40 ára Erna ólst upp í Garðabæ en býr nú með fjölskyldu sinni í Vesturbænum í Reykjavík. Hún er lögfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og starfar sem ráðuneytisstjóri mennta- og barnamálaráðuneytisins. „Mér hefur alltaf þótt gaman og mikilvægt að gera gagn, eða a.m.k. reyna það, og þá ekki síst í þágu þeirra sem ekki endilega hafa færi á því sjálf. Ég er því afar þakklát og áhugasöm um vinnuna mína og öll verkefnin í mennta- og barnamálaráðuneytinu sem eru að mínu mati ein þau brýnustu fyrir íslenskt samfélag.“
Þegar Erna er ekki í vinnu eða að sinna þeim fjölmörgu verkefnum sem fylgja því að eiga húsnæði, börn og ketti, þá finnst henni skemmtilegt að ferðast og upplifa nýja hluti með fjölskyldu og góðum vinum og syngja – hvort sem er í kórstarfi, karókí eða í bílnum. „Auk þess er ég svo heppin að eiga fast sæti í nokkrum misvirðulegum hópum frábærs fólks sem taka sér ýmislegt fyrir hendur og eiga það sameiginlegt að hafa að markmiði að njóta lífsins og taka það ekki alltof alvarlega – mottó sem ég reyni reyndar að taka alvarlega – þó það gangi misvel.“
Fjölskylda Eiginmaður Ernu er Jens Þórðarson, f. 1982, framkvæmdastjóri Geo Salmo og bassi í Karlakórnum Esjunni. Þau hafa verið saman frá því að þau kysstust á árshátíð Framtíðarinnar í MR veturinn 2002, þegar Erna var 17 ára, og gift síðan 2008. Þau hafa eignast saman fjögur börn, Lárus, f. 2009, Sólrúnu, f. 2012, Benedikt, f. 2016, d. 2016, og Úlfar, f. 2020. Foreldrar Ernu eru hjónin Soffía Ófeigsdóttir, f. 1961, framhaldsskólakennari, og Lárus L. Blöndal, f. 1961, lögmaður og forseti ÍSÍ.