Arnór Ragnarsson
„Minn tími mun koma,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir eftirminnilega hér um árið og steytti hnefann framan í andstæðingana. Nú vil ég halda því fram að tími okkar eldri borgaranna sé kominn, þ.e. ef við berum gæfu til að vera samstiga. Eftir nokkrar vikur verða forsetakosningar og þar getum við æft okkur í samstöðunni.
Fyrir nokkrum vikum fór ég yfir listann yfir þá sem höfðu boðið sig fram og taldi ég auðlesið að Katrín Jakobsdóttir væri þar fremst meðal jafningja og ég myndi kjósa hana. Svo var það í vikunni sem leið að ég fór á mannamót þar sem rætt var um forsetakjörið og sagði mína skoðun. Maður yngri en ég sparkaði þá í sköflunginn á mér og spurði mig hvort ég hefði ekki fylgst með Katrínu bakka Bjarna Benediktsson upp með að halda ellilífeyri eldri borgara í neðsta þrepi? Góð áminning fannst mér sem ég fór með heim til íhugunar. Í síðustu tveimur kjarasamningum hafa lægstu laun hækkað í krónutölum meðan ellilífeyrir hækkaði í prósentum. Sem sagt eldri borgarar sátu eftir í boði Katrínar.
Svo gerist það að ung fluggáfuð kona ryðst fram á völlinn og heillar lýðinn og líka mig og nú segi ég: Eldri borgarar – kjósum þessa ungu konu og æfum okkur í samstöðunni fyrir næstu kosningar.
FEB hefur barist með kjafti og klóm í áraraðir fyrir bættum kjörum eldri borgara. Sér í lagi þeirra sem heima búa en hefir ekki orðið vel ágengt. Svo mikið hefir verið reynt að farið var í málaferli við ríkið sem töpuðust. Ég held að nú reyni á síðasta hálmstráið, samstöðu eldri borgara, þ.e. eldra fólks sem er á sjötugsaldri og eldra. Ef samstaða næst meðal okkar um hver verður næsti forseti þá er næsta verkefni að við kjósum öll sama stjórnmálaflokkinn. Þar koma núverandi stjórnarflokkar ekki til greina.
Ég mun fylgja þessum greinarstúf mínum eftir í byrjun júní þegar við sjáum hvernig til hefir tekist.
Höfundur er fyrrverandi blaðamaður og ellilífeyrisþegi.