Ólafur R. Dýrmundsson
Sá sem þetta ritar er jafnaldri lýðveldisins og man fyrst eftir forsetakosningunum 1952. Allir forsetarnir okkar hafa unnið þjóðinni vel, hver með sínum hætti, hvort sem þeir hafa áður haft afskipti af stjórnmálum eða ekki, nú síðast Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur. Ég fagna því mjög að Katrín Jakobsdóttir fv. forsætisráðherra skuli vera í framboði við forsetakosningarnar í vor.
Vel á annan áratug hefur Katrín sinnt margvíslegum trúnaðar- og embættisstörfum til almannaheilla af kostgæfni og notið mikils trausts í þjóðfélaginu. Þá er hún ágætlega menntuð, rithöfundur góður, vel máli farin og góður málsvari mannréttinda og lýðræðis enda þekkt fyrir víðsýni og óvenju góða samskiptahæfileika. Katrín hefur mikla reynslu af stjórnsýslu þjóðarinnar og hefur ætíð leitað sátta í deilumálum. Aðkoma hennar að áföllum svo sem í tengslum við covid-faraldurinn, snjóflóð á Austfjörðum og eldgosin í nágrenni Grindavíkur hefur sýnt hve góður leiðtogi hún hefur reynst fólkinu í landinu. Við forsetastörf kæmu sér vel sterk tengsl hennar við áhrifafólk í Evrópu og víðar í heiminum. Hvað atvinnuvegi þjóðarinnar varðar hefur Katrín m.a. sýnt málefnum bænda góðan skilning og iðulega bent á að íslenskur landbúnaður tryggi best fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar.
Gleðilegt sumar, veitum Katrínu Jakobsdóttur brautargengi við forsetakosningarnar í vor!
Höfundur hefur doktorspróf í búvísindafræðum.