Málverk eftir Gustav Klimt, sem var týnt í hátt í heila öld, var selt á uppboði í liðinni viku. Var það selt fyrir 30 milljónir evra eða um 4,5 milljarða íslenskra króna og er það met í Austurríki þar sem uppboðið fór fram. Verkið, sem ber titilinn „Bildnis Fraeulein Lieser“, var selt galleríi í Hong Kong, HomeArt, þrátt fyrir að efasemdaraddir um uppruna þess hafi vafist fyrir einhverjum kaupendum, segir AFP.
Portrettið, sem er frá 1917, hafði ekki sést opinberlega síðan á sýningu í Vínarborg árið 1925 fyrr en nýlega, þegar það var auglýst til sölu af uppboðshúsinu im Kinsky. Verkið var upphaflega pantað af gyðingafjölskyldunni Lieser og er síðan talið hafa komist í hendur nasista í heimsstyrjöldinni síðari.