Arnheiður Ingólfsdóttir fæddist 16. apríl 1942. Hún lést 10. apríl 2024. Arnheiður var jarðsunginn 23. apríl 2024.

Þegar við systkinin fengum þær fregnir að Addí föðursystir okkar væri látin þá brá okkur í fyrstu, svo urðum við hissa því ekki áttum við von á því að hún myndi falla frá svona skyndilega, sorgin fylgdi svo en í bland við mikla væntumþykju og gleði yfir því að hún hefði varið síðustu páskunum með sínum nánustu, þeim Stínu og Ingó og mökum þeirra og börnum. Addí frænka var hlý, góð og ótrúlega þolinmóð. Við munum ekki eftir því að hún hafi nokkru sinni svo mikið sem hækkað róminn, alltaf yfirveguð með jafnaðargeð sem aldrei brást. Addí var mikil blómakona eins og systkini hennar og móðir, alltaf úti í garði að huga að blómum og runnum.

Ein af okkar fyrstu minningum tengdum Addí frænku var þegar hún og fjölskyldan í Seljahverfi fengu sér hund af sveitabæ á Norðurlandi og átti því svolítið ferðalag fyrir höndum sér áður en hún kæmist til fjölskyldunnar í Reykjavík. Við vorum búsett á Akureyri á þeim tíma og kom það í okkar hlut að hýsa tíkina yfir nótt. Við systkinin vorum alveg í skýjunum yfir henni og trúðum því varla að það væri kominn hundur á heimilið og vonuðum eiginlega að við fengjum að halda henni. En hún komst suður áfallalaust og okkur þótti alltaf svo ógurlega gaman að koma í heimsókn til Addíar og Gísla, fara út að ganga með hundinn og skoða alla fallegu steinana sem þau hjónin höfðu safnað á ferðalögum sínum. Þar voru alls kyns gimsteinar og kristallar svo undurfagrir að það var erfitt að trúa því að þeir fyndust á Íslandi. Í okkar minningu þekktu þau hvern krók og kima landsins og áttu sögu að segja frá hverjum stað. Það var líka spennandi að hlaupa upp hringstigann í húsinu þeirra í Seljahverfinu og skoða dótið uppi á háaloftinu. Þar fengum við líka að gista í ófá skipti. Addí var alltaf mjög gestrisin og hafði allt til alls.

Seinustu árin hafa nær allar okkar samverustundir með Addí verið í Reykjakoti, sumarbústað hennar og foreldra okkar, Guðmundar bróður hennar og Brynju eiginkonu hans. Þar höfum við unnið garðvinnu saman, eldað og hlegið, en fyrst og fremst notið þess að vera í góðum félagsskap. Í Reykjakoti kynntumst við nýrri hlið á frænku okkar og náðum nánari tengingu við hana. Eitt skiptið sat Bjartur að spjalli með Addí og var hann að spyrja hana út í líðan og heilsu í ljósi þess að hún var nýstaðin upp úr veikindum. Hún bar sig vel og sagði: „Jú, þetta er erfitt og tekur á en maður heldur áfram.“ Umræðurnar héldu áfram en fóru svo að snúast um hugarfar fólks gagnvart áskorunum og áföllum lífsins. Þá spyr Addí hann Bjart hvort hún megi segja honum eitt … „veistu, raunverulega finnst mér þetta ekkert erfitt. En ég segi fólki að þetta sé erfitt til að sýna þeim samkennd.“ Og í okkar huga er þetta hún Addí föðursystur okkar í hnotskurn, yfirveguð og hlý kona sem tók lífinu af stóískri ró.

Drífa, Yrsa og Bjartur.