Baksvið
Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Segja má að hálfgert fjölmiðlafár hafi orðið á gamla sjúkrahúsinu á Ísafirði í febrúar árið 1968 þegar Englendingurinn Harry Eddom lá þar í sjúkrarúmi og safnaði kröftum eftir miklar hrakfarir og lygilega lífsbjörg.
Íslendingar þekkja ágætlega óveðrið sem skall nokkuð skyndilega á í byrjun febrúar 1968 og kostaði mörg mannslíf í Ísafjarðardjúpi. Fremur óvenjulegar aðstæður sköpuðust sem varð til þess að ísing varð hraðari en reyndir sjómenn höfðu áður kynnst og lagðist á skipin. Ísingin var svo mikil að hún sökkti skipum þar sem menn höfðu ekki undan að brjóta ísinn. Ekki varð við neitt ráðið.
Sex Bolvíkingar fórust þegar Heiðrún II sökk og einn lést um borð í togaranum Notts County frá Grimsby. Þar unnu starfsmenn Landhelgisgæslunnar þrekvirki við björgun þeirra sem voru um borð í Notts County við gífurlegar erfiðar aðstæður í Ísafjarðardjúpi. Frásagnir af björguninni hafa birst í Morgunblaðinu í gegnum tíðina þegar atburðirnir hafa verið rifjaðir upp. Þeir sem voru um borð í togaranum Ross Cleveland frá Hull voru ekki eins lánsamir og voru allir taldir af eftir að skipið sökk á svipuðum slóðum undir Grænuhlíð.
Stóð undir húsvegg
Voru allir taldir af já en hið lygilega gerðist að Harry Eddom, stýrimaður frá Hull, fannst á lífi undir húsvegg í Seyðisfirði í Djúpinu. Eddom tókst ásamt tveimur öðrum að komast í björgunarbát þegar Ross Cleveland fór á hliðina. Sjór komst í björgunarbátinn og þegar hann rak upp í fjöru eftir mikið volk voru félagar Eddoms látnir. Drengur sem bjó á nærliggjandi bæ tók eftir Eddom, sem var skiljanlega aðframkominn. Eddom hafði þá staðið undir húsvegg í firðinum heila nótt en komst ekki inn þar sem um var að ræða sumarbústað doktors Jóns Gíslasonar.
Í frásögnum í Morgunblaðinu á sínum tíma kemur fram að undrum þótti sæta hversu vel Harry Eddom var á sig kominn þegar á sjúkrahúsið á Ísafirði var komið. Miðað við að hafa verið í marga klukkutíma í blautum björgunarbáti í óveðri í febrúar.
„Ég hef verið sjómaður í 30 ár og þekki sjóinn umhverfis Ísland. Það er kraftaverk að hann er á lífi,“ hefur Morgunblaðið eftir föður Harrys 8. febrúar 1968.
Háttaður ofan í rúm
Morgunblaðið sagði frá tíðindunum á forsíðu blaðsins daginn áður, eða 7. febrúar. Högni Torfason ræddi við Harry Eddom á Ísafirði og skrásetti lýsingarnar.
„Okkur rak og rak. Aldan gekk yfir okkur og við reyndum að ausa. Ég vissi ekki hvert okkur var að reka. Gerði mér þó grein fyrir því, að okkur rak að landi, en ekki út á haf. Harry dó eftir nokkra tíma en ég veit ekki hvenær Wally dó. Þú spyrð mig um klukkuna. Ég hef ekki hugmynd um tíma í þessu sambandi. Ég leit aldrei á klukku. Ég fann að bátinn hafði rekið á land. Ég vissi það mikið um staðhætti á Íslandi að ég vissi að við vorum komnir inn í einhvern eyðifjörð,“ sagði Eddom meðal annars við Högna á sjúkrahúsinu á Ísafirði.
