar án efa upp úr í myndinni og er í raun það eina fyndna við myndina sem einkennist annars af mislukkuðum bröndurum.

Alla fyrrnefnda vankanta væri hægt að afsaka ef um væri að ræða ungt fólk að feta sín fyrstu skref í kvikmyndageiranum en þá afsökun er ekki lengur hægt að nota þegar um er að ræða fimmtu kvikmynd leikstjórans. Undirrituð gerir sér auðvitað grein fyrir því að um er að ræða mjög ódýra mynd sem getur verið mjög takmarkandi. Kvikmyndageirinn hefur þó margoft sannað að það er hægt að gera góða mynd fyrir lítinn pening ef handritið er gott en dæmi um slíka mynd er Á annan veg (2011) eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson. Ef handritið og öll vinnan áður en haldið er í tökur er unnin ítarlega og framleiðslukostnaður hafður í huga frá byrjun er hægt að koma í veg fyrir óþarfa kostnað. Ef Sigurður Anton hefði fækkað persónunum í Einskonar ást og í staðinn þróað betur aðalpersónuna Emily hefði hann líklega ekki einungis sparað heldur hefði það líka styrkt myndina.

Þrátt fyrir vankantana er Einskonar ást án efa betri en síðasta myndin hans Mentor (2024) sem fjallar um misheppnaðan uppistandara, Húgó (Þórhallur Þórhallsson), sem fær það hlutverk að kenna 17 ára stelpu, Betu (Sonja Rut Valdin), sem er að taka sín fyrstu skref sem uppistandari. Handritið í Mentor er betur strúktúrerað en Einskonar ást en Mentor er mun skaðlegri. Í Mentor fylgjumst við með óþægilegum manni reyna að komast í buxurnar hjá stelpu undir lögaldri, en þrátt fyrir það er hann aldrei stimplaður sem einhver perri heldur bara aumingi sem áhorfendur eiga að finna til með. Í Mentor er líka mjög óþægilegt atriði þar sem einhver vökvi hellist yfir dauðadrukkna stelpu í sófanum og af óskiljanlegum ástæðum telur aðalpersónan sig knúna til að klæða hana úr blautu fötunum. Hið karllæga sjónarhorn er svo áþreifanlegt í myndinni að það verður óþægilegt. Þrátt fyrir að Mentor fjalli um uppistand nær Sigurður Anton að troða klámmenningunni í myndina. En hann virðist mjög upptekin af klámmenningu enda hefur hann sagt tvær sögur um ungar konur sem framleiða einhvers konar klámefni. Þetta er efni sem er vandmeðfarið og mikilvægt að gæta þess að öllum líði vel þegar verið er að taka upp viðkvæm atriði með nekt. Það hefur þess vegna vakið spurningar hjá undirritaðri eftir að hafa séð að flestar lykilstöðurnar á bak við myndirnar hans hafa verið skipaðar af körlum og oftar en ekki eru aðalhlutverkin, sem oftast nær eru konur, leikin af tiltölulega óreyndum leikurum. Einnig er hvergi hægt að sjá að eini nándarþjálfi landsins (e. intimacy coordination), Kristín Lea Sigríðardóttir, hafi verið á setti til að gæta þess að ekki sé farið yfir mörk leikaranna. Að því sögðu virðist Sigurður Anton hins vegar hafa orðið fyrir einhverri vitundarvakningu því að það er greinilegt að hann er að vanda sig í umræðunni um OnlyFans og það er yfirleitt ekki sýnt meira en þarf að sýna. Auðvitað eru einhver atriði sem er ætlað að fullnægja blætisþörfum karlkynsáhorfenda eins og langa skotið af tánum hjá kærustuparinu, Emily og Katinku.

Yfirleitt er líkaminn þó ekki brotinn upp með tökuvélinni heldur staðnæmist vélin oftar en ekki á andliti stúlknanna í kynlífsatriðunum sem gefur áhorfendum betri innsýn í það hvað þær eru að skynja hverju sinni en það er svolítill lykilpunktur í myndinni, þ.e. að reyna að skilja hvað þeim finnst um klámið sem þær eru að gera og viðbrögðin. Oftar en ekki snúast samtölin um það sérstaklega í atriðunum milli Kríu og Emily. Í viðtali á kvikmyndir.is segir Edda Lovísa frá því að hún hafi sjálf verið á OnlyFans og kom því að þessari kvikmynd með reynslu og punkta fyrir handritið. Undirrituð vill meina að sú þekking skíni í gegn og telur það mjög jákvætt að Edda Lovísa hafi getað hjálpað til við að koma efninu til skila enda erfitt að ímynda sér að Sigurður Anton hafi mikinn skilning á því að vera kona í þessum bransa.

Einskonar ást er ekki án galla en grunnurinn, þ.e. handritið, er það sem dregur helst úr henni. Sigurður Anton á hins vegar lof skilið fyrir að fjalla um efni sem aldrei hefur verið fjallað um áður í íslenskri kvikmyndagerð eins og t.d. OnlyFans í þessu tilviki. Hann er óhræddur við að gera mistök og það er bæði hans helsti galli en líka kostur af því að hann þorir í það minnsta að láta hugmyndir sínar verða að veruleika en hægt er að ímynda sér að margar góðar hugmyndir liggi ennþá djúpt í einhverjum skúffum.