Ljós Jólakötturinn setur svip sinn á Lækjartorg á aðventunni ár hvert.
Ljós Jólakötturinn setur svip sinn á Lækjartorg á aðventunni ár hvert. — Morgunblaðið/Hari
Nágrannasveitarfélög Grindavíkurbæjar stefna á að gefa Grindvíkingum kærleiksgjöf í formi ljóslistaverks. Bæjarráð Suðurnesjabæjar samþykkti samhljóða að taka þátt í verkefninu að því gefnu að önnur sveitarfélög tækju þátt

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

Nágrannasveitarfélög Grindavíkurbæjar stefna á að gefa Grindvíkingum kærleiksgjöf í formi ljóslistaverks.

Bæjarráð Suðurnesjabæjar samþykkti samhljóða að taka þátt í verkefninu að því gefnu að önnur sveitarfélög tækju þátt.

„Hugmyndin gengur út á að gefa Grindvíkingum ljós vonar,“ segir Magnús Stefánsson bæjarstjóri Suðurnesjabæjar. Hann segir að listaverkið verði sambærilegt jólakettinum sem er á Lækjartorgi í miðbæ Reykjavíkur á aðventunni. Það verði þó með útfærslu á byggðarmerki Grindavíkur.

„Staðan er sú að það er verið að bíða eftir afstöðu sveitarfélaganna og svo þegar það verður komið, og ef þetta gengur eftir, þá verður farið í að fá listaverkið til landsins og það yrði þá væntanlega afhent í haust,“ segir hann.

Staðsetningin óákveðin

Magnús segir að útlit verksins sé það eina sem búið er að ákveða, önnur atriði eins og staðsetning verksins liggi ekki fyrir. „Þetta er enn á grunnstigi,“ segir hann. Kostnaðurinn við gjöfina er áætlaður um fjórar milljónir króna og myndu sveitarfélögin sem taka þátt í kostnaðinum skipta honum á milli sín.