Ég átti orðastað við Lilju Dögg Alfreðsdóttur ráðherra fjölmiðlamála í liðinni viku. Þar ræddum við mikilvægi þess að draga úr yfirburðastöðu Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði og auka svigrúm einkarekinna miðla.
Þegar ráðherrann hafði greint frá því að hún teldi lausnina ekki felast í því að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði sagði hún: „Ef háttvirtur þingmaður er með einhverja frábæra lausn á þessu máli þá má hann alveg deila henni hér með mér.“ Ég sagðist glaður koma lausnum Miðflokksins í þessu máli til ráðherrans hið fyrsta.
Og því erum við hér í dag.
Miðflokkurinn hefur lagt fram betri og raunhæfar leiðir til að styðja við einkarekna miðla um leið og fíllinn í stofunni er sendur í megrun.
Tillögurnar eru tvíþættar:
Annars vegar að almenningur fái að velja með hvaða hætti stuðningur skilar sér til einkarekinna fjölmiðla með því að ráðstafa sjálfur hluta útvarpsgjaldsins á skattskýrslu hvers árs, til fjölmiðils að eigin vali.
Hins vegar er horft til þess að styrkja innlenda dagskrárgerð í gegnum samkeppnissjóð sem verður fjármagnaður með auglýsingasölu hjá Ríkisútvarpinu. Skoðum þetta aðeins nánar:
Valfrelsi almennings: Við skattskil hefðu einstaklingar sjálfræði um það til hvaða fjölmiðils greiðslur þeirra til fjölmiðla, eða útvarpsgjaldið, renni.
Miðað er við að á fyrsta ári verði að hámarki 10% heildarupphæðar útvarpsgjaldsins ráðstafað með þessum hætti, 20% á öðru ári og hlutfallið nái hámarki á þriðja ári þegar allt að 30% af útvarpsgjaldinu verði ráðstafað til einkarekinna miðla.
Þingmenn Miðflokksins hafa þrisvar lagt fram þingsályktunartillögu þessa efnis en hún ekki komist til atkvæðagreiðslu.
Samkeppnissjóður til stuðnings innlendri dagskrárgerð: Helmingur af auglýsingasölu og tekjum af kostun hjá Ríkisútvarpinu renni í sjóð sem styðji við innlenda dagskrárgerð.
Auðvelt verður að halda utan um þetta í dótturfélagi Ríkisútvarpsins sem þegar heldur utan um auglýsingasölu og kostun.
Með þessu næst fram markmið um að styðja með öflugum hætti við innlenda dagskrárgerð.
Með þessari nálgun mætum við þeim áhyggjum sem lýst hefur verið af að erfitt verði að ná til tiltekinna hópa ef Ríkisútvarpið verður tekið af auglýsingamarkaði. Þannig er einnig brugðist við athugasemdum um að fjármagn sem nú rennur til auglýsingakaupa hjá Ríkisútvarpinu kynni að leita til erlendra aðila en ekki til einkarekinna íslenskra fjölmiðla, verði Ríkisútvarpið tekið af auglýsingamarkaði.
Þessu til viðbótar eru fleiri góðar leiðir til að styðja við einkarekna fjölmiðla – aðrar en að setja þá á fjárlög. En þessum lausnum er hér með komið á framfæri við ráðherra og henni er frjálst að gera þær að sínum. Við í Miðflokknum erum nefnilega í lausnabransanum.
Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is