Að beiðni skattayfirvalda innsiglaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu skemmtistaðina B5 og Exit í gær, auk Nýju vínbúðarinnar, en allur þessi rekstur er í eigu Sverris Einars Eiríkssonar veitingamanns. Sverrir sendi síðdegis í gær frá sér tilkynningu þar sem hann segir beiðni skattayfirvalda um að innsigla B5 vera lögmæta. Hins vegar telur hann misskilnings gæta sem leitt hefur til lokunar Exit og Nýju vínbúðarinnar.
Sverrir sagðist í samtali við mbl.is ekki vera af baki dottinn og hyggst hann opna B5 að nýju í maí. Sagði hann rekstur Exit og Nýju Vínbúðarinnar rekstrarfélagi B5 óviðkomandi. Misskilnings hafi gætt í heimild til að fara fram á lokun á þeim rekstri. „Úr þeim málum verður leyst í snarhasti, enda hafa skattayfirvöld ekkert upp á þann rekstur að klaga,“ sagði Sverrir við mbl.is.