Eyjamenn, ríkjandi Íslandsmeistarar karla í handknattleik, játuðu sig ekki sigraða í einvíginu við FH og unnu frækinn sigur í þriðja leik liðanna í Kaplakrika í gær, 29:28.
Þeir komust þannig hjá því að vera sópað út úr undanúrslitum Íslandsmótsins í þremur leikjum. Staðan er nú 2:1, FH-ingum í hag, og ÍBV fær tækifæri til að jafna metin á sínum heimavelli á miðvikudaginn.
ÍBV komst í 22:17 í síðari hálfleik en síðan virtust FH-ingar vera komnir á sigurbraut þegar þeir komust í 27:25 seint í leiknum. Eyjamenn gáfust ekki upp og Elmar Erlingsson tryggði þeim fjórða leikinn með 29. markinu fimm sekúndum fyrir leikslok.
Þetta var fimmtánda mark Elmars í leiknum en hann átti sannkallaðan stórleik. Aron Pálmarsson skoraði níu mörk fyrir FH og markvarsla beggja liða var mjög góð.