Drengurinn heyrði Eddom hrópa til hans. „Hann tekur mig sér við hönd og hjálpar mér í áttina að bænum. Þegar við áttum stutt eftir þangað kemur bóndinn á móti okkur og þá vissi ég að mér hafði verið bjargað. Fólkið á bænum tók yndislega vel á móti mér, háttaði mig í rúm og gaf mér heitt að drekka. Og í morgun kom bátur að sækja mig og mína látnu félaga. Mín síðustu orð verða þessi: Ég er af hjarta þakklátur öllu því góða fólki sem hefur reynzt mér betra en bræður.“
Drengurinn sem um ræðir heitir Jón Guðmann Guðmundsson og var eitt 12 barna Karítasar Guðbjargar Guðleifsdóttur og Guðmundar Ásgeirssonar á Kleifum í Seyðisfirði vestra. Guðmann rifjaði upp atburðina í Morgunblaðinu árið 1995:
„Ég var þá 14 ára gamall, að fara til þess að hleypa út kindum eins og við gerðum gjarnan þegar var gott veður. Ég rakst á hann þar sem hann hímdi við sumarbústað í botni Seyðisfjarðar. Harry var orðinn mjög kaldur en sennilega hefur hann bjargast vegna þess að þennan dag sem hann rak að landi hlýnaði talsvert í veðri,“ sagði Guðmann en í samtali við Morgunblaðið 10. febrúar 1968 sagði Guðmann sér hafa orðið það strax ljóst að þarna hlyti að vera kominn einn af skipverjum togarans sem fórst, þótt hann skildi ekki hvað maðurinn sagði.
Bretar streyma til landsins
Lognið eftir storminn reyndist um leið lognið á undan storminum. Fjölmiðlastorminum. Fjör færðist í leikinn þegar breskir fjölmiðlamenn komu í stórum stíl til Íslands og héldu vestur á firði. Saga Harrys Eddoms vakti mikla forvitni en einnig gátu breskir fjölmiðlamenn í sömu ferð reynt að ná tali af mönnum sem bjargað hafði verið af Notts County. Morgunblaðið greindi til að mynda frá fjölda flugferða frá Reykjavík til Ísafjarðar í vikunni eftir sjóslysin. Sex smærri vélar flugu vestur á miðvikudeginum og fimm til viðbótar á fimmtudeginum og bættist það ofan á áætlunarflug.
Málið tók á sig furðulega mynd þegar af því fréttist að nánasta fjölskylda Harrys Eddoms væri á leiðinni til landsins. Eiginkonan, foreldrar og mágur. Íslandsferð þeirra var í boði götublaðsins The Sun gegn því að blaðið fengi að fjalla um endurfundina á Ísafirði. Úr varð mikill hamagangur þar sem starfsmenn The Sun í ferðinni reyndu hvað þeir gátu að halda öðrum fjölmiðlum, sérstaklega enskum keppinautum, frá eiginkonunni.
Fjölmiðlasirkus
„Fréttamennirnir frá The Sun röðuðu sér í kringum frú Eddom, og reyndu eins og best þeir gátu að hindra aðra starfsbræður sína í að taka myndir af henni, og ná tali af henni. Hins vegar var þeim sjálfum tíðrætt við hana og tóku af henni fjölda mynda,“ hafði Morgunblaðið eftir Herði Þormóðssyni sem sat rétt hjá Ritu Eddom í vélinni sem flaug frá Glasgow.
Einnig er sagt frá því að Geir Zoëga hafi gert sér ferð til Keflavíkur fyrir hönd togaraeigenda hérlendis. Ætlaði hann að bjóða Ritu Eddom alla þá aðstoð sem hann gæti veitt og hafði útgerðin í Hull fengið hann til þess. „Það var ekki mögulegt að komast nálægt frúnni fyrir mannþrönginni. Ég reyndi að koma til hennar skilaboðum þess efnis að hún gæti snúið sér til mín en ég hef ekkert heyrt frá henni,“ sagði Geir í samtali við Morgunblaðið.
Bresku fjölmiðlamönnunum lenti saman fyrir utan sjúkrahúsið á Ísafirði rétt eins og á Keflavíkurflugvelli. Úlfur Gunnarsson yfirlæknir stóð í ströngu þegar hann reyndi að hafa hemil á fjölmiðlaskrílnum en þessa daga voru fréttir af sjóslysunum mjög fyrirferðarmiklar í breskum fjölmiðlum.