Harmonikkuleikari Hrund Hlöðversdóttir skólastjóri býður upp á viðburðinn Sögulok í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit næstkomandi laugardag.
Harmonikkuleikari Hrund Hlöðversdóttir skólastjóri býður upp á viðburðinn Sögulok í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit næstkomandi laugardag. — Ljósmynd/Linda Ólafsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég tók þá ákvörðun um síðustu áramót að hætta sem skólastjóri eftir 12 farsæl ár við Hrafnagilsskóla og flytja úr Eyjafjarðarsveit,“ segir Hrund Hlöðversdóttir sem býður upp á viðburðinn Sögulok í Laugarborg, félagsheimili í Hrafnagilshverfi i Eyjafjarðarsveit

Margrét Þóra Þórsdóttir

Akureyri

„Ég tók þá ákvörðun um síðustu áramót að hætta sem skólastjóri eftir 12 farsæl ár við Hrafnagilsskóla og flytja úr Eyjafjarðarsveit,“ segir Hrund Hlöðversdóttir sem býður upp á viðburðinn Sögulok í Laugarborg, félagsheimili í Hrafnagilshverfi i Eyjafjarðarsveit.

Sögulok er kveðjuhátíð við sveitarfélagið og íbúa þess en jafnframt útgáfuhóf vegna bókarinnar Ólgu – kynjaslöngunnar sem er þriðja bókin í ungmennabókaflokknum um Svandísi og vini hennar sem lenda í ævintýrum í hulduheimum. Hátíðin hefst kl. 15 á laugardaginn, 4. maí, og verður endurtekin kl. 17. Menningarmálanefnd Eyjafjarðarsveitar og Norðurorka styrkja viðburðinn. Miðar eru seldir á tix.is og verði stillt í hóf.

Kærkomið tækifæri til að halda útgáfuhóf

Hrund segir að blundað hafi í sér að efna til útgáfuhátíðar vegna útkomu bókarinnar sem er sú síðasta í þríleiknum. Fyrsta bókin, Ógn – ráðgátan um Dísar-Svan, kom út í miðjum heimsfaraldri haustið 2021, önnur bókin kom út ári síðar og þá var enn farið með varúð í allar samkomur. „Ég hafði ekki tök á að halda útgáfuhóf vegna bókanna þannig að tækifærið nú er kærkomið,“ segir hún.

Hrund hefur undanfarin ár stundað harmonikkunám við Tónlistarskóla Eyjafjarðar, en fyrr á ævinni hafði hún lært bæði píanóleik og söng. Hún hefur haldið nokkra tónleika, spilað á harmonikkuna og sungið lög sem hún hefur hljómsett þannig að þau henti raddsviði hennar.

Á Sögulokum verða leikin lög sem tengjast þjóðtrú og sagnaheimi bóka Hrundar og inni á milli fá hlustendur innlit í þjóðsagnaheim þar sem álfar, draugar, skelfilegar kynjaskepnur og skrímsli ráða ríkjum. Með henni verða Jón Þorsteinn Reynisson harmonikkuleikari, Guðrún Hrund Harðardóttir lágfiðluleikari og Jón Hrói Finnsson sögumaður.

„Það verða lesnir textar sem lýsa söguheimi bókanna minna en þar er ég að vinna með ævintýraheiminn sem er að finna í íslenskum þjóðsögum. Eftir hvern lestur er spilað lag sem tengist því sem var verið að lesa um hverju sinni, t.d. þegar lesið verður um draugana sem finna má í íslenskum þjóðsögum er sungið og spilað lag um drauga,“ segir Hrund en viðburðurinn tekur um klukkustund og er hugsaður sem skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

Hlakkar til að takast á við nýjan kafla í lífinu

„Það verða tímamót í mínu lífi, ég pakka búslóðinni minni niður í vor og kem henni í geymslu um tíma. Ég hef ákveðið að leggja land undir fót frá og með miðju sumri fram að áramótum,“ segir Hrund, en hún byrjar á þriggja mánaða dvöl í Danmörku, heldur þaðan til Spánar þar sem hún verður í mánuð og þá liggur leiðin í miðbæ Reykjavíkur. „Hvað tekur við eftir það er algjörlega óvíst, ég veit ekki hvert lífið leiðir mig en ég hlakka til að hefja þessa nýju vegferð,“ segir Hrund.

Á flakki sínu í útlöndum mun hún fást við ritsmíðar, segir að ný hugmynd að bók hafi skotið upp kollinum. „Nú sný ég mér frá þjóðsögunum og ungmennaævintýrunum og ætla mér að skrifa bók fyrir fullorðna sem fjallar um leitina að ástinni á öllum tímum ævinnar. Þetta verður skvísubók en inn í söguna verður fléttað sögu um ástarævintýri ungs hermanns sem kemur til Íslands árið 1943,“ segir Hrund að endingu.

Höf.: Margrét Þóra Þórsdóttir