Ingólfur Ómar sendi mér góðan póst: Heill og sæll Halldór og gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn. Nú skal efla dug og dáð drungann af sér hrista. Meðan sólin signir láð sumardaginn fyrsta. Forsetakosningarnar – Ólafur Stefánsson yrkir:…

Ingólfur Ómar sendi mér góðan póst: Heill og sæll Halldór og gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn.

Nú skal efla dug og dáð

drungann af sér hrista.

Meðan sólin signir láð

sumardaginn fyrsta.

Forsetakosningarnar – Ólafur Stefánsson yrkir:

Höllur tvær og Helga til vara,

hverju á ég um það að svara,

hvar krossinn kæmi sér best?

Níu eru sveinkur og sveinar,

sérlegar virðast ei áherslur neinar,

því sit heima sæll fyrir rest.

Magnús Halldórsson yrkir og kallar Bölvað bull:

Meðan Áki var belju að birkja,

bar þar að fáeina Tyrkja.

Voru í straffi,

vildu þó kaffi.

Svo það um fór Áki að yrkja.

Hallmundur Guðmundsson
segir að q sé vannýttur bók-
stafur:

Ef að dagsins ylur þverr

og ekkert fært að gera.

Þá er mörgu miður verr

– en mögla og speqlera.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Jón Atli Játvarðarson:

Víkur burtu vetrartíð,

viðrast lömb með ánum.

Sumarkoman c þér blíð,

sjáist lauf á trjánum.

Og Hermann Stefánsson:

Að beygja q er kunnur vandi

en kannski ekki óvinnandi:

Hér er kýr, tvö q, til kýr,

kennir lausnin, hrein og skýr.

Í Sjöundu Davíðsbók segir Davíð Hjálmar: Nýtt sjampó kom á markað, var það úr kúahlandi og því auðvitað rándýrt. Þó mátti finna sparnaðarráð:

Fann ég áðan frábært svar

er fjárhags rétti hallann

en talsvert puð og pot það var

að pissa beint á skallann.

Limran Sönn ást eftir Hrólf Sveinsson:

Hún Málfríður húsfreyja á Melum,

já, mikið talaði’ hún vel um

hann Bjarna sinn,

þetta blessaða skinn,

sem bæri af öðrum delum.

Hjörtur Gíslason kvað:

Ekki er vandi að yrkja ljóð

eða blanda geði

þegar landi og fögur fljóð

fylla andann gleði.