Öflugur Andri Finnsson skoraði níu mörk í Rúmeníu í gær.
Öflugur Andri Finnsson skoraði níu mörk í Rúmeníu í gær. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Valsmenn leika til úrslita um Evrópubikar karla í handknattleik en þeir tryggðu sér það með afar sannfærandi sigri á Mineur Baia Mare í seinni leik liðanna í undanúrslitunum í Rúmeníu í gær, 30:24. Þeir voru ekki í neinum vandræðum með að verja…

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Valsmenn leika til úrslita um Evrópubikar karla í handknattleik en þeir tryggðu sér það með afar sannfærandi sigri á Mineur Baia Mare í seinni leik liðanna í undanúrslitunum í Rúmeníu í gær, 30:24.

Þeir voru ekki í neinum vandræðum með að verja forskot sitt frá fyrri leiknum á Hlíðarenda sem endaði 36:28, Valsmönnum í hag.

Valur mætir Olympiacos frá Grikklandi í tveimur úrslitaleikjum, heima og heiman, dagana 19. og 26. maí en Grikkirnir sigruðu Ferencváros frá Ungverjalandi, 39:32, í seinni leiknum í Ilioupolis á laugardaginn eftir jafntefli í fyrri leiknum í Búdapest, 28:28.

Þar með er Valur í annað skipti í sögunni í úrslitaleik í Evrópukeppni en árið 1980 biðu Valsmenn lægri hlut fyrir Grosswallstadt frá Þýskalandi, 21:12, í úrslitaleiknum í Evrópukeppni meistaraliða eftir frækna framgöngu í þeirri keppni.

Úrslitin voru ráðin í hálfleik í Rúmeníu í gær en þá höfðu Valsmenn leikið heimamenn grátt og staðan var 17:8. Munurinn á liðunum var orðinn 17 mörk samanlagt og aðeins formsatriði að spila síðari hálfleikinn. Hlíðarendapiltarnir voru ekki í minnstu vandræðum með að ljúka honum með glans og stóðu uppi með samanlagðan 14 marka sigur í einvíginu.

Andri Finnsson átti stórleik í liði Vals og skoraði níu mörk. Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði 4, Agnar Smári Jónsson 3, Tjörvi Týr Gíslason 3, Vignir Stefánsson 3, Magnús Óli Magnússon 2, Aron Dagur Pálsson 3, Ísak Gústafsson 1, Allan Norðberg 1, Alexander Petersson 1 og Björgvin Páll Gústavsson 1 en Björgvin varði 11 skot í leiknum.

Höf.: Víðir Sigurðsson