Sveinbjörn Hallsson fæddist 11. apríl 1940. Hann lést 14. apríl 2024.

Útförin fór fram 27. apríl 2024.

Nú er litli bróðir minn hann Svenni dáinn. Ég passaði hann mikið þegar hann var lítill strákur en hann var fimm árum yngri en ég. Hann var oft mikið veikur þegar hann var lítill en núna er hann búinn að lifa alla sína bræður. Hann var alltaf ljúfur og góður drengur. Svenni bjó alla tíð í sveitinni okkar Hallkelsstaðahlíð og fylgdist mikið með kindum. Glöggur fjármaður og þekkti hverja kind með nafni. Honum var umhugað um að þær kæmust allar í hús fyrir veturinn. Margir muna eftir honum á honum Létti. Glæsilegur reiðmaður á rauðskjótta hestinum. Stúlkurnar horfðu á eftir honum dreymnum augum en hann tók ekki eftir þeim. Var ókvæntur alla tíð.

Hann var einungis fimm ára þegar faðir okkar dó, 9. í röðinni af okkur 12 systkinum. Núna erum við bara þrjár systurnar eftir. Hann var alla tíð í Hallkelsstaðahlíð og vann við búskapinn, en var á hjúkrunarheimilinu Brákarhlíð núna síðustu ár. Börnin mín voru öll hrifin af Svenna og hann hafði gaman af því að stríða þeim öllum.

Gott er að eiga ljúfar og góðar minningar um góðan bróður.

Það er svo margt að minnast á

frá morgni æsku ljósum,

er vorið hló við barnsins brá

og bjó sig skarti’af rósum.

Við ættum geta eina nátt

vorn anda látið dreyma,

um dalinn ljúfa’ í austurátt,

þar átti mamma heima.

Þótt löngu séu liðnir hjá

þeir ljúfu, fögru morgnar,

þá lifnar yfir öldungsbrá

er óma raddir fornar.

Hver endurminning er svo hlý

að yljar köldu hjarta.

Hver saga forn er saga ný,

um sólskinsdaga bjarta.

(Einar E. Sæmundsson)

Margrét (Maddý) systir og afkomendur hennar.

Í systkinahópnum í Hallkelsstaðahlíð í Hnappadal var mikill áhugi á íþróttum, einkum frjálsíþróttum, um miðja síðustu öld. Níu af tólf úr systkinahópnum kepptu t.d. á héraðsmótunum. Það var ævintýri fyrir strák á næsta bæ að fylgjast með og byrja að æfa sig í einhverjum greinum. Þá var ekki verra að hafa keppinaut. Við Sveinbjörn Hallsson, frændi í Hallkelsstaðahlíð sem nú er allur, vorum næstum jafnaldrar. Á hverju sumri í nokkur ár háðum við keppni í hlaupum, stökkum og köstum og gekk á ýmsu. Á veturna lágum við í sveitasímanum og tefldum. Ekki var það vinsælt hjá öðrum á línunni. Þetta voru góðar stundir og geymast enn í minninu.

Svo kvaddi ég dalinn og samverustundir urðu fáar. Ég komst þó að því að þessi þægilegi frændi gat verið stríðinn. Allt í góðu þó. Eitt sinn vorum við í ungmennafélagsferð og lentum á balli á Laugum í Dalasýslu. Eitthvað var Svenni að stríðast við stráka á ballinu sem var varhugavert, því það var gat á gólfinu og sundlaug undir. Þeir vildu vita hver þessi stríðnispúki væri og hann sagðist heita Guðmundur Jónasson. Seinna var Svenni að keppa í 1500 m hlaupi á héraðsmóti HSH. Aðalkeppinauturinn hét Guðmundur Jónasson. Þeir Guðmundarnir klára þetta væntanlega hinum megin.

Svona er lífið oft skemmtilegt sem betur fer. Ljúfur drengur er allur og blessuð sé minning hans. En hlíðin og vatnið eru áfram á sínum stað.

Reynir Ingibjartsson.

Svenni eins og hann var oftast kallaður hefur alla tíð skipað stóran sess í mínu lífi, glettinn, stríðinn og traustur. Hann kom svo sannarlega til dyranna eins og hann var klæddur, hreinskilin og hress. Börn hændust að honum og kunnu vel að meta það hversu góður hann var í að æsa þau upp og skapa stemningu sem var engu lík. Fyrsta skipti sem við sendum Mumma son okkar í pössun í sveitina var þegar við fórum á Landsmót hestamanna. Mummi var þá fjögurra ára og meira en til í að vera eftir í sveitinni. Þegar við komum heim og hann fór að lýsa fyrir okkur hvað á daga hans hefði drifið kom í ljós að flestir dagar höfðu farið í að undirbúa vélarnar fyrir heyskapinn. Hann hafði sem sagt verið í vélaviðgerðum með Svenna í marga daga og verið alsæll með það. Svenni hafði lag á því að láta öllum líða sem þeir væru mjög mikilvægir og jafnvel aðal. Ég er ævinlega þakklát fyrir það hve góð og gefandi samskipti þeirra félaganna voru alla tíð. Það var sama hvort það snéri að viðgerðum, tófuveiðum eða starfi ungmennafélagsins.

Svenni var ungmennafélagsmaður eins og þeir gerast bestir, áhugasamur, duglegur og tryggur. Það var sama hvort það var þorrablót, félagsstörf eða 17. júníhátíðin, hann var klár. Hann ræddi oft mikilvægi þess að hlakka til. Þorrablótið, sauðburðurinn, heyskapurinn, hestaferðirnar og réttirnar, það er lífið. Sauðburðurinn var eitt það skemmtilegasta og það sem Svenni hlakkaði mest til í daglegu lífi. Hann vaknaði alltaf snemma en þó aldrei eins og um sauðburðinn. Að koma í fjárhúsin og leysa næturvaktina af kl. 6, taka stöðuna, sópa og gefa mjölið, fara síðan heim og borða hafragrautinn, var rútínan. Vera á vaktinni allan daginn og fara ekki heim fyrr en öllum lömbum hafði verið gefið og öll hjörðin yfirfarin. Taka kíkiinn í hönd og kanna hvort allt væri í lagi með lambfé, folaldshryssur og tófurnar. Sauðburðurinn það var Svenni, vá, hvað ég sakna þess að fá hringingu: „Hvað er að frétta af sauðburðinum, gengur ekki allt vel?“

Smalamennskur og réttir voru einnig áhugamál sem að voru ofarlega á lista hjá Svenna. Góðar og stundum erfiðar eftirleitir voru honum eins og góður desert eftir gómsæta máltíð. Þegar við fluttum vestur og komum inn í búreksturinn byrjuðum við að taka til okkar verknema og starfsfólk. Þetta var breyting og hafði í för með sér að margt ungt fólk kom og var hjá okkur um lengri eða skemmri tíma. Svenni tók þessari breytingu afar vel og var ánægður með að fá þetta fólk til liðs við okkur. Hann og margir af þessum hópi myndaði tengsl sem urðu að góðri og tryggri vináttu sem entist honum til æviloka. Það kom alltaf glampi í augun og bros á vör þegar minnst var á vinnufólkið, eins og hann kallaði þessa góðu vini sína. Hreinskilni, dugnaður og góða skapið eru þeir þættir sem standa upp úr minningunum.

Ég trúi því að nú hafi hann lagt á Létti sinn með Jörp í taumi og þeysi um grænu hagana hinum megin. Takk fyrir allt elsku Svenni, þú gafst rétta tóninn. Kátur og hlýr gleðigjafi, góður við menn og málleysingja.

Sigrún
Ólafsdóttir.