Ríkisútvarpið nýtur stöðugt hækkandi tekna, annars vegar vegna hækkandi útvarpsgjalds sem stafar að hluta af straumi innflytjenda til landsins, og hins vegar vegna hækkandi auglýsingatekna sem stafar að hluta til af því að stofnunin misnotar ríkisstuðning sinn til að auka fyrirferð sína á auglýsingamarkaði.
Stofnunin hefur þanist út í skjóli þessa stjórnlausa tekjuvaxtar og nýjasta dæmið um það er að fram kom fyrir helgi að nú væri unnið að því innanhúss að endurskipuleggja stjórn fréttatengdra þátta í útvarpi og sjónvarpi, en þeir eru orðnir svo margir að hver þvælist fyrir öðrum ef marka má lýsingar Heiðars Arnar Sigurfinnssonar fréttastjóra Rúv.
Á sama tíma berast svo fréttir af því að María Sigrún Hilmarsdóttir fréttamaður hafi ekki hlotið náð fyrir augum yfirmanna fréttastofunnar. Hún hafi ekki aðeins verið tekin úr ritstjórn Kveiks heldur hafi fréttaskýring sem hún hafi unnið að verið stöðvuð og henni neitað um að sýna hana á þeim vettvangi.
Atburðarásin í því máli, sem þó er ekki enn öll komin fram, er með ólíkindum, ekki síst sú ósvífni sem einn yfirmaðurinn, Ingólfur Bjarni Sigfússon, sýndi Maríu Sigrúnu með því að segja að hún ætti ekki erindi í rannsóknarblaðamennsku en gæti verið fréttaþulur.
Lýsingarnar sýna innanmein sem yfirmenn stofnunarinnar hljóta að taka á.