Drangsnes á Ströndum.
Drangsnes á Ströndum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Það er reglubundið að rifja upp í fjölmiðlum hversu rækilega Angela Merkel kanslari sló sér upp þegar hún hleypti, nánast í einu vetfangi, vel rúmlega einni milljón flóttamanna inn fyrir landamæri Þýskalands. En þessari upprifjun fylgir ekki hrós lengur. Þetta var fólk alls staðar frá, en einkum þó frá Sýrlandi, Írak og Afganistan og það var ekki með neinum sérstökum hætti bundið Þýskalandi.

Það er reglubundið að rifja upp í fjölmiðlum hversu rækilega Angela Merkel kanslari sló sér upp þegar hún hleypti, nánast í einu vetfangi, vel rúmlega einni milljón flóttamanna inn fyrir landamæri Þýskalands. En þessari upprifjun fylgir ekki hrós lengur. Þetta var fólk alls staðar frá, en einkum þó frá Sýrlandi, Írak og Afganistan og það var ekki með neinum sérstökum hætti bundið Þýskalandi.

Og á þessum stað hefur verið ítrekað á það bent að glæpatíðni í Þýskalandi rauk nánast upp úr öllu valdi við þennan gjörning, enda reyndist mikill munur á virðingu Þjóðverjanna, sem fyrir voru, fyrir lögum og rétti og hinni risavöxnu og vanhugsuðu kippu sem kanslarinn ákvað sisona á einni nóttu að bæri að taka á móti. En Angela Merkel kanslari fékk það augnablikið ekkert nema lof og prís fyrir sína ákvörðun, þótt það álit hafi breyst mjög í aðra átt eftir að hún lét af störfum sem kanslari. Og það hefur líka verið minnt á frændur okkar Svía. Hér á landi er svo komið að við fylgjum, því miður, fordæmi Svía um lögmæta umræðu, sem hefur þó reynst þeim bölvanlega til lengdar, um að þegja sem lengst yfir öllum neikvæðum upplýsingum sem tengjast innflutningi flóttamanna og hvaða hópar skeri sig helst úr. Þess vegna gerðu almennir Svíar sér lengi vel ekki ljóst til fulls, hversu illa flóttamannastefnan hefur reynst og þá var, eins og eftir dauðann, of seint að iðrast.

Áhugaverður árangur

Nú er það auðvitað svo, að allmörg ríki í Evrópu, til að mynda gömul og gróin nýlenduþjóð eins og Bretar, hafa átt náin samskipti og um langa hríð við fjölda ríkja og töldu sér skylt að eiga greiðan aðgang að þeim og fundu fyrir þeirri ábyrgð, þegar tímar breyttust og nýir valdhafar tóku við. Hefur breskt þjóðfélag síðan breyst mjög bæði í stóru og smáu og stundum eru það smáu atriðin sem gefa gleggstu myndina. Þannig má nefna núverandi stöðu: Breski forsætisráðherrann, Rishi Sunak, er Indverji að uppruna, en fæddur í Southampton af indverskum hjónum. Forsætisráðherra (First minister) í Skotlandi er innfæddur Pakistani, Humza Yousaf, sem á reyndar í pólitískum vandræðum þessa stundina. Og forsætisráðherra Wales er Vangfhan Gethings, fyrsti blökkumaðurinn sem fær slíkt embætti í Evrópu, en hann er fæddur í Sambíu 1974. Hefur ráðherrann sagt frá því, að á yngri árum hafi hann iðulega mætt töluverðri andúð vegna litarhafts síns, en komist í gegnum það allt og þangað sem hann er kominn. Sadiq Khan er borgarstjóri í höfuðborginni Lundúnum og er fæddur í Bretlandi, en foreldrar hans eru súnnímúslimar, faðir hans Amanullah flutti til Lundúna 1968, þar sem hann ók strætisvagni, en móðirin Sehrun var saumakona. Þetta fólk vissi allt að fortíðarsambandið við Bretland veitti því rétt sem þau notuðu og er til fyrirmyndar hvernig þessar fjölskyldur hafa haldið á sínum málum.

Vel og illa staðið að

Og Bretar láta sér fátt um finnast, þótt þessir innfluttu Bretar eða önnur kynslóð þeirra skipi forsætisráðherrastólana og borgarstjórastólinn í London, allir á sama tíma. En fram að þessu höfðu hvítir stjórnmálamenn trónað í öllum þessum mikilvægu embættum. En þetta gerðist ekki með einni sveiflu, eins og hjá Angelu Merkel forðum, þar sem flóttamennirnir höfðu ekki átt nein sérstök tengsl við Þýskaland, þegar þetta gerðist og voru flestir „mállausir,“ sem munar auðvitað miklu. Það gefur augaleið að þegar svo óhönduglega er haldið á mun taka lengri tíma og er mun erfiðari aðlögun fyrir þá sem koma óvænt en þá sem eru fyrir.

Flestir þeirra sem kusu að hverfa til Bretlands þekktu til vinnulags þeirra og hátta og voru ekki fullkomlega „mállausir“. Nýir valdhafar tóku við af „nýlenduherrunum“ sem höfðu auðvitað ekki endilega verið jafnan til fyrirmyndar í stjórnarstörfum sínum og umgengni við undirsátana og sumir þeirra höfðu sjálfsagt talið að þær lýðræðisreglur sem stuðst var við heima í Bretlandi ættu ekki við í nýlendunum.

