[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arsenal er áfram á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir sigur á Tottenham í grannaslagnum í Norður-London í gær, 3:2. Manchester City er stigi á eftir og á leik til góða eftir útisigur á Nottingham Forest, 2:0, en Liverpool stimplaði…

Arsenal er áfram á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir sigur á Tottenham í grannaslagnum í Norður-London í gær, 3:2. Manchester City er stigi á eftir og á leik til góða eftir útisigur á Nottingham Forest, 2:0, en Liverpool stimplaði sig út úr meistarabaráttunni með jafntefli gegn West Ham í London, 2:2.

Arsenal komst yfir gegn Tottenham með sjálfsmarki og síðan bættu Bukayo Saka og Kai Havertz við mörkum þannig að staðan var 3:0 í hálfleik. Cristian Romero og Son Heung-min minnkuðu muninn fyrir Tottenham og lokamínúturnar voru æsispennandi en Arsenal hélt fengnum hlut.

Í Nottingham voru það Josko Gvardiol og Erling Haaland sem skoruðu fyrir Manchester City, sem verður meistari, takist liðinu að vinna alla fjóra leikina sem eftir eru.

Sheffield United er fallið úr ensku úrvalsdeildinni eftir tap í Newcastle, 5:1, þar sem sænski framherjinn Alexander Isak skoraði tvö markanna. Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley náðu hins vegar í dýrmætt stig gegn Manchester United á Old Trafford en leikurinn endaði 1:1.

Diljá Ýr Zomers, landsliðskona í knattspyrnu, kom inn á í hálfleik og skoraði eitt marka OH Leuven sem gerði jafntefli, 3:3, við Club Brugge á útivelli í belgísku A-deildinni. Þetta var 20. mark Diljár í deildinni á tímabilinu en Leuven er efst ásamt Anderlecht þegar fjórar umferðir eru eftir.

Arnór Ingvi Traustason skoraði seinna mark Norrköping í gær þegar lið hans vann Häcken á útivelli, 2:1, í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Arnór lék allan leikinn og lið hans er komið með 10 stig úr sex leikjum og er í sjötta sæti.

Hamarsmenn eru komnir í kjörstöðu í einvíginu við Aftureldingu um Íslandsmeistaratitil karla í blaki. Hamar vann annan leik liðanna í Mosfellsbæ á laugardag, 3:0. Staðan er því 2:0 í einvíginu og Hamar getur tryggt sér titilinn á heimavelli í Hveragerði annað kvöld. Guðrún Arnardóttir, landsliðskona í knattspyrnu, skoraði eitt marka Rosengård á laugardaginn í sigri á AIK, 3:0, í sænsku úrvalsdeildinni. Rosengård er efst með níu stig eftir þrjár umferðir.

KA jafnaði metin við Aftureldingu í úrslitaeinvíginu í blaki kvenna með því að sigra, 3:1, í Mosfellsbæ. Þar er staðan 1:1 og þriðji leikur fer fram á Akureyri á miðvikudagskvöld en sá fjórði í Mosfellsbæ næsta laugardag.

Óðinn Þór Ríkharðsson, landsliðsmaður í handbolta, varð á laugardag svissneskur bikarmeistari. Hann skoraði níu mörk fyrir Kadetten sem vann RTV Basel í úrslitaleiknum, 38:33.

Karlalandslið Íslands í íshokkí féll á laugardag niður í 2. deild B á heimsmeistaramótinu þegar það tapaði fyrir Ísrael, 4:2, í hreinum úrslitaleik í lokaumferðinni í Króatíu á laugardag. Íslenska liðið tapaði þar með öllum fimm leikjum sínum í 2. deild A. Gunnar Arason og Unnar Rúnarsson skoruðu mörk Íslands í leiknum.

Afturelding náði í gær forystu, 2:1, í einvíginu við Gróttu um sæti í úrvalsdeild kvenna í handknattleik með sigri, 30:23, í þriðja leik liðanna í Mosfellsbæ. Markverðirnir voru í aðalhlutverkum, Saga Sif Gísladóttir varði 14 skot í marki Aftureldingar og Soffía Steingrímsdóttir 13 í marki Gróttu.

ÍR og Sindri standa vel að vígi í undanúrslitum umspilsins um sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik en bæði eru komin í 2:0 eftir sigra í fyrrakvöld. ÍR vann Þór á Akureyri, 100:89, og Sindri lagði Fjölni á Hornafirði, 91:88.

Orri Steinn Óskarsson var hetja FC Köbenhavn í gær þegar lið hans vann AGF, 3:2, í dönsku úrvalsdeildinni. Orri kom inn á sem varamaður í stöðunni 0:0 eftir 53 mínútur, skoraði fljótlega mark og önnur tvö undir lok leiksins. FCK komst í annað sætið en Mikael Anderson, sem lék allan leikinn með AGF, og hans félagar eru í fimmta sæti.