Hvalreki Bók Þórðar Helgasonar, Alþýðuskáldin á Íslandi. Saga um átök, er náma af fróðleik og skemmtun.
Hvalreki Bók Þórðar Helgasonar, Alþýðuskáldin á Íslandi. Saga um átök, er náma af fróðleik og skemmtun. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórður Helgason hefur skrifað stórfróðlega bók, Alþýðuskáldin á Íslandi. Saga um átök. Þessi bók er náma af fróðleik og skemmtun og koma fjölmörg skáld og andans menn 19. aldar og fyrstu áratuga þeirrar 20

Tungutak

Baldur Hafstað

hafstad.baldur@gmail.com

Þórður Helgason hefur skrifað stórfróðlega bók, Alþýðuskáldin á Íslandi. Saga um átök.

Þessi bók er náma af fróðleik og skemmtun og koma fjölmörg skáld og andans menn 19. aldar og fyrstu áratuga þeirrar 20. þar við sögu. En við kynnumst þeim á nýjan hátt, því Þórður raðar ummælum þeirra þannig upp að það er eins og þau séu lifandi komin í rökræðu um skáldskap. Það er tekist á, og stundum verður umræðan óvægin. Þórður útskýrir og dregur saman á sinn yfirvegaða máta.

Þetta upphófst allt í kjölfar ritdóms Jónasar Hallgrímssonar í Fjölni árið 1837 um rímur Sigurðar Breiðfjörð af Tristran og Indíönu. Þarna réðst listaskáldið góða á garðinn þar sem hann var hæstur: ástsælasta rímnaskáld þjóðarinnar, og sagði kveðskap hans „eyða og spilla tilfinningunni á því sem fagurt er og skáldlegt“ (58). Í sem stystu máli: dómur Jónasar lýsir stöðnuðum bókmenntasmekk einangraðrar þjóðar.

Þórður lýsir þessum skylmingum lærðra og leikra, heillar aldar hjaðningavígum. Hinir ólærðu sökuðu andstæðinginn um lærdómshroka. „Það var gínandi gljúfur milli þjóðarinnar og þessara manna [þ.e. hinna lærðu], sem engin brú lá í rauninni yfir,“ sagði Einar Benediktsson (18). En eftir því sem á leið mjókkaði bilið og hvarf reyndar að lokum: ferhendunni var sungið lof, og Sigurði Breiðfjörð lyft á stall.

Hverfum til ársins 1880 og ritdóms um eitt alþýðuskáldanna:

„[Vér] látum oss nægja að skýra lesendum vorum frá að í [bókinni] er leir, leir, leir, og eintómur a…..s leir!“ (263).

Og þessi frá 1886: „Bjarni þessi er einhver aumingja fáráðlingur sem hefir dottið í hug að hann væri skáld, og fór að gefa út kvæðakver eitt lítið. Kver þetta má óhætt telja þá aumustu bók sem nokkurn tíma hefir sjezt á prenti … Það er hinn einstaki leirburður, bæði að efni og frágangi, bókmenntum landsins til sannrar svívirðingar og höfundinum til athlægis“ (263).

Frá 1881: „Það er skemst frá að segja að kveðskapur sá er bókin flytur er undantekningarlítið spjaldanna á milli óslitinn, kolmórauður, snarsundlandi kaststrengur af leiðburði“ (264).

Frá 1874: „Hver skyldi vera svo ósvífinn að kalla þennan skáldlega volaða vesaling skáld?“ (280).

Skemmtilegast við bók Þórðar er það hvernig honum tekst að lýsa og útskýra hve margt er þversagnarkennt í umræðunni; það er eins og jafnvel stórskáldin komist hvað eftir annað í mótsögn við sjálf sig.

Ég get að lokum ekki stillt mig um að vitna í sjálfan Matthías Jochumsson sem lætur ýmislegt flakka í sendibréfum:

1914: „Og síðan er Steini greyið Erl. liðinn undir lok með »hæderlig Begravelse« – hana fáum við allir »yfirmenn« og afglapar“ (36-37). Og í öðru bréfi sama ár: „Nú er Þorsteinn Erlingsson búinn. Eftir hann eigum við allmargar alþýðustökur, en fátt sem telur … Hann var aldrei heilbrigður maður, og miklu meiri háttar skáldmenni voru Breiðfjörð og Bólu-Hjálmar“ (37).