En þegar til Bretlands var komið á ný stóðu menn á gömlum merg og voru þar ekki dæmdir til eilífðar inn í tiltekna „stétt“ þaðan sem engin undankomuleið var hugsanleg. Stéttin lá fyrir og þar varst þú og margar kynslóðir á undan þér og þar með og ekki síður á eftir þér. Auðvitað skipta þær enn miklu máli tengingarnar á milli manna og eftir atvikum ætta. En ef þú og þínir standa sig ekki, þá hverfur „þú“ á skömmum tíma og ættin deyr út, hversu vel sem hún stóð um hríð.

Þetta „fyrirfólk“ sem getið var um hér fyrr og var allt „nýbretar“, misjafnlega settir í upphafi auðvitað, allt frá miklum auði forsætisráðherrans í London og niður í alla hina. En það eiga flestir sinn séns, hafi þeir eitthvað til að bera og eru tilbúnir til að leggja sig fram. Þeir þurfa ekki að standa á öxlum „ættarinnar“ til að fá að njóta sín.

Mjög margar þjóðir hafa farið fram úr sér í móttöku og meðhöndlun „flóttamanna“ og þau skilyrði sem uppfylla þarf til að Ísland ráði við að bjóða öllum allt hér á landi eru óviðráðanleg. Það sem við ráðum sæmilega við breytir á hinn bóginn engu um stöðu flóttamanna á heimsvísu. Hér á landi höfum við engan her og aðeins fámennt lögreglulið sem dugar aðeins til að stemma stigu við smávægilegasta uppnámi. Það vita menn frá ógnunum 1949 við inngöngu í Nató, sem allir vilja nú standa að. „Góða fólkið“ ýtti undir það að fá hingað fólk frá Gasa. Það fólk var nýkomið hingað þegar það klifraði í og utan um Alþingishúsið og hrópaði kröfur.

Nú vill svo til hér á landi að sjóðheitt hraun sat skyndilega um 4.000 manna byggðarlag suður með sjó. Það þurfti að bjarga því fólki helst strax og með bærilegum hætti og varanlega. Þar með var geta okkar í flóttmannamálum búin í bili og þjóðin verður að horfast í augu við það.

Óþægileg og ógróin mistök

Það voru meiriháttar mistök af hálfu Íslands þegar látið var undan þeim þrýstingi að Ísland skyldi gerast aðili að Schengen-samkomulaginu og að þar lægju hagsmunir þess. Það var öðru nær. Mikill meirihluti ríkisstjórnarinnar var andvígur því að taka þátt í þessu samstarfi. Fagráðherrarnir tveir, þáverandi dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra, lögðu á hinn bóginn ofuráherslu á að þetta yrði gert. Eftir ítarlegar umræður varð niðurstaðan því miður sú að láta undan „hinum faglegu sjónarmiðum“. Síðar hefur komið á daginn að hinir sömu höfðu þá þegar gleypt fluguna um að ýta bæri þjóðinni inn í Evrópusambandið. Þess var ekki getið í þeim umræðum sem þá áttu sér stað í ríkisstjórninni.

Þegar þetta spurðist út höfðu bresk stjórnvöld samband við þau íslensku og furðuðu sig á þessum ákvörðunum. Þessi ákvörðun tryggði óheftan og frían aðgang 425 milljóna manna í ESB inn fyrir landamæri Íslands. Þess utan hafa allir sem staddir eru innan ESB þá stundina, hvort sem það eru ferðamenn eða í stúdentaskiptum eða viðskiptaerindum eða eins og þar segir „anyone legally present in the EU.“

Á þessum árum, þegar framangreindir atburðir gerðust, voru Bretar enn í ESB. En leiðin út úr bandalaginu kostaði mikla baráttu sem stóð lengi. En þótt þeir væru þar aðilar þá, höfðu þeir ætíð sagt að ekki kæmi til greina af hálfu Bretlands að ganga í Schengen-sambandið. Þegar Ísland var að álpast þarna inn höfðu bresk stjórnvöld samband við hin íslensku. „Hvers vegna í ósköpunum takið þið þessa ákvörðun. Við erum eitt af fáum löndum í ESB sem eru eylönd. Kýpur, sem er eyland, er það líka og eins er að mestu með Írland. Hvorugt getur hugsað sér að ganga í Schengen. Löndin sem eru inni í því liggja saman og geta ekki varið landamæri sín. Síðast þegar við kíktum á hnattlíkanið voruð þið líka eyland, sem átti auðvelt með að verja sín landamæri. Eruð þið að undirbúa að hætta því að vera eyland?“ Þeim, sem tóku samtalið, varð svarafátt.

Nigel Farage, sem lengi sat á þingi Evrópusambandsins í Brussel, var með allra líflegustu ræðumönnum þar og fékk einatt mesta athygli. Margir halda því fram að hann hafi manna fyrstur gefið Bretum von um útgöngu úr ESB.

Hann segir nú, í nýrri grein grein í Telegraph, að það verði að loka á breska flóttamannakerfið þegar í stað, á meðan stjórnvöld og allur almenningur nái að átta sig á, hvað sé raunverulega að gerast í þeim málum. Hann telur upp í grein sinni fjölmörg dæmi um að flóttamenn sem hann nafngreinir (sem ekki verður gert hér) hafi drepið almenna borgara í Bretlandi, sem ekki áttu sér ills von. Niðurstaða hans er sú að forystumenn þjóðarinnar hafi misst allan móð og sinn siðferðilega styrk til að gæta hagsmuna þjóðarinnar.