Eltihrellir <strong>Þættirnir byggjast á reynslu höfundarins.</strong>
Eltihrellir Þættirnir byggjast á reynslu höfundarins. — Ljósmynd/Netflix
Undirritaðri hefur um nokkurt skeið þótt Netflix slá slöku við í þáttaúrvali og leitt hugann að því að segja upp áskriftinni. Ég hef þó hinkrað aðeins eftir að hafa uppgötvað bresku smá-seríuna Baby Reindeer sem er vonarglæta gegn Hallmark-kvikmyndavæðingu streymisveitunnar

Iðunn Andrésdóttir

Undirritaðri hefur um nokkurt skeið þótt Netflix slá slöku við í þáttaúrvali og leitt hugann að því að segja upp áskriftinni.

Ég hef þó hinkrað aðeins eftir að hafa uppgötvað bresku smá-seríuna Baby Reindeer sem er vonarglæta gegn Hallmark-kvikmyndavæðingu streymisveitunnar.

Þættirnir eru sannsögulegir og byggjast á reynslu höfundarins og aðalleikarans Richards Gadds sem var fórnarlamb eltihrellis um nokkurra ára skeið. Tekist er á við erfið þemu og átakanlega upplifun Gadds af stanslausri áreitni eltihrellisins, kynferðisofbeldi, kynhneigðaróvissu og skömminni sem því oft fylgir. Þættirnir sýna þá flóknu dýnamík sem oft ríkir á milli brotaþola og geranda og þá sjálfseyðingarhvöt sem fólk upplifir oft samhliða eða í kjölfar ofbeldis. Baby Reindeer er sannkölluð samtalskveikja á heimilinu um erfið málefni en Gadd tekst listilega vel að framkalla flóknar tilfinningar hjá áhorfendum og er óhræddur við að láta þá vera við það að gefast upp á söguhetjunni. Í sömu andrá nær hann á köflum að framkalla samúð með eltihrellinum – líkt og hann upplifði sjálfur á sínum tíma. Gadd berar allan sannleikann og segir það sem ekki má segja upphátt um skömm, ofbeldi og brothætta karlmennsku.

Höf.: Iðunn Andrésdóttir