[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég les venjulega nokkrar bækur í einu. Í stórum bókabúðum ákveð ég stundum að kaupa eina bók í hverri deild. Bækur geta opnað nýja heima og ég vona að lestur ólíkra bóka hjálpi við að tileinka mér víðsýni

Ég les venjulega nokkrar bækur í einu. Í stórum bókabúðum ákveð ég stundum að kaupa eina bók í hverri deild. Bækur geta opnað nýja heima og ég vona að lestur ólíkra bóka hjálpi við að tileinka mér víðsýni. Ég keypti t.d. í fyrsta skipti bókina Maus eftir Spiegelman þegar ég var að velja bók í myndasögudeild í bókabúð erlendis. Í Maus segir Spiegelman sögu pabba síns sem lifði af helförina. Ótrúlega áhrifamikil bók þar sem myndmálið er notað til þess að dýpka frásögnina.

Bókin Rauði þráðurinn eftir Ögmund Jónasson er á náttborðinu. Ögmundur leggur sig fram um að sjá það jákvæða í samferðamönnum sínum og líklega mættu margir taka það sér til fyrirmyndar.

Fyrir nokkru las ég bókina Vængjalaus eftir Árna Árnason. Í henni er dregin upp raunsönn mynd af Akureyri í gegnum augu ungs manns í lok síðustu aldar. Þegar ég ólst upp voru fjórar bókabúðir í bænum. Eitt sinn fékk ég bók sem ég hafði lesið í afmælisgjöf. Ég skilaði henni auðvitað þar sem hún var dýrust og fékk ódýra bók í staðinn. Hana fór ég með þangað sem hún kostaði meira og skilaði. Ég gerði þetta nokkrum sinnum þar til bækurnar voru orðnar tvær. Afa mínum þótti þetta ekki heiðarlegt og því hætti ég þessari iðju.

Ég var að ljúka við Guð leitar að Salome eftir Júlíu Margréti Einarsdóttur. Þetta er vel skrifuð bók með áhugaverðum söguþræði. Í bókinni gengur meðal annars Þórbergur Þórðarson aftur og fjallað er stuttlega um bækurnar Bréf til Láru og Sálminn um blóminn. Þetta eru líklega þær bækur sem ég hef lesið oftast. Einhvers staðar heyrði ég að ef Þórbergur hefði skrifað á fjölmennara tungumáli þá væri hann heimsþekktur. Mér til undrunar eru þessar bækur illfáanlegar í dag.

Á náttborðinu er einnig bók um Churchill og Orwell, The Fight for Freedom. Ég hef lesið mikið eftir og um Orwell en kjarninn í boðskap hans er að sannleikur skiptir máli þó að margir reyni að sveigja hann að sínu höfði. Bókin Stjórnmál og bókmenntir, sem Íslenska bókmenntafélagið gaf út fyrir nokkrum árum með ritgerðum eftir Orwell, gefur góða innsýn í skrif hans.