Nær „Sviðslistahópurinn Óður gerir vel með að færa óperuna nær áhorfendum,“ segir í rýni. Hópinn skipa Sigurður Helgi, Sólveig Sigurðardóttir, Þórhallur Auður Helgason, Ragnar Pétur Jóhannsson og Áslákur Ingvarsson.
Nær „Sviðslistahópurinn Óður gerir vel með að færa óperuna nær áhorfendum,“ segir í rýni. Hópinn skipa Sigurður Helgi, Sólveig Sigurðardóttir, Þórhallur Auður Helgason, Ragnar Pétur Jóhannsson og Áslákur Ingvarsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þjóðleikhúskjallarinn Póst-Jón ★★★★· Tónlist: Adolphe Adam. Texti: Adolphe de Leuven og Léon Lévy Brunswick. Íslensk þýðing og handrit: Sólveig Sigurðardóttir og Þórhallur Auður Helgason. Íslensk þýðing á aríu Bísjú: Ragnar Pétur Jóhannsson. Leikstjórn: Tómas Helgi Baldursson. Tónlistarstjórn og píanóleikur: Sigurður Helgi. Sviðshreyfingar: Bjartey Elín Hauksdóttir. Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson. Flytjendur: Áslákur Ingvarsson (barítón, greifi), Ragnar Pétur Jóhannsson (bassi, Bisjú), Sólveig Sigurðardóttir (sópran, Ingibjörg) og Þórhallur Auður Helgason (tenór, Jón). Sviðslistahópurinn Óður frumsýndi í Þjóðleikhúskjallaranum laugardaginn 16. mars 2024, en rýnir sá sýninguna á sama stað sunnudaginn 7. apríl 2024.

Tónlist

Magnús Lyngdal

Magnússon

Sviðlistahópurinn Óður hefur látið að sér kveða á undanförnum árum, það er að segja allt frá því að hópurinn setti upp Ástardrykkinn eftir Donizetti (2021); í fyrra setti hópurinn svo upp Don Pasquale eftir sama tónskáld. Nú var röðin komin að gamanóperunni Le postillon de Lonjumeau eftir Adolphe Adam við texta þeirra Adolphes de Leuvens og Léons Lévys Brunswicks. Sýningin var sungin á íslensku og fékk verkið heitið Póst-Jón í íslenskri þýðingu.

Að eigin sögn er markmið Óðs að „útrýma þeim háa þröskuldi sem almennir áhorfendur upplifa við að horfa á óperur.“ Hópurinn trúir þannig á „nálægð við áhorfendur og einlæga túlkun á tungumáli sem áhorfendur skilja“ og „neitar að geyma óperur í glerkössum.“ Það voru sannarlega engir glerkassar á uppfærslunni á Póst-Jóni sem ég sá í Þjóðleikhúskjallaranum á dögunum. Þessi vettvangur er kannski ekki kjörinn fyrir óperuflutning en hópurinn gerði mikið úr litlu og notaði salinn vel. Raddir bárust, eðli málsins samkvæmt, vel og söngvararnir þurftu lítið að beita sér til þess að ná til áheyrenda. Á stöku stað var hljómurinn ívið of sterkur en annars var raddbeiting til fyrirmyndar og framburður skýr; söngvarar komu textanum vel frá sér. Þýðingin féll oftast ágætlega að tónlistinni, en hún var að hluta til staðfærð (það var til að mynda skemmtilegt þegar fánaskipti voru á píanóinu). Inn á milli voru þó steypumót á þýðingunni („Héðan er hann alfarinn / hættur að bera út póstinn“) en annars staðar var hún býsna góð („Listarinnar vegna / læt ég vera að farga mér“).

Póst-Jón er vissulega gamanópera en verkið er marglaga og það dregur óperuformið (og raunar óperuheiminn) sundur og saman í háði, auk þess sem það hefur siðferðislegan boðskap. Verkið er vel samið og tónskáldið vitnar hér og þar í verk annarra tónskálda af miklu listfengi (sönglagið „Ó, helga nótt“ gerði Adam frægan árið 1847, en undanfari þess skýtur upp kollinum í Póst-Jóni).

Raddlega séð var verkið ágætlega flutt. Söngvararnir komu kannski ívið „kaldir“ á svið en þeim óx ásmegin. Ég get í sjálfu sér ekki gert upp á milli þeirra og söngvararnir fjórir, Þórhallur Auður Helgason (Jón), Sólveig Sigurðardóttir (Ingibjörg), Áslákur Ingvarsson (greifinn) og Ragnar Pétur Jóhannsson (Bisjú) stóðu sig öll vel; flest þeirra sýndu líka mikla raddlega breidd, ekki hvað síst Sólveig. Ég hló mest að Bisjú (Ragnar Pétur) en hlutverk hans bauð líka upp á það.

Leikstjórn var í höndum Tómasar Helga Baldurssonar og um sviðshreyfingar sá Bjartey Elín Hauksdóttir. Þá hannaði Jóhann Friðrik Ágústsson lýsingu og hér gildir það sem ég nefni að ofan: Það var gert mikið úr litlu. Tónlistarstjórn var í höndum Sigurðar Helga, sem lék á (upprétt) píanó. Leikur hans var oftast býsna góður.

Nú þegar Íslensku óperuna hefur þrotið örendið er þing í að fá óperuflutning hér á landi. Sviðslistahópurinn Óður sýnir með uppfærslu sinni í Þjóðleikhúskjallaranum að ekki þarf alltaf að kosta miklu til. Um var að ræða hina bestu kvöldskemmtun. Auðvitað er ekki hægt að leggja að jöfnu sýningar í Þjóðleikhúskjallaranum og sýningar á stóru sviði með hljómsveit í gryfjunni en sviðslistahópurinn Óður gerir vel með að færa óperuna nær áhorfendum.