Kolbrún Bergþórsdóttir
Breska sjónvarpsstöðin Channel 5 sýndi á dögunum heimildarmyndina The Earl, His Lover, The Escort and her Brother. Þar var fjallað um örlög Anthonys Ashley-Coopers sem var tíundi jarlinn af Shaftesbury og einn af ríkustu mönnum Bretlands. Hann hvarf á dularfullan hátt í Cannes, 66 ára gamall, árið 2004.
Jarlinn var kvennamaður, drykkjumaður og eiturlyfjaneytandi sem lifði hátt. Hann giftist og skildi og konurnar í lífi hans urðu æ yngri. Þær voru vitanlega á höttunum eftir peningunum hans. Síðasta eiginkona hans kom fram í myndinni og smám saman opinberaðist að hún var skaðræðiskvendi og örlagavaldur í lífi hans.
Myndin var morðsaga en eiginlega einnig saga um það hversu flókið það getur verið að eiga of mikla peninga. Jarlinn var mannblendinn og flaggaði auði sínum óspart, sem varð til þess að fólk sópaðist að honum í von um að njóta góðs af. Hann gat fáum treyst en þar sem hann var yfirleitt illa drukkinn hefur honum sennilega staðið á sama um það.
Örlög hans urðu dapurleg en líferni hans hafði líka boðið upp á það. Það var ekki skynsamlegt að giftast ungri konu sem sá hann einungis sem peningamaskínu – og þegar hann ætlaði að segja skilið við hana var það orðið of seint.