Sjómenn víða um land eru nú að gera báta sína klára fyrir strandveiðar. Aðstæðum og hefðum samkvæmt róa margir úr höfnum á vestanverðu landinu og sérstaklega eru umsvifin mikil á Snæfellsnesi. Úr höfnum þar eru gerðir út tugir bátar, það er á Arnarstapa, á Rifi og í Ólafsvík. Á síðastnefnda staðnum var Árni Einarsson, sem gerir út Hjördísi SH, nú um helgina að vinna í bát sínum og gera sjóklárt.
Standveiðarnar hefjast á fimmtudaginn, 2. maí, og leyfilegt aflamagn í sumar verður ekki minna en 10 þúsund tonn af þorski. Veiðar eru heimilaðar fjóra daga í viku, það er frá mánudegi til fimmtudags. Óheimilt er að róa á lögbundnum frídögum.
„Í fyrra voru gefin út strandveiðileyfi á alls um 750 báta og þetta gæti orðið svipað í ár,“ segir Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda. „Við væntum að leyfilegt aflamagn verði aukið þegar kemur fram á sumarið, því hvarvetna frá berast okkur fregnir um mikla fiskgengd á grunnslóð. 10.000 tonn er líka mjög takmarkað magn fyrir allan þann fjölda báta sem nú fara á sjó, samanber að í fyrra lauk veiðum um miðjan júlí.“
Sjómenn á Snæfellsnesi sem Morgunblaðið hafði tal af segja að á fiskislóð þar megi vænta góðs afla á næstunni. Í upphafi strandveiða á vorin þurfi ekki að fara út nema um 4-5 mílur. Þegar lengra líði fram á sumarið sé þó oft farið lengra svo sem að Látrabjargi þar sem oft megi fá góðan fisk. Verð fyrir fisk á mörkuðum sé líka ágætt um þessa mundir og fyrir kílóið af þorski fáist nú gjarnan fast að 500 kr. sbs@mbl.is