Framboð Reiðubúinn að virkja málskotsréttinn, segir Baldur.
Framboð Reiðubúinn að virkja málskotsréttinn, segir Baldur. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Mikilvægt er að þingið viti að á Bessastöðum sitji forseti sem sé reiðubúinn að virkja málskotsréttinn ef þingið af einhverjum orsökum fer fram úr sér, segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði og frambjóðandi til embættis forseta Íslands

Mikilvægt er að þingið viti að á Bessastöðum sitji forseti sem sé reiðubúinn að virkja málskotsréttinn ef þingið af einhverjum orsökum fer fram úr sér, segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði og frambjóðandi til embættis forseta Íslands.

Baldur er viðmælandi í nýjasta þætti Spursmála á mbl.is. Þar segir hann að forsetinn sé pólitískur. Hann segir það ekki verkefni dómstóla að taka á því ef löggjafinn samþykkir lög sem gangi í berhögg við stjórnarskrána. Forsetanum beri að grípa inn í við slíkar aðstæður. „Mér finnst að bóndinn á Bessastöðum eigi að líta yfir axlirnar á þingheimi þannig að þingheimur telji ekki að það sé bara sjálfkrafa afgreiðsla á lögunum sem lenda til undirskriftar hjá forsetanum.“

Í viðtalinu segist Baldur hafa verið á þeirri skoðun að Ólafur Ragnar hafi verið í fullum rétti í Icesave-málinu og eins fjölmiðlamálinu 2004 þegar hann synjaði lögum staðfestingar. Það gerir hann þrátt fyrir ummæli sem hann lét falla árið 2012 þar sem hann sagði stjórnmálalega óvissu uppi.